144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:41]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kannast ekki við að síðasta ríkisstjórn hafi stútað einhverri vinnu. Staðan er hins vegar þannig, ef skoðuð er niðurstaða og greining Eurostat á því hvernig staðan er, að greiðsluþátttaka Íslendinga núna er of mikil. Hún var of mikil árið 2012 og þessi ríkisstjórn sem tók við sumarið 2013, sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson styður, hefur aukið greiðsluþátttöku og hefur áform um að auka hana enn á árinu 2015 þannig að hún nemi tæpum 2 milljörðum, aukningin nemur tæpum 2 milljörðum sem er aðeins verk þessarar ríkisstjórnar.

Nú má vera að hv. þingmaður hafi verið ósáttur við eitthvað sem síðasta ríkisstjórn gerði en núna erum við að horfa til framtíðar, ekki satt? Við þurfum að taka á þessum málum. Varla er staðan þannig að við eigum að auka álögur á sjúklinga fyrst álögur á sjúklinga voru miklar fyrir. Í greiningum Eurostat kemur fram að Ísland sker sig úr frá öðrum Norðurlöndum hvað varðar hversu stór hluti segist ekki leita sér lækninga vegna kostnaðar við heilbrigðisþjónustu. Það er mjög alvarlegt mál. Það var árið 2012. Það átti auðvitað sérstaklega við þá sem lægst hafa launin. Nú er hægri stjórnin að auka álögurnar og væntanlega fjölga þeim sem snúa frá læknisþjónustu til að fá bót meina sinna. Það er kostnaðarsamt, bæði fyrir samfélagið sem fær ekki að njóta krafta fólks sem verður fyrr heilbrigt og auðvitað líka fyrir sjúklingana sem neita sér um lækningu.