144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015.

Afkoma ríkissjóðs hélt áfram að batna árið 2014. Sú hefur verið raunin allt frá því að mestu erfiðleikar fjármálahrunsins 2008 voru að baki. Útlit er fyrir að batinn haldi áfram árið 2015 og þess vegna eru nú enn betri tækifæri en áður til að búa vel að íslensku samfélagi.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 er illa farið með þau tækifæri, því miður. Þar er grafið undan samfélagslega mikilvægum stoðum sem samstaða hefur verið um. Vegið er að markmiðum um jafnrétti til náms þegar nemendum 25 ára og eldri er meinaður aðgangur að bóknámi í framhaldsskólum. Gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu er áfram aukin og hækkanir ríkisstjórnarinnar á veika nema 1,9 milljörðum kr. Landspítalanum er haldið við þolmörk, engir peningar veittir í viðhald, alls óvíst er hvernig eigi að leysa læknaverkfall og stytta biðlista eftir aðgerðum sem hafa lengst vegna verkfallsins. Ráðist er á langtímaatvinnulausa og réttur þeirra til atvinnuleysisbóta er styttur á sama tíma og fjármagn til starfsendurhæfingar er skorið við nögl. Sáralitlu fjármagni er varið til uppbyggingar ferðamannastaða sem liggja margir undir skemmdum. Fjárveitingar sem námu 56 millj. kr. til lögreglu og ríkissaksóknara vegna átaks sem tengist börnum sem eru þolendur kynferðisofbeldis eru teknar út og skorið niður þannig að ekki verður mögulegt að halda áfram með átakið. Á sama tíma eru settar 130 millj. kr. eins og ekkert sé í óskynsamlegan flutning Fiskistofu.

Við framlagningu frumvarpsins var af óskiljanlegum ástæðum ekki gert ráð fyrir uppbyggingu nýs Landspítala eða auknu fé til vegamála, framlög til háskóla voru skorin niður og útvarpsgjald rann ekki óskert til RÚV. Það horfir til betri vegar í þeim málum og breytingar hafa verið boðaðar að hálfu stjórnarmeirihlutans.

Fjárlagafrumvarpið felur í sér óskynsamlega forgangsröðun og er það í takt við önnur verk ríkisstjórnarinnar. Fyrsta verk hennar var að lækka veiðigjöld þrátt fyrir metafkomu stórra fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar afsalaði ríkisstjórnin sér mörgum milljörðum í tekjur af nýtingu auðlinda þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin hefur ekki unnið að stöðugleika á vinnumarkaði heldur hafa aðgerðir hennar í ár gengið þvert á þau fyrirheit sem hún gaf aðilum vinnumarkaðarins við gerð síðustu kjarasamninga. Samkomulag um jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða er rofið einhliða sem mun leiða til lægri lífeyrisgreiðslna einstakra hópa og áætlun um að ríkið greiði fyrir starfsendurhæfingu samkvæmt samningum er svikin. Rifjum upp að tekjuskattsbreytingar árið 2014 komu hátekjufólki best. Með skattalækkunum til milli- og lágtekjufólks hefði verið hægt að leggja grunn að kjarasamningum til lengri tíma en eins árs. Þannig hefði verið lagður grunnur að sanngjarnri dreifingu raunverulegra kjarabóta sem hefðu ekki ógnað verðstöðugleika.

Árið 2014 tókst að halda aftur af verðbólgu sem er ánægjulegt. Við gerð síðustu fjárlaga var útlit fyrir að gjaldskrárhækkanir ríkisins leiddu til verðhækkana á árinu, en sem betur fer tókst að vinda ofan af hluta þeirra. Rétt er að minna á forustuhlutverk Reykjavíkurborgar í þeim efnum.

Seinustu fjárlög hefðu átt að búa til sterkari grunn undir stöðugleika og fjölbreytt atvinnulíf út um allt land. Því miður voru áform um sóknaráætlanir einstakra landshluta, fjárfestingarátak í innviðauppbyggingu og innleiðingu græna hagkerfisins öll skorin niður.

Heildarjöfnuður frumvarpsins til fjárlaga árið 2015 er áætlaður 4,3 milljarðar að teknu tilliti til þeirra breytinga sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til fyrir 2. umræðu.

Vakin er athygli á því að vaxtajöfnuður, sem er mismunur vaxtatekna og vaxtagjalda, verður meira en 64 þús. millj. kr. á árinu 2015, eða sem nemur um 10% af öllum tekjum ríkissjóðs á árinu. Mikilvægt er að vinna á skuldum ríkissjóðs þegar færi gefast til að búa í haginn fyrir framtíðina til að auka traust og trúverðugleika á íslensku efnahagslífi og íslenskri krónu. Það er forsenda fyrir því að hægt sé að endurfjármagna lán ríkisins á lægri vöxtum og fá aukið fjármagn erlendis frá til að standa undir frekari uppbyggingu hér á landi. Til að ná þessum markmiðum þarf ábyrgð og aga við stjórnun ríkisfjármála. Verk ríkisstjórnarinnar bera þess því miður ekki merki. Hún hefur kosið að innheimta lægri gjöld fyrir nýtingu auðlinda landsins og ráðstafa auknum skatttekjum til annarra verkefna, t.d. skuldaniðurfellingu til sterkefnaðra. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru þensluhvetjandi, kynda undir verðbólgu, auka neyslu og útflæði gjaldeyris sem er mjög slæmt ef leysa á alvarlegan greiðslujöfnunarvanda þjóðarbúsins og afnema gjaldeyrishöft. Gjaldeyrishöftum er enn viðhaldið vegna vantrausts á íslensku krónunni og íslensku efnahagslífi.

Virðulegi forseti. Á árinu 2014 var hagvöxtur og afkoma ríkissjóðs betri en áætlanir gerðu ráð fyrir þrátt fyrir þung orð forustumanna ríkisstjórnarinnar við gerð síðustu fjárlaga um að þeir hefðu tekið við búi sem væri að þrotum komið. Það var leikrit til að réttlæta þungar niðurskurðaraðgerðir á uppgangstímum við gerð síðustu fjárlaga.

Þessi vöxtur skilar sér áfram inn í árið 2015. Innheimta tekjuskatta af einstaklingum og lögaðilum mun aukast. Hafa skal þó í huga að stór hluti af tekjum frá lögaðilum kemur frá fjármálafyrirtækjum og aðilum sem þjónusta þrotabú fallinna fjármálafyrirtækja. Þegar öldurót hrunsins róast frekar gætu þessar tekjur orðið lægri.

Lagður var sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki árið 2014 sem lagðist af mestum þunga á þrotabú fallinna fjármálafyrirtækja og heimtur þar eru betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það er jákvætt og rétt að við rifjum upp að Samfylkingin studdi álagningu skattsins þótt ekki hefði verið samstaða um hvernig ríkisstjórnin ákvað að verja þeim skatttekjum.

Boðaðar eru breytingar á virðisaukaskattskerfinu og vörugjöldum. Matarskattur, neðra þrep virðisaukaskattsins er hækkaður og vörugjöld eru felld niður. Að sögn ríkisstjórnarinnar eiga þessar aðgerðir að auka ráðstöfunartekjur heimila sem er göfugt markmið í sjálfu sér. Þegar ríkið afsalar sér skatttekjum verður að skoða hvert ávinningurinn skilar sér. Þegar það er gert kemur í ljós að breytingarnar munu gagnast þeim tekjuhæstu mun betur en þeim tekjulægstu.

Ráðstöfunartekjur 10% ríkustu landsmanna munu aukast fjórfalt meira vegna aðgerðanna en þeirra sem eru með meðaltekjur. Áætla má að ríkustu 10% fái 40 þús. kr. frá ríkisstjórninni á ári með þessum aðgerðum meðan millitekjufólk fær fjórfalt minna eða 10 þús. kr. Tekjulægri hópar fá enn minna.

Hækkun matarskattsins mun bitna harkalega á þeim sem eiga erfitt með að ná endum saman í lok hvers mánaðar og mun stuðla að óhollari matarinnkaupum. Grænmeti og hollar vörur munu hækka í verði en sykraðar vörur munu lækka í verði vegna þess að vörugjald á sykur, sykurskattur, er fellt niður. Við skulum muna það að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sett sykur á válista vegna skaðsemi hans á heilsu manna. Hægri stjórnin ákveður að lækka sykraðar vörur og telur sér það til tekna. Annar ríkisstjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, var með fyrirvara á málinu þegar hugmyndirnar voru kynntar. Lítil innistæða var fyrir þeim fyrirvara því nú hefur verið tilkynnt að matarskatturinn muni hækka í 11% en ekki 12 og öll ríkisstjórnin styður málið.

Virðulegur forseti. Heilbrigðiskerfið þarfnast sérstakrar forgangsröðunar stjórnvalda. Niðurstöður nýlegrar könnunar sem Píratar stóðu fyrir sýna að rúmlega 90% landsmanna eru þessu sammála. Á Landspítalanum er staðan mjög alvarleg og þar vantar skýrari framtíðarsýn, bæði hvað varðar fjárframlög til rekstrar og viðhalds en ekki síður til byggingar nýs spítala og bættrar aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk. Heilbrigðisstofnanir víða um land eiga einnig í rekstrarerfiðleikum. Við heilsugæsluna þarf að styðja enn betur og það á við bæði á höfuðborgarsvæðinu og starfsemi heilsugæslunnar innan heilbrigðisstofnana. Stjórnarmeirihlutinn segist forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins en skilur það þó eftir í umtalsverðum vanda með fjárlagafrumvarpi 2015 og breytingartillögum við það.

Þegar fjárframlög á milli áranna 2013 og 2014 til Landspítalans eru greind kemur í ljós að aukning þeirra nýttist að takmörkuðu leyti til að auka þjónustu og bregðast við auknu álagi, enda stefnir í mikinn halla spítalans á árinu 2014.

Af þeim 6.400 milljónum sem hækkunin var á milli ára til Landspítalans var aðeins gert ráð fyrir að 1.690 millj. kr. yrði varið til þess að styrkja rekstrargrunn spítalans vegna komandi verka, en stærsti hluti fjármagnsins voru verðlagsuppbætur og uppbætur vegna launamála. Spítalinn stefnir í um 3 milljarða uppsafnaðan halla og óljóst er hvernig eða hvenær stjórnvöld hyggjast bregðast við þeim halla.

Halli ársins 2014 nemur um 1 milljarði kr. og er rúmur helmingur þess vegna vanbættra launagjalda, eða um 560 millj. kr. Einnig er ágreiningur á milli Sjúkratrygginga og spítalans um hver á að bera kostnað vegna lyfja upp á 220 millj. kr. sem spítalinn hefur borið. Þá eru um 180 millj. kr. af hallanum á árinu 2014 vegna aukins álags sem ekki er tekið tillit til í fjárlögum en nauðsynlegt er að gera ráð fyrir auknu álagi á spítalanum í nánustu framtíð, svo sem vegna fjölgunar eldri borgara. Aukning á dagdeildum á árinu 2014 er 4%, fjöldi skurðaðgerða hefur aukist um 2,6% og starfsemi bráðadeilda um 2%.

Verkfall lækna sem nú stendur yfir er mikið áhyggjuefni. Í fyrsta lagi lýsir það alvarlegu ástandi í heilbrigðismálum að læknar séu nú í verkfalli í fyrsta sinn og lausn deilunnar er því miður ekki í sjónmáli samkvæmt síðustu fréttum. Í öðru lagi mun verkfallið draga dilk á eftir sér bæði með auknu álagi á spítala og heilbrigðisstofnanir þegar það leysist og með samfélagslegu tjóni vegna þess að sjúklingar hafa þurft að bíða lengur eftir því að fá bót meina sinna. Því munu í einhverjum tilfellum fylgja lengri meðferðir, dýrari umönnun og aukið vinnutap þeirra sem sjúkir eru.

Með þeim hækkunum á greiðsluþátttöku heimila í heilbrigðiskerfinu, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu, hefur greiðsluþátttakan aukist um 1.911 millj. kr. vegna aðgerða þeirrar ríkisstjórnar sem tók við eftir kosningar til Alþingis vorið 2013. Árið 2013 voru útgjöld heimila vegna heilbrigðisþjónustu 31.717 millj. kr. Hækkunin nemur því rúmum 6% í heildina tekið en nemur tugum prósenta á ákveðnum sviðum, svo sem gjöld sem þeir greiða sem þurfa á hjálpartækjum og þjálfun að halda.

Þær gjaldskrárbreytingar sem tóku gildi 1. janúar 2014 miða allar að því að svara hagræðingarkröfu fjárlaga og lækka ríkisútgjöld. Áætlað er að þessar aðgerðir skili samtals um 541 millj. kr. á ári til lækkunar á útgjöldum ríkissjóðs en þær eru rúm 91 millj. kr. vegna hækkunar komugjalda í heilsugæslu, 200 millj. kr. vegna hækkunar gjalda fyrir sérgreinalæknishjálp, rannsóknir og myndgreiningu á stofum lækna og göngudeildum sjúkrahúsa, 150 millj. kr. vegna lækkunar á greiðsluþátttöku ríkisins í hjálpartækjum og 100 millj. kr. vegna lækkunar á greiðsluþátttöku ríkisins í þjálfun.

Þann 7. júlí síðastliðinn hækkuðu gjöld fyrir sérgreinalæknishjálp, rannsóknir og myndgreiningu. Gert er ráð fyrir að sú hækkun skili a.m.k. um 70 millj. kr. til lækkunar ríkisútgjalda á árinu og er liður í fjármögnun nýs samnings við sérgreinalækna, sem tók gildi 1. janúar 2014. Samtals er um að ræða áætlaða lækkun á ríkisútgjöldum á árinu 2014 með aukinni greiðsluþátttöku heimila sem nemur um 611 millj. kr.

Komugjöld munu hækka hjá sérgreinalæknum með reglugerð sem tekur gildi 1. janúar 2015 ef áform stjórnvalda ganga eftir. Í þeirri reglugerð verður birt gjaldskrá sem mun auka kostnað sjúklinga um 1.100 millj. kr. Ríkisstjórnin vill að sjúklingar greiði að fullu fyrir kostnaðinn við samninga sérgreinalækna með komugjöldum. Gjöldin lögðu sérgreinalæknar einhliða á sjúklinga meðan ósamið var við þá. Gjöldin voru greidd af ríkinu eftir að samningar náðust við sérgreinalæknana en á árinu 2015 verða þau lögð á sjúklinga af ríkisstjórninni. Auk þess mun kostnaður sjúklinga hækka um 200 millj. kr. vegna hærri viðmiðunarfjárhæða í greiðsluþátttökukerfi.

Þessar hækkanir á greiðsluþátttöku eru verulega slæmar vegna þess að fyrir er greiðsluþátttaka einstaklinga í heilbrigðiskerfinu of mikil. Óásættanlegt er hve margir leita sér ekki lækninga vegna þess að kostnaðurinn er of mikill. Samantekt Eurostat frá árinu 2012 sýnir muninn á Íslandi og hinum norrænu ríkjunum hvað þetta varðar.

4% Íslendinga sóttu sér ekki lækninga vegna kostnaðar sem þeir þurfa að bera árið 2012. Leiða má að því líkum að vegna þessa verði raunkostnaður ríkisins í heilbrigðiskerfinu meiri þar sem sjúklingar draga það að leita sér lækninga. Nauðsynlegt er að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu og brýnt er að afnema þær miklu hækkanir sem ríkisstjórnin hefur lagt á sjúklinga frá því að hún komst til valda. Óskiljanleg er sú forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að lækka gjöld greidd af þeim sem hafa ódýr sérleyfi til að nýta auðlindir þjóðarinnar en hækka gjöld sem greidd eru af sjúklingum.

Einnig er rétt að geta þess að fyrirhugaðar hækkanir á gjaldskrám á árinu 2015 eru verðbólguhvetjandi og munu hækka höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána sem því nemur.

Á síðasta kjörtímabili, þegar unnið var að því hörðum höndum að verja ríkissjóð falli og endurreisa samfélagið eftir efnahagsáfall, tóku margir saman höndum til að leysa það verk með farsælum hætti. Þar tóku skólarnir vel á með stjórnvöldum og tóku við fleiri nemendum en þeir fengu að fullu greitt með úr ríkissjóði. Það var mögulegt með ýmsum aðhaldsaðgerðum og frestunum á verkefnum sem þoldu tímabundna bið enda var það í áætlunum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að um leið og mögulegt væri hæfist uppbygging að nýju í skólakerfinu og á öðrum mikilvægum innviðum samfélagsins. Ný ríkisstjórn fer aðrar leiðir án nokkurs raunverulegs samráðs, leiðir sem eru sannarlega gagnrýniverðar.

Róttæk stefnubreyting í menntamálum er boðuð af menntamálaráðherra og ríkisstjórn í fjárlagafrumvarpinu og stjórnarmeirihlutinn snýr ekki frá þeirri stefnu með breytingartillögum sínum. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að fjármagna kjarasamninga framhaldsskólakennara að verulegum hluta til með fjöldatakmörkunum í framhaldsskólum. Gert er ráð fyrir hærra framlagi á hvern nemanda en nemendum fækkað á móti. Fækkun nemenda í framhaldsskólum sem tilkynnt er í fjárlagafrumvarpi 2015 miðast annars vegar við fækkun nemenda í bóknámi, sem eru eldri en 25 ára, alls um 562 ársnemendur, og hins vegar við minni árgang upp í framhaldsskóla. Vegna minni árgangs og minnkandi aðsóknar í framhaldsskóla var ákveðið, að sögn menntamálaráðuneytisins, að skerða nemendafjölda jafnt á alla skóla sem nemur um 2,5%, samtals 484 ársnemendur. Þá var í frumvarpinu gert ráð fyrir fjölgun nemenda á starfsbrautum um 130 ársnemendur. Heildarbreyting milli áranna 2014 og 2015 er því 916 ársnemendur samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Með þessum upplýsingum vekur ráðuneytið athygli á innritunarreglum í framhaldsskóla, þar sem í fyrsta forgangi eru m.a. nemendur sem nú þegar stunda nám í framhaldsskólum, burt séð frá aldri. Engum sem er þegar í námi er því vísað úr framhaldsskólum, segja fulltrúar menntamálaráðuneytisins. Þrátt fyrir þessar skýringar frá menntamálaráðuneytinu þá gerir ríkisstjórnin í áætlunum sínum ráð fyrir því að allir þeir sem eru í bóknámi í framhaldsskólum og hafa náð 25 ára aldri verði ekki í framhaldsskólum á árinu 2015 og fjárveiting til skólanna miðast við það.

Breytingartillögur um fjölgun ársnemenda frá ríkisstjórn eru til fimm skóla. Þeir eru Menntaskólinn á Egilsstöðum, þar fjölgar nemendum um 23, Menntaskólinn við Hamrahlíð sem fær 14 til viðbótar, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra fær 15, Verkmenntaskólinn á Akureyri 20 og Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ fær 40. Þetta eru samtals 112 ársnemendur til viðbótar. Fjöldatakmarkanir miðast þá við, ef þær breytingartillögur verða samþykktar, 804 nemendur í fullu námi. Fjöldatakmörkunin kemur eftir sem áður mjög illa við marga skóla en verst við minni framhaldsskóla. Áætlað er að hlutfallslega verði fækkun nemenda mest hjá Framhaldsskóla Snæfellinga, eða um 18,4%. Fækkun nemenda við Menntaskólann á Tröllaskaga verður einnig mikil samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar, en þar fækkar nemendum um 17%. Um 12,2% fækkun verður í Fjölbrautaskólanum við Ármúla sem sinnir m.a. fjarnámi sem eldri nemendur nýta sér.

Í breytingartillögum stjórnarmeirihlutans er komið til móts við smærri skóla með 35 millj. kr. framlagi til að styrkja svokallað „gólf“, sem rekstur þeirra skóla er byggður á. Þrátt fyrir það er ljóst að slík fækkun nemenda sem boðuð er mun hafa mikil áhrif á rekstur skólanna og námsframboð einnig. Upptökusvæði minnstu framhaldsskólanna eru ekki mjög fjölmenn. Eldri nemendur sem vilja taka stúdentspróf eru þar hluti af heildinni sem gerir skólastarfið mögulegt í núverandi mynd. Með því að skikka þá til að sækja nám annað er verið að grafa undan rekstrargrundvelli skólanna og ógna tækifærum yngri nemenda til náms í heimabyggð. Þegar nemendum fækkar verður námsframboðið einhæfara og í kjölfarið fylgja uppsagnir starfsfólks.

Einn af mikilvægustu hornsteinum vænlegra búsetuskilyrða er gott aðgengi að námi á framhaldsskólastigi. Framhaldsskólarnir gegna mikilvægu hlutverki í samfélögum þar sem þeir starfa og menntunarstig í nánasta umhverfi nýrra framhaldsskóla hefur undantekningarlaust hækkað til muna eftir að þeir tóku til starfa. Nýlegustu dæmin eru Menntaskólinn á Tröllaskaga og Framhaldsskóli Snæfellinga þar sem skólarnir hafa með námsframboði sínu sinnt menntunarþörf svæðisins sem þeir starfa á með góðum árangri.

Góð viðbót við starf framhaldsskólanna á landsbyggðinni eru framhaldsdeildir og dreifnám. Fjármögnun hefur sums staðar verið á reiki og háð sóknaráætlun landshluta. Til að festa starfið í sessi er nauðsynlegt að tryggja fjármögnun í gegnum fjárlagaliði mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Fjölbreytni og sveigjanleiki hefur verið einn af helstu kostum framhaldsskólakerfisins en aðgerðir stjórnvalda munu nú draga úr þeim kostum. Stjórnvöld boða nú einnig styttingu námstíma til stúdentsprófs. Þó styttingin muni bæta samkeppnisstöðu íslenskra nemenda samanborið við jafnaldra sína í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við, þá mun hún einnig hafa afdrifarík áhrif á rekstur og námsframboð minni framhaldsskóla. Fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum sem framkvæma á á árinu 2015 eru ekki góður undanfari styttingarinnar og munu vinna gegn þeim breytingum á skólakerfinu.

Þá er bent á niðurskurð á fjármagni til námsráðgjafar fanga sem Fjölbrautaskóli Suðurlands hefur annast. Alþingi samþykkti í fjárlögum 2012 100% stöðu námsráðgjafa til að sinna föngum. Sú staða hefur nú verið skorin niður og er áformað að um 50% starf verði að ræða en það dugar alls ekki. Allir eru sammála um mikilvægi menntunar í betrunarferli fanga. Fjármagn til námsráðgjafar fanga þarf að koma í gegnum Fangelsismálastofnun svo það sé ekki takmarkað vegna fjárskorts Fjölbrautaskóla Suðurlands og neikvæðra afleiðinga fjöldatakmarkana í framhaldsskólum á rekstur þeirra.

Menntamálaráðherra hefur svarað gagnrýni á fyrirhugaðar fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum með því að benda á að 25 ára nemendur og eldri geti leitað til „skólagjaldaskóla“, svo sem símenntunarmiðstöðva til að undirbúa sig fyrir nám á háskólabrú þar sem boðið er upp á ígildi stúdentsprófs. Engar fjárveitingar eru hins vegar settar til símenntunarmiðstöðva eða þeirra skóla sem bjóða upp á ígildi stúdentsprófs en slíkt nám er í boði á Suðurnesjum í Keili og á Bifröst í Borgarfirði. Önnin í einkaskólunum kostar 225 þús. kr. en önnin í framhaldsskólunum kostar um 13 þús. kr. sem er innritunar- og efnisgjald. Augljóslega er það kostnaðarsamara fyrir nemendur að flytja búferlum og stunda nám í Keili eða á Bifröst þó að það geti hentað sumum ágætlega. Lykilatriði er að loka ekki þeim möguleika að 25 ára nemendur og eldri geti stundað bóknám í framhaldsskólum í heimahéraði. Með því verður mikill skaði fyrir þá einstaklinga sem hætta við að fara í nám fyrir vikið og skaði fyrir samfélagið sem ekki fær að njóta þess ávinnings sem aukið menntunarstig skilar.

Ríkisstjórnin var gagnrýnd harðlega fyrir að skera niður framlag til vinnustaðanámssjóðs. Því ber að fagna að þær fyrirætlanir hafi verið brotnar á bak aftur með framkomnum breytingartillögum.

Háskólar hafa líkt og framhaldsskólar tekið á móti fleiri nemendum en þeir fá greitt fyrir á undanförnum árum. Ríkisstjórnin leggur til breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem bætir stöðu þeirra frá því sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Betur má ef duga skal. Sem dæmi má nefna að Háskóli Íslands mun eftir sem áður ekki fá greitt með öllum nemendum sínum. Auk þess hefur skipting viðbótarfjárveitinganna á milli skóla verið gagnrýnd. Þá þarf að styrkja samstarfsnet skólanna með fjárframlagi og styðja við þá jákvæðu þróun sem samstarfsnetið hefur skilað á undanförnum árum.

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur verið mikið í umræðunni vegna sameiningaráforma við Háskóla Íslands, en menntamálaráðherra ákvað að falla frá þeim samningum. Í staðinn hefur ekki komið ný framtíðarsýn fyrir skólann, á hana skortir bæði hvað faglegt starf varðar og fjárhagslegt. Það er óásættanlegt fyrir skólasamfélag Landbúnaðarháskólans að þurfa að una við slíkt stefnuleysi. Sömu sögu má segja af Háskólanum á Hólum sem átt hefur við viðvarandi rekstrarvanda að stríða.

Mikilvægt er að auka fjölbreytni í útgáfu námsgagna og auka notkun á rafrænum námsgögnum. Samkvæmt 51. gr. laga um framhaldsskóla frá 2008 er reiknað með að ríkissjóður veiti framlag til námsgagna og nýjar skólanámskrár framhaldsskóla gera ráð fyrir nýju námsefni. Markmið framhaldsskólalaganna er að framhaldsskólinn verði gjaldfrjáls og að því ber að stefna.

Menntamálaráðherra og ríkisstjórn gera tillögu um að leggja á nemendur gjald fyrir rafræn námsgögn með lagafrumvarpi þar sem stjórnarmeirihlutinn gerir enga tillögu um framlag til námsgagnagerðar í framhaldsskólum. Einsýnt er að ætlunin er að nemendur greiði þróun námsgagna með sérstakri gjaldtöku sem hingað til hefur ekki verið heimil í lögum. Lagst er gegn slíkum áformum og þegar fjárhagur ríkisins fer batnandi er eðlilegt að veita fjármuni til námsgagnagerðar, þar með talið rafrænna námsgagna. Nú þegar greiða nemendur framhaldsskólanna samtals vel á annan milljarð kr. fyrir námsgögn og ekki er á þann kostnað bætandi.

Virðulegur forseti. Það virðist vera á sömu bókina lært hvort sem litið er á heilbrigðiskerfið eða skólakerfið, markmið stjórnvalda er að auka greiðsluþátttöku þeirra sem njóta þessara kerfa. Menntakerfið annars vegar og heilbrigðiskerfið hins vegar eru undirstaða velferðarkerfisins og þau tvö kerfi sem Íslendingar eru sáttir við og sammála um að styrkja. Mér sýnist að aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar hvað varðar bæði þessi kerfi stefni í þá átt að veikja kerfin og auka ójafnvægi þeirra sem í landinu búa og ójöfnuð. Því er mótmælt harðlega.

Hæstv. forseti. Í húsnæðismálum birtist undarleg forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Fjármunir eru færðir til tekjuhárra fjölskyldna sem eiga tugmilljónir í húsi sínu á kostnað tekjulágra leigjenda sem búa við fátækt og lítið sem ekkert húsnæðisöryggi á yfirfullum leigumarkaði.

Stórum hluta af auknum tekjum ríkissjóðs er varið í niðurgreiðslu á skuldum um 28% heimila landsins. Útfærsla aðgerðarinnar var samþykkt vorið 2014 og í nóvember sama ár voru upphæðir niðurfellinga flestra umsækjenda gerðar opinberar.

Rétt er að rifja upp að þegar skuldaniðurfellingar til húsnæðiseigenda voru samþykktar á þingi þá var breytingartillögum Samfylkingarinnar hafnað. Þar var lagt til að færa líka niður verðtryggð lán félagslegra húsnæðisfélaga öryrkja, sveitarfélaga, námsmanna og búseturéttarhafa. Það hefði verið gert á kostnað niðurfellinga til 5% ríkasta fólksins í landinu. Þannig hefði verið hægt að koma til móts við húsnæðisvanda hjá fátækustu heimilum landsins sem eru á leigumarkaði. Eins kaldhæðnislegt og það er þá komu fram upplýsingar sama dag og stóra millifærslan var kynnt til hluta heimila sem eru með húsnæðislán, að 20% barna í leiguhúsnæði skortir efnisleg gæði.

Þegar íbúðalán heimila eru skoðuð eftir tekjum kemur í ljós að tekjuhæstu 30% heimila skulda 64% af öllum íbúðalánum. Tekjulægstu 30% heimila skulda einungis 6% af íbúðalánum og eru skilin út undan. Fátt sýnir betur ósanngirni aðgerðarinnar nema ef vera skyldi gögn ríkisstjórnarinnar sjálfrar sem sýna að upphæð niðurfellinga til heimila vex með hærri tekjum. Hjón sem eiga meira en 25 millj. kr. í íbúð sinni fá 24 milljarða kr. í niðurfellingu, eða 30% af heildarupphæð niðurfellingarinnar.

Skuldaleiðréttingin svokallaða er því stór millifærsla á fjármunum frá viðkvæmustu hópum samfélagsins, ungu fólki og leigjendum, til tekjuhárra húsnæðiseigenda sem eiga tugi milljóna í eigin fé.

Á sama tíma og stóra millifærslan er greidd út má telja ljóst að ekkert verður gert til að koma til móts við raunverulegan húsnæðisvanda leigjenda og búseturéttarhafa. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa ítrekað gengið eftir loforðum ráðherra þess efnis á Alþingi. Nú þegar frumvarp til fjárlaga 2015 og breytingartillögur hafa verið lagðar fram virðist útséð um að þau loforð verði efnd, ekki frekar en fyrirheit um mun hærri og víðtækari skuldaniðurfellingar sem gefin voru í kosningabaráttunni 2013.

Nauðsynlegt er að samræma stuðning sem ríkið veitir í formi húsaleigubóta og vaxtabóta. Fjölskyldur eiga að njóta sama stuðnings óháð því hvort þau leigja eða eiga húsnæði. Það er best gert með upptöku húsnæðisbóta. Ríkisstjórnin segist stefna þangað en engum fjármunum var varið í verkefnið þegar frumvarpið var lagt fram og þegar breytingartillögur komu frá stjórnarmeirihlutanum var 400 millj. kr. varið til að hækka húsaleigubætur. Sú upphæð dugar skammt því grunnfjárhæðir og skerðingarmörk húsaleigubóta eru langt frá mörkum vaxtabóta. Upptaka húsnæðisbóta snýst ekki bara um að leiðrétta mismunun á milli eigenda og leigjenda heldur er hún líka forsenda fyrir því að á Íslandi myndist heilbrigður almennur leigumarkaður. Hann myndast ekki ef fjárhagslegir hvatar ríkisins ýta fólki af honum. Engin áform eru í fjárlagafrumvarpinu um að styðja við uppbyggingu almenns leigumarkaðar.

Stórir hópar búa við skort á húsnæðisöryggi og ráða ekki við háan húsnæðiskostnað. Biðlistar eftir félagslegu húsnæði eru langir og sveitarfélög eru mörg hver ekki í færum til að bregðast við brýnum vanda. Engum fjármunum er varið til að bregðast við þeirri erfiðu stöðu eða til að styðja við frekari uppbyggingu á félagslegu húsnæði í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015.

Þessu til viðbótar vil ég vekja athygli á því að viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta hafa nú verið óbreyttar frá árinu 2011 á sama tíma og laun, verðlag og húsnæðisverð hafa hækkað. Húsnæðisstuðningur ríkisins hefur því á liðnum árum lækkað umtalsvert að raungildi.

Með fjárlagafrumvarpinu er gengið á umsamin réttindi og það er með engu móti ásættanlegt. Ekkert samráð var haft við talsmenn launþega um styttingu á tímabili atvinnuleysisbóta eða þegar ákveðið var að greiða ekki hlut ríkisins í starfsendurhæfingu og draga til baka jöfnunarframlag til lífeyrissjóða vegna örorkubyrði.

Í frumvarpinu er lagt til að stytta tímabil sem atvinnuleitendur eiga rétt á til atvinnuleysisbóta um sex mánuði. Lagst er gegn þeirri breytingu. Hún mun bitna á hópi atvinnuleitenda sem er í þeirri erfiðu stöðu að hafa verið án vinnu í tvö og hálft ár. Áætlað er að 600–700 manns missi rétt sinn í upphafi árs 2015. Verði af breytingunni mun þessi hópur þurfa að reiða sig á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og kostnaður mun flytjast þangað. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er lægri en atvinnuleysisbætur og fátækt mun að öllum líkindum aukast. Breytingarnar eru fordæmalausar því réttindum til atvinnuleysisbóta er breytt án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Árið 2006 var tímabil atvinnuleysisbóta stytt úr fimm árum í þrjú. Eftir hrunið árið 2008 jókst atvinnuleysi og það hefur ekki gengið að fullu til baka þó að dregið hafi úr atvinnuleysi á síðustu árum. Í ljósi samráðsleysis og atvinnuleysis, sem enn er of hátt á viðkvæmum svæðum, verða breytingarnar enn óskiljanlegri.

Sé tekið mið af áætlunum sem voru gerðar samhliða setningu laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, hefðu fjárframlög til VIRK átt að nema 1.300 millj. kr. árið 2015. Í samráði við aðila vinnumarkaðarins við gerð fjárlaga fyrir árið 2014 var greiðslum til VIRK frestað gegn því að greiðslur hæfust árið 2015. Nú hefur það verið svikið. Með breytingartillögum upp á 200 millj. kr. til starfsendurhæfingar sem fram eru komnar frá stjórnarmeirihlutanum þarf að ganga úr skugga um að það dugi til þess að haldið verði úti góðu kerfi með jöfnum aðgangi. Leita þarf samráðs og samtals um það við fleiri aðila.

Í frumvarpi til fjárlaga 2015 er gert ráð fyrir að fyrirkomulag um jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða verði tekið til endurskoðunar. Þess vegna er framlag til jöfnunar örorkubyrði lækkað um 658 millj. kr., eða um 20%, og boðuð er áframhaldandi skerðing í fimm ár til viðbótar þangað til framlagið dettur út. Þetta er þvert á samkomulag sem ríkið gerði árið 2005 við aðila vinnumarkaðarins og gert án samráðs við þá. Breytingin mun koma verst niður á sjóðum með þunga örorkubyrði, það eru t.d. sjóðir verkamanna og sjómanna, og leiðir til að allt að 4,5% skerðingar á lífeyri sjóðfélaga. Ég vil taka undir með Alþýðusambandinu þegar það mótmælir harðlega þessum fyrirætlunum stjórnvalda. Í breytingartillögum stjórnarflokkanna er skerðingunni frestað og lagt til að hún taki ekki gildi fyrr en um mitt ár 2015 sem er skammgóður vermir.

Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að 10 milljörðum kr. verði varið til barnabóta og milljarði bætt við í breytingartillögum og telst hækkunin á úthlutun barnabóta frá árinu í ár vera mótvægisaðgerð við hærra matarverð vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Fráleitt er að upphæð sem er lægri að raunvirði en Alþingi samþykkti að verja til barnabóta í fjárlögum 2013 geti talist mótvægisaðgerð við matarskattinn. Barnabætur voru hækkaðar umtalsvert í fjárlögum 2013 og stefna síðustu ríkisstjórnar var sú að til framtíðar litið yrðu barnabætur ótekjutengdar líkt og annars staðar á Norðurlöndunum. Núverandi ríkisstjórn stefnir í þveröfuga átt því ekki er nóg með að lægri upphæð að raungildi sé látin renna til barnabóta en árið 2013 heldur eru tekjuskerðingarmörkin með þeim hætti að fólk með meðaltekjur nýtur þeirra varla. Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar hefst skerðing barnabóta við 200 þús. kr. mánaðarlaun hjá einstaklingum, þ.e. áður en lágmarkstaxta launa er náð, og 400 þús. kr. mánaðarlaunum hjá hjónum.

Í frumvarpinu er lagt til að framlengja bráðabirgðaákvæði um að heimilt sé að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða. Lagst er gegn framlengingunni og nauðsynlegt er að nýta allt fé úr sjóðnum til uppbyggingar á hjúkrunarheimilum. Það er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst andstöðu við að farin verði svokölluð leiguleið til að fjármagna uppbyggingu hjúkrunarheimila.

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir kjaraleiðréttingu lífeyrisþega umfram almennar hækkanir frumvarpsins sem eru 3,5%. Með breytingartillögum er þetta lækkað niður í 3%. Fjármálaráðherra lofaði í aðdraganda kosninga 2013 að afturkalla kjaraskerðingu sem eldri borgarar og öryrkjar höfðu orðið fyrir frá 1. júní 2009 og hætta skerðingum á bótaflokkum sem skerðast um krónu á móti krónu. Einu breytingarnar sem gerðar hafa verið eru að grunnlífeyrir skerðist ekki lengur vegna lífeyrissjóðstekna og frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega var hækkað. Hækkanir fyrri ríkisstjórnar tóku síðan gildi um sl. áramót en þá lækkaði skerðingarhlutfall tekjutryggingar úr 45% í 38,35%. Í skýrslu sem Talnakönnun hf. vann fyrir Öryrkjabandalagið kemur fram að meðalheildartekjur öryrkja hafa hækkað um 4,7% frá janúar 2009 til janúar 2013 en á sama tíma hækkaði launavísitala um 23,5% og verðbólga var 20,5% á tímabilinu. Lágmarksbætur héldu þó því sem næst í við launavísitölu. Það er gagnrýnivert að ríkisstjórnarflokkarnir hyggist ekki efna loforð sín hvað þetta varðar.

Forseti. Samfylkingin lagði fram þingsályktunartillögu um bráðaaðgerðir í byggðamálum í ellefu liðum sem allir eru í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun sem var samþykkt samhljóða á síðasta þingi. Meginmarkmið áætlunarinnar eru að jafna tækifæri landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Tillögurnar ellefu eru um aðgerðir sem lúta allar að lausn á bráðum vanda og eru auðveldar í framkvæmd. Margar aðgerðanna voru til umfjöllunar á síðasta þingi en hlutu ekki brautargengi stjórnarmeirihlutans.

Á síðustu árum hefur nýjum vinnubrögðum og nýjum meðulum verið beitt til að sporna gegn neikvæðri fólksfjöldaþróun sem hefur verið viðvarandi þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir og góðan vilja stjórnvalda. Nýjungarnar felast m.a. í gerð sóknaráætlunar 20/20 þar sem í fyrsta sinn var unnin heildstæð sóknaráætlun með víðtæku samráði. Ráðist var í gerð sóknaráætlana landshluta og stefnumótandi byggðaáætlun unnin með nýjum hætti. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri braut sem hefur verið mörkuð á undanförnum árum og byggist á alþjóðlega viðurkenndu verklagi sem vænlegt er til árangurs. Með sóknaráætlun eru aukin völd og ábyrgð færð til heimamanna við forgangsröðun og skiptingu opinbers fjár sem rennur til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar. Markmið sóknaráætlunar er að nýta fé betur, auka skilvirkni í samskiptum landshlutasamtaka við ríkisvaldið, stuðla að langtímaáherslum í stefnumótun og tengja þær við stefnu ríkisins í byggðamálum.

Auka þarf fjárframlög til sóknaráætlunar landshluta meira en gert er ráð fyrir í breytingartillögum stjórnarmeirihlutans en í fjárlagafrumvarpinu var lagt til að 15 millj. kr. yrði varið til sóknaráætlana landshluta. Sú tillaga gengur í raun út á það að leggja sóknaráætlun niður því upphæðin er svo lág. Breytingartillögur koma frá stjórnarmeirihluta um að bæta við 85 millj. kr. Þegar skrifað var undir fyrstu samninga um sóknaráætlanir í mars 2013 var 73 verkefnum úr öllum landshlutum tryggðar 620 millj. kr., þar af voru 400 millj. kr. fjármagnaðar af ríkinu.

Þverpólitísk sátt er meðal sveitarstjórnarmanna um sóknaráætlun landshluta enda er áætlunin unnin á grundvelli mikillar faglegrar vinnu þar sem aðkoma heimamanna í hverjum landshluta er tryggð og dýrmæt þekking þeirra á svæðunum nýtt.

Það er ánægjulegt að breytingartillaga um 300 millj. kr. aukið framlag í Fjarskiptasjóð sé fram komin frá stjórnarmeirihlutanum. Um er að ræða fjármagn til fyrsta áfanga framkvæmda við fyrirhugaða fjarskiptaáætlun. Háhraðatengingar þurfa að ná í allar dreifðar byggðir til að tryggja jafnræði á milli svæða við ákvörðun fólks og fyrirtækja um staðsetningu. Fjöldamargar hefðbundnar atvinnugreinar reiða sig nú á öflugt netsamband. Búreikningar í landbúnaði fara um net og vinnslur sækja í sífellt ríkari mæli í útflutning fersks fisks, sem krefst að sjálfsögðu öflugrar sítengingar við erlenda markaði og flutningsaðila. Háhraðatenging er forsenda fjölbreyttra lausna í menntamálum á landsbyggðinni og auðveldar samrekstur menntastofnana um langan veg. Háhraðatengingar eru auk þess mikilvægur stuðningur við nýsköpun, uppbyggingu ferðaþjónustu og annarra atvinnugreina í heimabyggð. Fjölmargar byggðir eru varla í posahæfu sambandi, svo dæmi sé nefnt, og geta því illa nýtt tækifæri í ferðaþjónustu. Nauðsynlegt er að lögð verði fram sem fyrst tímasett og kostnaðargreind áætlun um uppbyggingu háhraðatengingar um allt land og hringtengingu ljósleiðarans. Samkvæmt fjarskiptaáætlun á ráðherra að leggja fram aðgerðaáætlun til fjögurra ára eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti en hún hefur ekki litið dagsins ljós á þessu kjörtímabili.

Húshitunarkostnaður á köldum svæðum á landsbyggðinni er mun meiri en í þéttbýli og við því þarf að bregðast. Ná þarf sátt um frumvarp um jöfnunargjald á dreifingu raforku til að jafna þennan aðstöðumun. Gjaldtakan þarf að vera almenn og ná til allra, líka stóriðjunnar. Árið 2011 kom út skýrsla starfshóps iðnaðarráðuneytis um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar. Meðal tillagna sjóðsins var að grundvallarbreyting yrði á niðurgreiðslukerfi til húshitunar þannig að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis yrði niðurgreidd að fullu. Hópurinn gerði einnig tillögu um að jöfnunargjald yrði sett á til að mæta niðurgreiðslunni.

Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram frumvarp á þessu þingi og gerði það einnig á því síðasta en þar er gert ráð fyrir að gjaldtakan nái ekki til stóriðju en leggist aðeins á þá sem nýta sér dreifikerfin. Miklar athugasemdir voru gerðar við frumvarpið, einkum við það að stóriðju og öðrum stórnotendum væri hlíft við eðlilegu jöfnunargjaldi. Ef ekki er gripið til neinna aðgerða er útlit fyrir að aðstöðumunur milli þéttbýlis og dreifbýlis muni aukast vegna yfirvofandi hækkunar gjaldskrár í dreifbýli í kjölfar fækkunar notenda og einnig vegna áforma stjórnvalda um hækkun á virðisaukaskatti.

Tilraunaverkefni milli ríkisins og Byggðastofnunar um stuðning við brothættar byggðir sem hófst árið 2012 heldur áfram á árinu 2015 og er það vel. Þar hefur verið leitað lausna á nýjan hátt í nánu samstarfi við íbúa byggðarlaga sem standa sérstaklega veikum fótum. Úthlutun byggðakvóta hefur reynst mikil búbót fyrir sjávarpláss víða um land. Finna þarf sambærilega leið til að styrkja sveitarfélög í landbúnaðarhéruðum sem eru í vanda.

Greiðar samgöngur eru nauðsynlegar til að byggð vaxi og dafni um allt land. Þess vegna þarf að leggja aukna fjármuni til vega- og jarðgangagerðar. Mikið álag er á vegakerfinu vegna fjölgunar ferðamanna og nauðsynlegt vegna umferðaröryggis að sinna viðhaldi vega og til þess þarf auknar fjárveitingar. Á síðasta ári stóð ríkið ekki við samninga við landshlutasamtök sveitarfélaga um rekstur almenningssamgangna. Fjárframlög voru skorin niður á milli ára og fylgdu ekki verðlagsbreytingum. Standa þarf við gerða samninga svo að ekki komi til þjónustuskerðinga hjá Strætó bs. sem sér um rekstur almenningssamgangna víðs vegar um landið samkvæmt samningum við landshlutasamtök sveitarfélaga.

Það er líka mikilvægt að ríkið að komi að nauðsynlegri uppbyggingu hafna á iðnaðarsvæðum þar sem fyrirvörum í samningum vegna atvinnuuppbyggingar hefur verið létt. Ríkissjóður tekur þátt í framkvæmdum við Húsavíkurhöfn og lóðaframkvæmdum vegna iðnaðarsvæðisins á Bakka og framkvæmdum við höfnina á Bíldudal vegna fiskeldisvinnslu á árinu 2015. Nú hefur fyrirvörum verið létt og framkvæmdir hafnar við kísilver við Helguvík í Reykjanesbæ. Ríkisframlag vegna framkvæmda við Helguvíkurhöfn á árinu 2015 þarf að koma til fyrir nauðsynlegar framkvæmdir við höfnina vegna starfsemi kísilversins. Engar tillögur eru þar um í fjárlagafrumvarpinu eða breytingartillögum meiri hlutans.

Fjölgun ferðamanna á undanförnum árum kallar á aukna fjárfestingu sem mun styrkja atvinnulíf á landsbyggðinni. Verja þarf vinsæla ferðamannastaði fyrir ágangi og auka aðdráttarafl ferðamannastaða um allt land. Þannig verður hægt að dreifa ferðamönnum betur um landið og auðveldara verður að taka á móti fleiri ferðamönnum. Á síðasta þingi urðu fyrirhuguð áform um hækkun virðisaukaskatts á gistinætur í ferðaþjónustu að engu. Í úttekt Hagfræðistofnunar HÍ var áætlað að þau áform hefðu skilað um 3,4 milljörðum kr. í viðbótartekjur til ríkissjóðs árið 2012, ef við hefðum miðað við almennt virðisaukaskattsþrep. Síðan hefur ferðamönnum fjölgað hér umtalsvert. Þær tekjur áttu meðal annars að standa undir kostnaði við uppbyggingu ferðamannastaða og sóknaráætlanir landshluta.

Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra boðaði strax sumarið 2013 að fjármagna ætti uppbyggingu ferðamannastaða með náttúrupassa, en hefur látið hjá líða að útfæra þær hugmyndir í lagafrumvarpi þar til nýverið og þá í andstöðu við ferðamálafyrirtæki. Á sama tíma hefur ágangur á ferðamannastaði aukist hröðum skrefum og vandinn orðinn sífellt meiri. Nú er svo komið að fulltrúar bæði sveitarfélaga og ferðamálafyrirtækja kvíða næsta ári þar sem stjórnvöld trassa að styrkja innviði á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum. Aðeins er gert ráð fyrir 148 millj. kr. í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða á árinu 2015, en þar bíða hins vegar umsóknir upp á um 2 milljarða kr. afgreiðslu. Furðulegt er ef stjórnvöld átta sig ekki á nauðsyn þess að leggja þurfi aukið fjármagn til framkvæmda á ferðamannastöðum til að verja viðkvæmar náttúruperlur ágangi og auka öryggi ferðamanna. Svo virðist sem stefnuleysi og sinnuleysi stjórnvalda muni skaða þá vaxandi atvinnugrein sem ferðamannaiðnaðurinn er.

Virðulegi forseti. Það er mat stjórnar og stjórnenda RÚV að lengra verði ekki gengið í hagræðingu hjá fyrirtækinu miðað við núverandi þjónustu enda hafi gríðarlega mikið verið hagrætt á síðustu árum. Mikilvægt er að útvarpsgjaldið gangi óskert til fyrirtækisins eins og til hafi verið ætlast með fjölmiðlalögum. Fram hefur komið að fái RÚV allt útvarpsgjaldið dugi það til og ekki þurfi að skerða þjónustu frekar. Stjórnarmeirihlutinn hefur gert um það tillögu að lækka útvarpsgjaldið úr 19.400 kr. í 17.800 kr. og jafnframt að það gangi ekki að fullu til stofnunarinnar. Ef útvarpsgjaldið yrði áfram 19.400 kr. og gengi að fullu til Ríkisútvarpsins þá væri kominn grunnur undir reksturinn sem héldi, bæði hvað dagskrá varðar og viðhald á dreifikerfi. Breytingartillaga frá stjórnarmeirihlutanum lýtur að því að 17.800 kr. útvarpsgjald gangi að fullu til stofnunarinnar en það mun kalla á niðurskurð og leysir ekki vandann. Það mundi óbreytt útvarpsgjald hins vegar gera.

Við aðra umræðu fjárlaga tók meiri hlutinn ákvörðun um að leggja til að arðgreiðslur hækki um 700 millj. kr. með því að gera í fyrsta sinn ráð fyrir að Isavia greiði arð í ríkissjóð. Mál þetta hefur ekki verið kynnt í fjárlaganefnd og engin gögn lögð fram eða gestir boðaðir til að unnt sé að leggja faglegt mat á ákvörðunina sem slíka. Talsmenn Isavia segja að enginn afgangur sé af rekstri Keflavíkurflugvallar og hafi ekki verið á síðustu árum þegar tillit hefur verið tekið til fjárfestingar til að mæta síaukinni kröfu um þjónustu og aukinni umferð farþega um Keflavíkurflugvöll. Hagnaður Isavia á árinu 2013 verði að fara í það að búa í haginn fyrir stækkun og endurbætur á Keflavíkurflugvelli til að mæta þeirri síauknu umferð.

Í kvöldfréttum RÚV 1. desember sl. sagði formaður stjórnar Isavia, með leyfi forseta:

„Það er nú reyndar stjórnar hlutafélaga að gera tillögur um arðgreiðslur og það er eitt af verkefnum stjórnar Isavia að gera tillögu um það væntanlega þegar dregur nær aðalfundi félagsins.“

Af þessu er ljóst að engin arðgreiðslustefna hefur verið mótuð í samstarfi við stjórnendur félagsins. Það er ekki í samræmi við eigendastefnu ríkisins sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur fullyrt við fjárlaganefnd að unnið sé eftir. Dregið er úr getu félagsins til að taka á móti hraðvaxandi flugumferð á Keflavíkurflugvelli. Fram hefur komið að mikilvægt sé að endurnýja flugbrautir til þess að koma í veg fyrir mikið tjón sem kann að myndast fái þær að slitna án frekara viðhalds.

Í ársskýrslu Isavia frá árinu 2014 segir m.a., með leyfi forseta:

„Stóra spurningin er sú hvernig Isavia tekst að mæta þeim áskorunum sem fylgja um 10% árlegri farþegaaukningu á Keflavíkurflugvelli næstu fjögur til fimm árin. Undirbúningur að stækkun flugstöðvarinnar er því þegar hafinn. Auk þess eru fyrirhugaðar fjárfestingar við endurnýjun slitlags á flugbrautum. Sú endurnýjun er óhjákvæmileg á næstu árum en verkefnið mun kosta allt að 4 milljörðum króna eða að meðaltali um 500 milljónir króna á ári næstu átta árin.“

Óhjákvæmilegt er að milli 2. og 3. umr. verði forsvarsmenn Isavia boðaðir á fund fjárlaganefndar til að gera henni grein fyrir þeim áhrifum sem óvænt inngrip ríkisins í fjárstreymi félagsins kunna að hafa á nauðsynlega uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli og endurnýjun og viðhald flugbrauta. Jafnframt geri fjármála- og efnahagsráðuneytið grein fyrir því hvernig inngripið fellur að eigendastefnu ríkisins. Þá þarf meiri hluti fjárlaganefndar að útskýra betur hvað felst í langtímaáætlunum ríkisins í ljósi þeirra hugdetta sem fylla breytingartillögur hæstv. ríkisstjórnar og meiri hlutans.

Virðulegi forseti. Afar mikilvægt er að auka traust almennings á því hvernig fjármunum úr ríkissjóði er úthlutað og varið. Fjárlaganefnd Alþingis hafði mikið fyrir því á síðasta kjörtímabili að breyta úthlutun á óskiptum liðum fjárlagafrumvarpsins. Fyrir þá breytingu hafði fjárlaganefnd auglýst eftir umsóknum um styrki og tekið tugi umsækjenda ár hvert í viðtal áður en styrkir voru ákveðnir. Fyrirkomulagið hafði verið gagnrýnt harðlega í mörg ár, m.a. af Ríkisendurskoðun og fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem töldu að þarna væri lögð spillingargildra fyrir alþingismenn sem mætti ekki vera til staðar. Orðrómur var um að hv. þingmenn væru að hygla sínu fólki sérstaklega. Umbætur fjárlaganefndar gengu út á gegnsæi til að auka traust á því hvernig fjármunum ríkisins var skipt, á þarfagreiningu og eftirlit, bætta stjórnsýslu, yfirsýn yfir einstaka málaflokka og faglega umsýslu. Útgangspunkturinn var að fjárlaganefnd og fagnefndir gerðu tillögur um einstaka fjárlagaliði en sjóðir og félagasamtök, menningarráð landshluta, vaxtarsamningar sveitarfélaga og ráðuneyti sjái um dreifingu til einstakra verka eftir ákveðnum viðmiðum. Það voru ekki allir ánægðir með þetta umbótastarf fjárlaganefndar. Óánægðastir voru þeir sem höfðu greiðan aðgang að hv. þingmönnum og fjárlaganefnd. Þessu umbótastarfi fjárlaganefndar á síðasta kjörtímabili ætti að fylgja eftir með aðhaldi og eftirliti frá nefndinni og bæta vinnulag ef þörf er á.

Breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið 2015 eru hins vegar sumar hverjar í anda gamaldags vinnubragða. Meiri hluti nefndarinnar hefur með tillögugerð sinni rofið þá þverpólitísku sátt um verklag og vinnuferla sem tókst eftir mikla vinnu fulltrúa allra flokka á síðasta þingi. Vinnubrögð meiri hluta fjárlaganefndar eru gagnrýnd hvað þetta varðar og teljast þau bæði óvönduð og ógegnsæ.

Virðulegur forseti. Minni hlutinn allur í sameiningu hefur lagt fram breytingartillögur sem ég mun fara betur yfir í síðari ræðu minni. Þær lúta að velferðarmálum, að greiðsluþátttaka sjúklinga verði tekin til baka, og að sókn í velferðarmálum. Þar er verið að tala um að bregðast við afleiðingum biðlista sem verkfall lækna mun valda og að sérstakt framlag verði veitt til BUGL og aukin framlög til lífeyrisþega.

Lagt er til fjárframlag til þess að sjá til þess að framhaldsskólinn verði opinn fyrir alla og fjöldatakmörkun 25 ára nemenda og eldri í bóknám verði brotin á bak aftur. Lögð er áhersla á að RÚV fái framlag og sátt verði um þá stofnun og íslenska menningu með því að setja fjárframlög í nokkra þætti sem stuðla að því. Opinberir háskólar fái einnig úrlausn og lagt er til að Listaháskólinn fái fjárframlag vegna slæms ástands á skólahúsnæðinu.

Við viljum standa vörð um réttindi á vinnumarkaði og leggjum til að teknar verði til baka þær skerðingar og það inngrip inn í sátt og samninga sem stjórnarmeirihlutinn gerir og hæstv. ríkisstjórn með fjárlagafrumvarpinu. Síðan er lögð til uppbygging innviða, bæði á ferðamannastöðum og við höfnina í Helguvík. Einnig er gert ráð fyrir nýju framlagi í græna hagkerfið og hugað að réttlætis- og mannréttindamálum.

Virðulegur forseti. Tími minn er á þrotum og ég mun fara betur yfir breytingartillögurnar síðar í þessari umræðu, en hef lokið máli mínu.