144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er að velta fyrir mér tveimur atriðum — þar sem hv. þingmaður er í fjárlaganefnd, sem ég var einu sinni í sælla minninga, en ekki lengur — og það varðar framhaldsskólann.

Hér hefur verið til umræðu frumvarp um framhaldsskóla, rafræn námsgögn og gjaldtökuheimildir. Það sem situr í minni hlutanum í því máli er ákveðinn ágreiningur milli minni hluta og meiri hluta. Hann lýsir sér þannig að í umræddu frumvarpi er gjaldtökuheimild til að heimila skólum að taka gjald af nemendum fyrir rafræn námsgögn. Minni hlutinn hváir við vegna þess að það hefur aldrei verið heimild til að rukka fyrir námsgögn og þar sem um er að ræða tilraunaverkefni, sem væntanlega á að vara einhvern ákveðinn tíma, óttast minni hlutinn að þetta sé í reynd varanleg breyting, enda er ekkert að marka tilraunina í sjálfu sér ef hún er framkvæmd á allt öðrum forsendum en hugsaðar eru til lengri tíma.

Ég velti því fyrir mér hvort þetta hafi verið rætt í hv. fjárlaganefnd, kostnaðurinn við að ríkið taki þetta upp og borgi fyrir þessi námsgögn eins og hlýtur að þykja eðlilegt ef manni þykir óeðlilegt að bæta við nýrri heimild til að rukka um námsgögn. Þetta eru upphæðir upp á 1,6 til 1,9 milljarða sem talað er um í samhengi við þetta frumvarp.

Ég velti fyrir mér hvort þetta hafi verið rætt í hv. fjárlaganefnd til þessa.