144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér við 2. umr. frumvarp til fjárlaga vegna ársins 2015.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 og meðfylgjandi ríkisfjármálaáætlun næstu fjögurra ára er sett fram ríkisfjármálastefna sem einkennist af hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Þessi nýfrjálshyggjustefna í ríkisfjármálunum gengur ekki aðeins gegn vilja yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar sem kýs að þróa áfram á Íslandi velferðarsamfélag af því tagi sem gerist annars staðar á Norðurlöndum heldur stangast hún jafnframt á við stefnu ríkisstjórnarinnar sjálfrar í fjölmörgum veigamiklum atriðum eins og ég rek hér nánar á eftir. Ríkisstjórn sem ekki er fær um að framfylgja eigin stefnu með trúverðugum fjárlögum í sátt við þjóðina á ekkert erindi við ríkisstjórnarborðið og ber að endurskoða stöðu sína.

Áður en lengra er haldið er rétt að gera athugasemdir við starfshætti í fjárlagavinnunni haustið 2014. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að vandað sé til verka í fjárlagavinnu hvers árs, enda um langmikilvægasta þingmál vetrarins að ræða. Af vinnubrögðunum að dæma mætti hins vegar halda að ríkisstjórnin líti á fjárlagafrumvarpið sem hvert annað vinnuskjal í stað þess stefnumarkandi skjals sem því ber auðvitað að vera. Nefna má í þessu samhengi að í fyrri hluta fjárlagafrumvarpsins sjálfs, Stefna og horfur, er gert ráð fyrir að neðra skattþrep virðisaukaskattsins verði hækkað úr 7% í 11%, en í glærukynningu fjármálaráðuneytisins á sama efni var síðari talan hins vegar sögð vera 12% í stað 11%. Gefin var út yfirlýsing í framhaldinu þar sem upplýsingarnar á glærunum voru sagðar réttar en ekki þær sem fram komu ítrekað í fjárlagafrumvarpinu sjálfu.

Um leið og frumvarpið var lagt fram kom í ljós að allur þingflokkur Framsóknarflokksins, ráðherrarnir meðtaldir, setti fyrirvara við frumvarpið vegna áðurnefndrar hækkunar á neðra þrepi virðisaukaskattsins. Því var sú ótrúlega staða komin upp að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra gerði fyrirvara við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þótt sjálfsagt sé og eðlilegt að frumvörp taki breytingum í meðförum þingsins hlýtur þingið einnig að gera þá kröfu á framkvæmdarvaldið að fyrir liggi skýr vilji þess þegar mál eru lögð fram og eftir atvikum breytt í meðförum þingsins. Eins og umræðan um fjárlagafrumvarpið hefur þróast verður vart hjá því komist að draga þá ályktun að sett hafi verið á svið leiksýning þar sem endir leikritsins lá allan tímann ljós fyrir þegar þingmenn Framsóknarflokksins fengu 12% breytt í 11% fyrir 2. umr.

Þá er einnig rétt að nefna miklar breytingar sem nefndar eru í greinargerð frumvarpsins en er ekki gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sjálfu og útreikningum því tengdu. Ber þar helst að nefna hækkun barnabóta sem nefnt er í frumvarpinu á bls. 424 að skuli koma til móts við hækkun virðisaukaskatts á matvæli. Þetta geta ekki talist vönduð vinnubrögð og benda þau til þess að ekki sé vandað nógu vel til verka í þessu mikilvægasta máli hvers löggjafarþings sem fjárlagafrumvarpið er. Þá eru ónefndar ítrekaðar frestanir meiri hlutans á málinu sem gerir það að verkum að málið er rætt talsvert seinna en gert var ráð fyrir í starfsáætlun þingsins. Ef mér telst rétt til þá held ég að umræðunni hafi verið frestað í fjögur skipti.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir gífurlegt efnahagsáfall í tengslum við hrun íslensku bankanna síðla árs 2008, með tilheyrandi skuldsetningu og tekjutapi ríkissjóðs, hófst efnahagsbati strax í lok árs 2010. Batinn hefur skilað sér í jafnt og þétt batnandi afkomu ríkissjóðs og nú er svo komið að tekjuhalli ríkissjóðs reyndist aðeins 732 millj. kr. á árinu 2013. Þegar halli ársins 2013 er borinn saman við hallann í ríkisreikningi ársins 2010 kemur í ljós að staðan hefur batnað um rúma 120 milljarða kr. frá hruni. Hallinn hefur farið úr 123 milljörðum árið 2010 í 89 milljarða árið 2011, þaðan í tæpa 36 milljarða árið 2012 og loks er hann undir milljarði árið 2013. Það er því ljóst á þessu að staða ríkissjóðs hefur farið jafnt og þétt batnandi og ætti hún að geta haldið áfram að batna ef rétt er haldið á spilunum.

Áður en lengra er haldið er rétt að spyrja: Hvernig náðist þessi viðsnúningur í ríkisfjármálunum? Hvernig stendur á því að afkoma ríkissjóðs hefur batnað jafnt og þétt eins og raun ber vitni? Til að svara þessu þurfum við að rifja upp að tekjustofnar ríkisins höfðu verið kerfisbundið veiktir í tíð ríkisstjórnanna fyrir hrun og stóðu engan veginn undir þeim miklu útgjöldum og tekjutapi ríkissjóðs sem efnahagshrunið hafði óhjákvæmilega í för með sér. Það var eitt höfuðverkefni síðustu ríkisstjórnar að styrkja aftur þessa tekjustofna, og ríkisfjármálin njóta nú góðs af því. Því kemur á óvart að hlusta á suma þingmenn meiri hlutans tala eins og niðurskurður síðasta kjörtímabils hafi verið pólitískt val; miklu heldur er rétt að tala um efnahagslega neyðarráðstöfun í kjölfar hruns og gjaldþrota efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins. Í þessu samhengi er það að sjálfsögðu höfuðatriði að tekjustofnar ríkisins verði ekki aftur veiktir frá því sem nú er.

Það er því, virðulegi forseti, mikið áhyggjuefni að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar eru boðaðar áframhaldandi miklar skerðingar á tekjum ríkisins til framtíðar. Nú þegar jöfnuði hefur verið náð í ríkisfjármálum léttir stjórnarmeirihlutinn gjöldum af þeim best settu, eykur skattbyrði almenns launafólks og heldur ríkisrekstrinum stöðugt í úlfakreppu ófullnægjandi fjárveitinga. Með ítrekaðri lækkun veiðigjalda, sem samkvæmt breytingartillögum við frumvarp til fjáraukalaga við 2. umr. verða aðeins 7,5 milljarðar kr. í heild á árinu 2014, hefur stjórnarmeirihlutinn a.m.k. helmingað þær tekjur sem afkoma sjávarútvegsins býður fyllilega upp á að hann greiði. Með ákvörðun um að láta auðlegðarskatt falla niður á einu bretti á næsta ári hverfa um 10 milljarðar í viðbót. Skattalækkun á miðþrepi tekjuskatts á þessu ári sem var þannig útfærð að hún gagnaðist best hinum tekjuhærri og alls ekkert láglaunafólki kostar ríkið milli 5–6 milljarða kr. Ríkisstjórnin áformar að framlengja ekki auðlindagjöld á orkugeirann í formi raforkugjalds um næstu áramót og mun ríkissjóður þannig verða af um 1,5 milljörðum frá og með árinu 2016. Miðað við þær tillögur sem fyrir liggja um niðurfellingu vörugjalds, að meðtöldum sykurskatti og lækkun á efra þrepi virðisaukaskatts, virðist tekjugrunnur ríkissjóðs dragast saman um nálægt 8 milljarða kr.

Ofantaldar breytingar leiða til þess að tekjugrunnur ríkisins er veikari svo nemur milli 30 og 40 milljörðum kr. og afkoma ríkisins að sama skapi lakari. Minna svigrúm er til að ráðast í bráðnauðsynlega styrkingu innviða þar sem myndast hefur mikil uppsöfnuð þörf og alls ekkert til að hefja niðurgreiðslu skulda ríkisins. Með því að missa þessar tekjur, sem breið samstaða er um í samfélaginu, er í raun verið að draga úr möguleikum ríkisins til að reka hér velferðarsamfélag að norrænni fyrirmynd af því tagi sem ég tel að við viljum flest sjá hér á landi. Þetta er varhugaverð þróun sem grefur undan því mikla og erfiða starfi sem unnið var í tíð síðustu ríkisstjórnar við að ná tökum á ríkisfjármálunum eftir bankahrunið síðla árs 2008.

Eitt af því athyglisverðasta í fjárlagafrumvarpinu er sú fjögurra ára ríkisfjármálaáætlun sem því fylgir. Þar er meðal annars fjallað um þróunina næstu árin hvað varðar hlutfall frumgjalda ríkissjóðs af vergri landsframleiðslu, en það er einn mælikvarði á samneyslu þjóðarinnar og stærð opinbera geirans samanborið við einkageirann. Um leið er þetta ákveðinn mælikvarði á hvort um sé að ræða velferðarsamfélag að norrænni fyrirmynd eða samfélag þar sem hver og einn stendur lítt studdur af samfélaginu líkt og við þekkjum m.a. frá Bandaríkjunum.

Áður en lengra er haldið er rétt að minna á í þessu samhengi að hlutfall frumútgjalda af landsframleiðslu hefur lengi verið nokkru lægra á Íslandi heldur en annars staðar á Norðurlöndunum og öðrum velferðarsamfélögum. Eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir um 28% samneyslu 2014 með óreglulegum liðum, að undanskilinni skuldaniðurfærslunni, en sambærilegt hlutfall er um og yfir 30% annars staðar á Norðurlöndum. Munurinn á Íslandi og öðrum ríkjum í þessu samhengi sést einna skýrast þegar skoðaðar eru tölur um útgjöld ríkja til velferðarmála, en eins og kemur fram á mynd sem fylgir hér með í nefndaráliti mínu. Þar var Ísland með næstlægsta hlutfall slíkra útgjalda meðal þjóða þar sem slíkar upplýsingar voru fyrirliggjandi innan OECD árið 2013. Þessi staða Íslands skýrist aðeins að litlu leyti af því að ekki teljast allar íslenskar lífeyrisgreiðslur til opinberra velferðarútgjalda í þessum tölum, en að teknu tilliti til þess væri Ísland engu síður með mun lægra hlutfall opinberra velferðarútgjalda en önnur norræn ríki.

Hið átakanlegasta í ríkisfjármálaáætlun fjárlagafrumvarpsins er þó ekki staða Íslands í dag heldur hvert stefnan er tekin á næstu árum, eða fram til ársins 2018. Þar kemur fram að frumútgjöld, að undanskildum útgjöldum tengdum niðurfærslu húsnæðisskulda, lækka úr 28% árið 2014 í 24,5% árið 2018. Þetta kemur fram í fyrri hluta frumvarpsins, sem ber yfirskriftina Stefna og horfur, á bls. 9. Í ljósi framangreindrar stöðu Íslands miðað við önnur Norðurlönd þýðir þetta í raun að verið er að hverfa frá því velferðarsamfélagi sem hingað til hefur verið samstaða um að byggja upp og viðhalda á Íslandi. Þetta er raunar staðfest í áætluninni sjálfri þar sem segir um frumútgjöld ríkisins á óreglulegum liðum árið 2018, með leyfi forseta:

„Framangreint útgjaldahlutfall er lágt í sögulegu samhengi og verður varla lækkað frekar nema með endurskoðun á þjónustuhlutverki ríkisins og helstu bótakerfum.“

Hér er sem sagt verið að segja að samneyslan verði orðin svo lág árið 2018 að í raun sé tæplega hægt að reka hér velferðarkerfi af því tagi sem við sjáum annars staðar á Norðurlöndum og að endurskoða þurfi hlutverk ríkisins með þessu áframhaldi.

Önnur leið til að mæla samneysluhlutfall er út frá tekjuhlið ríkisfjármálanna, þ.e. út frá sköttunum sem fjármagna það velferðarsamfélag sem við viljum búa við. Eins og sést þegar skoðaðar eru nýjustu tölur um heildarskatttekjur ríkja sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er Ísland með nokkru lægri samneyslu samkvæmt þeim mælikvarða en hin Norðurlöndin. Á Íslandi er þetta hlutfall 36% árið 2011, 37% árið 2012 samkvæmt bráðabirgðatölum OECD, en annars staðar á Norðurlöndum var hlutfallið rúm 42–48% árið 2011 og 42% til rétt ríflega 48% árið 2012. Jafnvel þótt tekið sé tillit til þess að lífeyrisgreiðslur eru ekki fjármagnaðar með skatttekjum hérlendis í sama mæli og annars staðar er engu að síður ljóst að samneysla Íslendinga er lægri en Norðurlandaþjóðanna almennt.

Það er auðvitað ljóst að fleiri þættir hafa áhrif á hlutfall samneyslunnar í þessum löndum. Ísland er herlaust land og þarf því ekki að standa undir hernaðarútgjöldum, þótt vissulega séu verkefni eins og Landhelgisgæslan og fleira stundum flokkuð undir svokölluð varnarmál. Á móti kemur að Ísland er fámenn þjóð í strjálbýlu landi og því nokkru kostnaðarsamara að halda uppi sambærilegri þjónustu hérlendis en í mörgum þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Af þessu er ljóst að eigi Ísland að þróa hér velferðarsamfélag að norrænni fyrirmynd þyrfti að auka nokkuð hlutfall skatttekna af vergri landsframleiðslu. Í fjárlagafrumvarpinu birtist hins vegar gagnstæð stefna sem vart verður lýst öðruvísi en sem aðför að velferðarsamfélaginu í heild. Eins og sést á ágætis skýringarmynd í fjárlagafrumvarpinu í Stefnu og horfum á bls. 58, er stefnan tekin á að draga hratt úr skatttekjum á árinu 2015 og halda áfram niðurskurði skatttekna á hverju ári fram til ársins 2018. Þetta er gert þrátt fyrir augljósa þörf á að hefja aftur uppbyggingu á ýmsum sviðum hins opinbera og nauðsyn þess að hefja áætlun um niðurgreiðslu skulda til að draga úr vaxtabyrði ríkissjóðs.

Af þessu öllu er ljóst að í ríkisfjármálunum er stefnan tekin leynt og ljóst á róttækar breytingar á samfélagsskipan íslensku þjóðarinnar í samræmi við hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Óljóst er hvaða afleiðingar slíkar breytingar mundu hafa á íslenskt samfélag, til að mynda hvað varðar jöfnuð og félagslega aðstoð, umgengni við náttúruna, jafnrétti kynjanna, réttinn til búsetu út um allt land, og margt fleira. Stefnunni er best lýst sem eins konar tilraunaverkefni nýfrjálshyggjunnar með markmið um lágmarksríki án tillits til afleiðinganna fyrir íslenskt samfélag. Ekki þarf að fjölyrða um reynsluna af slíkri stefnu á árum áður, enda sáum við Íslendingar nýfrjálshyggjuna í framkvæmd fyrir og í efnahagshruninu árið 2008, virðulegur þingmaður.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari yfirferð um framtíðaráætlun ríkisstjórnarinnar er rétt að líta til fjárlagafrumvarpsins sjálfs. Þar ber fyrst að nefna þá staðreynd að frumvarpið stangast í veigamiklum atriðum á við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar sem leggur það fram. Um er að ræða þau stefnumál ríkisstjórnarinnar sem taka má undir eða eru í það minnsta skaðlaus, en samkvæmt frumvarpinu er grafið undan slíkum stefnumálum með skipulegum hætti. Hér verða rakin nokkur dæmi þess.

Í fyrsta lagi má benda á mjög harkalegan niðurskurð til embættis sérstaks saksóknara, en framlög til embættisins lækka úr 561 millj. kr. í 292, eða um 48%. Sú fjárhæð dugar einungis til að sinna þeim málum sem nú þegar eru fyrir dómi, og kom fram á fundi hjá okkur í fjárlaganefnd, en von er á kostnaðarsömum málum strax í ársbyrjun og ekki hafa enn verið teknar ákvarðanir um framtíðartilhögun á rannsóknum efnahagsbrota.

Í öðru lagi má benda á að útgjöld til Útlendingastofnunar lækka úr tæpum 252 millj. kr. í 236. Á sama tíma hefur innanríkisráðherra lýst því yfir að átak verði gert í afgreiðslu mála hælisleitenda sem eru hér á landi og voru í því samhengi samþykktar breytingar á lögum um útlendinga síðastliðið vor. Fjárlögin fyrir árið 2015, ef þau verða samþykkt, munu því bæði grafa undan stefnu innanríkisráðherra sjálfs í málefnum hælisleitenda og torvelda framkvæmd laga sem Alþingi hefur samþykkt. Við í minni hlutanum höfum gert tillögu um að þetta verði bætt, þ.e. í þetta verði settir þeir fjármunir sem þarna vantar upp á. Vissulega vonast ég til þess að meiri hlutinn sjái til þess að þetta verkefni geti gengið vel fyrir sig, því þetta er jú kannski í þeirra anda og leiðir til sparnaðar til lengri tíma litið þegar mál taka styttri tíma í afgreiðslu.

Í þriðja lagi skulu nefnd ýmis atriði er varða loftslagsmál. Ríkisstjórnin starfar eftir aðgerðaáætlun um loftslagsmál sem lögð var fram í kjölfarið á samþykkt laga um loftslagsmál á síðasta kjörtímabili. Þar er meðal annars kveðið á um að efla skuli almenningssamgöngur. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verða framlög til almenningssamgangna, m.a. á höfuðborgarsvæðinu, hins vegar skorin niður um rúma 18 millj. kr., fyrir utan það að það vantar auðvitað fé eins og við þekkjum vel í fjárlaganefnd til almenningssamgangna í landshlutasamtökunum.

Í aðgerðaáætluninni er einnig kveðið á um innleiðingu viðskiptakerfis með losunarheimildir, en það var innleitt á síðasta kjörtímabili. Sú starfsemi sem undanskilin er gildissviði viðskiptakerfisins hefur í samræmi við þetta greitt sérstakt losunargjald vegna gjaldskyldrar losunar gróðurhúsalofttegunda. Milli 2013 og 2014 var þetta sérstaka losunargjald lækkað úr 1.338 kr. í 892 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar. Í tekjuöflunarfrumvarpi fjárlaga núna fyrir árið 2015 er kveðið á um að gjaldið skuli enn lækka, í þetta sinn fer það niður í 865 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar.

Loks er í aðgerðaáætluninni kveðið á um að efla skuli rannsóknir og nýsköpun í loftslagsmálum. Í tekjuöflunarfrumvarpi fjárlaga fyrir árið 2015 er hins vegar kveðið á um að tekjur af uppboðnum losunarheimildum skuli renna óskiptar í ríkissjóð í stað þess að helmingur þeirra renni í loftslagssjóð. Hlutverk loftslagssjóðs, svo það sé sagt, er m.a. að fjármagna rannsóknir og þróun á sviði loftslagsvænnar tækniþróunar og nýsköpunar svo að hér er um að ræða verulegt áfall fyrir rannsóknir og þróun á sviði loftslagsmála. Loftslagssjóðurinn er sem sagt skorinn niður og boðað er frumvarp til breytinga á lögum í því skyni.

Í fjórða lagi er skorið niður bæði til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og í aðra þróunarsamvinnu og hjálparstarfsemi. Niðurskurðurinn er að vísu ekki mikill, en er hins vegar í hróplegu misræmi við þróunarsamvinnuáætlun Íslands sem samþykkt var sem þingsályktun á Alþingi 21. mars 2013. Þar var gert ráð fyrir að framlög til þróunarsamvinnu mundu hækka ár frá ári til að ná markmiði Sameinuðu þjóðanna um að þau næmu 0,7% af vergum þjóðartekjum árið 2019. Samkvæmt þessari áætlun áttu framlög Íslands að nema 0,35% af vergum þjóðartekjum árið 2015, en samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að þetta hlutfall lækki og verði aðeins 0,22%. Þessi svik ríkisstjórnarinnar við eigin áætlun og þurfandi fólk í öðrum heimshlutum mynda smánarblett á henni sem seint mun hverfa. Aðrar þjóðir sem hafa átt í efnahagsörðugleikum hafa ekki staðið svo slælega að verki. Þannig náðu Bretar 0,7% markinu sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sem raunhæft markmið í fyrra og Írar sem gengið hafa í gegnum mikla kreppu eru enn þá langt fyrir ofan okkur Íslendinga.

Í því samhengi er hægt að benda á að á sama tíma og við skerum niður og svíkjum gefin fyrirheit um þróunarsamvinnu er bætt í framlögum til hernaðarbandalagsins NATO. Framlög til NATO voru 186 millj. kr. árið 2013 en hækkuðu í 265 millj. kr. á fjárlögum þessa árs. Stendur nú til að halda þeirri miklu hækkun og bæta enn í, því samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 verða 272 millj. kr. lagðar til hernaðarbandalagsins. Þetta er gert til að standa straum af kostnaði við nýbyggingar höfuðstöðva NATO, en samtals munu framlög Íslands til þess nema 450 millj. kr. samkvæmt frumvarpinu. Þá er meira að segja ótalið það viðbótarframlag sem forsætisráðherra hefur lýst yfir að til standi að veita til NATO án þess að það sé í raun nefnt nokkurs staðar í frumvarpinu sjálfu. Það kom fram í frétt þess efnis í DV 5. september. Öll þessi útgjöld til hernaðarmála, um leið og þróunarsamvinna er skorin við nögl, sýna vel forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum. Forgangsröðunin er hins vegar enn og aftur í ósamræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem hvergi er minnst á hernaðarbandalög en sagt er að, með leyfi forseta „lögð verði áhersla á þróunarsamvinnu“.

Í fimmta lagi skulu nefnd framlög til samgöngumála. Í tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2013–2016 var áætlað að veita um 23 milljarða til Vegagerðarinnar árið 2015, m.a. til að standa straum af ýmsum nauðsynlegum verkefnum sem því miður hafa þurft að sitja á hakanum undanfarin ár sökum efnahagshrunsins. Miðað við 2,5% verðbólgu milli 2014 og 2015 er um að ræða 24 milljarða á verðlagi fjárlagafrumvarpsins fyrir 2015. Langur vegur er frá því að staðið sé við þessa fjárveitingartillögu í fjárlagafrumvarpinu. Og jafnvel þótt sú hækkun sem tilgreind er í breytingartillögu ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga vantar enn rúma 2 milljarða upp á framlögin. Ljóst er að nýframkvæmdir í vegamálum verða af skornum skammti ef fram fer sem horfir, eins og vegamálastjóri sjálfur hefur raunar lýst yfir. Auk þess má spyrja hvort það grafi ekki undan samgönguáætlun ef ekki er ætlun stjórnvalda að fylgja henni eftir með fjárveitingum sem eru í samræmi við hana.

Virðulegi forseti. Rétt er að víkja næst að ýmsum atriðum í fjárlagafrumvarpinu sem stangast á við þá almennu hugmyndafræði, sem ríkur stuðningur hefur verið við hérlendis, að á Íslandi skuli vera öflugt velferðarkerfi þar sem fólk hafi aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustu og annarri velferðarþjónustu, óháð efnahag. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 er ráðist að grunnstoðum þessa kerfis með ýmsum hætti og boðað þess í stað harðara samfélag í anda nýfrjálshyggjunnar. Verða hér aðeins nefnd nokkur atriði því til stuðnings.

Í frumvarpinu er boðað að ríkissjóður spari 305 millj. kr. með því að auka verulega þátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði. Þetta á að annars vegar að gera með því að auka kostnað sjúklinga vegna S-merktra lyfja og hins vegar með því að hækka svokallaða viðmiðunarfjárhæð í greiðsluþátttökukerfi almennra lyfja. Ekki þarf að efast um að þessar breytingar koma verst við þá sem standa höllum fæti sökum veikinda, svo sem öryrkja, og hafa engar mótvægisaðgerðir verið boðaðar til að mæta kostnaði þessa hóps. Við þetta má líka bæta að Landspítali – háskólasjúkrahús er enn vanfjármagnaður þrátt fyrir breytingartillögur ríkisstjórnarinnar um að setja 1 milljarð kr. til viðbótar til að styrkja rekstrargrunn hans, sem er vel. Hið sama gildir um Sjúkrahúsið á Akureyri sem þarf a.m.k. 35 millj. kr. til viðbótar við breytingartillögur ríkisstjórnar til styrkja rekstrargrunn sinn og halda sig innan fjárlaga næsta árs.

Annar hópur sem ráðist er að í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2015 eru þeir sem glíma við langtímaatvinnuleysi. Samkvæmt frumvarpinu á að stytta tímabil atvinnuleysisbóta úr 36 mánuðum í 30 og spara þannig 1 milljarð kr., sem að einhverju leyti fer yfir á sveitarfélögin. Ríkisstjórnin virðist ekki hafa neinar fyrirætlanir um að mæta þörfum þessa hóps sem að öllu óbreyttu mun þurfa að reiða sig á sveitarfélögin um framfærslu. Eins og kunnugt er hafa sveitarfélögin sjálf mótmælt þessum áformum harðlega enda augljóst að útgjöld þeirra munu aukast verulega án þess að til komi aukin fjárframlög frá ríkinu. Einnig má gera ráð fyrir að kostnaður færist til hjá ríkinu frá atvinnuleysistryggingum í almannatryggingar enda sjáum við það m.a. að framlög eru aukin í endurhæfingarlífeyri en skorin eru niður framlög í vinnumarkaðsúrræði. Það má leiða líkum að því að þeir sem fara á endurhæfingarlífeyri er stór hópur kvenna á barneignaraldri sem þýðir aukin útgjöld vegna þess að við bætist barnalífeyrir. Ég held því að ríkissjóður verði ekki betur staddur með þessu ef það hefði átt að vera raunin.

Fjárlagafrumvarpið boðar enga leiðréttingu á kjörum öryrkja og ellilífeyrisþega sem þurftu að taka á sig verulega tekjuskerðingu á árunum eftir hrun til að mæta slæmri stöðu ríkissjóðs. Það er réttlætismál að þeir hópar, sem svo sannarlega bera enga ábyrgð á þeirri fjárglæfrastarfsemi sem orsakaði efnahagshrunið, sitji ekki óbættir hjá garði þegar svigrúm myndast í ríkisfjármálunum á næstu árum. Leiðrétting örorkubóta og ellilífeyris ætti að hefjast strax á næsta ári, en því miður virðast engin áform vera uppi um það ef marka má fjárlagafrumvarpið.

Fjárlagafrumvarpið mun einnig bitna mjög á nemendum í framhaldsskólum og háskólum. Meiri hluti fjárlaganefndar kemur í tillögum sínum til móts við þá réttmætu gagnrýni sem sett hefur verið fram á þá tillögu sem finna má í frumvarpinu um að afnema afkomutryggingu minni framhaldsskóla. Því ber að fagna að lágmarksfjárveitingin, eða „gólfið“ svokallaða, er sett undir minni framhaldsskóla úti um land þar sem nemendafjöldi er oft mjög sveiflukenndur. Eftir stendur hins vegar að alvarlegast er að í frumvarpinu er boðað að aðgangur 25 ára og eldri að framhaldsskólanámi verði takmarkaður til að ná fram sparnaði í rekstri skólanna. Um leið er skorið niður í framhaldsfræðslu svo að ljóst er að margir þessara eldri nemenda munu ekki eiga annarra kosta völ en að leita til einkarekinna skóla, sem innheimta skólagjöld upp á fleiri hundruð þúsundir króna, eingöngu vegna þess að þeir hafa einhverra hluta vegna kosið að hefja framhaldsskólanám sitt síðar á ævinni. Hér er vegið mjög alvarlega að jafnrétti til náms.

Þessi breyting hefur líka þær afleiðingar að minnka rekstrarhagkvæmni minni skóla landsbyggðanna og draga úr fjölbreytni námsframboðs fyrir yngri nemendur, ekki síst með því að skera líka niður fjarnám og um leið takmarkar það markvissa notkun upplýsingatækni og stendur í vegi fyrir nútímalegum náms- og kennsluaðferðum. Þetta bitnar á framsæknum skólum sem hafa verið að bjóða nám í tölvuleikjafræðum, frumkvöðlafræðum og listum svo eitthvað sé nefnt. Ekki er gerð tilraun til að styrkja framhaldsdeildirnar sem settar hafa verið á stofn víðs vegar um landið með því að setja þær á föst fjárlög en hingað til hafa þær verið fjármagnaðar með afar mismunandi hætti og sitja því ekki við sama borð.

Hvað háskólastigið varðar einkennast fjárframlögin af einkennilegri forgangsröðun og fjárlagavinnan af forkastanlegum vinnubrögðum. Við framlagningu fjárlagafrumvarpsins stóð til að fækka ársnemum við Háskóla Íslands sem dæmi um 354. Fram hefur komið hjá forsvarsmönnum háskólans að nú þegar séu um 150 nemendur við skólann sem ekki er greitt fyrir á núgildandi fjárlögum og að ekki sé fyrirséð að þeim fækki neitt að ráði. Við þessu var eðlilega brugðist að nokkru leyti í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar þar sem 617 millj. kr. pottur er settur til að leiðrétta fjárveitingar vegna umframnemenda í háskólunum. Hins vegar vekur athygli einkennileg ákvörðun um skiptingu þessara fjármuna. Þar vekur sérstaka athygli að Háskólinn á Akureyri, sem hefur skorið verulega niður í almennum rekstri og m.a. lækkað laun starfsfólks, ber afskaplega lítið úr býtum. Þetta er skrýtin stjórnsýsla og getur vart fallið undir aga í ríkisfjármálum. Þá má velta því upp hvort skólum er refsað fyrir það að standa sig vel eins og rektor hefur haft orð á. Þá ber Listaháskóli Íslands verulega skarðan hlut frá borði, missir húsnæðisframlag sem skólinn hefur haft undanfarin þrjú ár og enn hefur engin framtíðarsýn fyrir húsnæði skólans verið kynnt þó að ríkisstjórnin geri stöðu skapandi greina að sérstöku umtalsefni í stefnuyfirlýsingu sinni. Listaháskóli Íslands er eina stofnunin sem annast kennslu og rannsóknir á sínu sviði og taka þarf tillit til þess við úthlutun fjármuna á háskólastigi. Það er líka vert að minnast á það að borgin skaut skjólshúsi að hluta til yfir Listaháskólann og hann er í mjög óviðunandi húsnæði.

Þá ætla ég næst að nefna fjárveitingar til sýslumanna og lögreglunnar. Fulltrúar flestra sveitarfélaga hafa ítrekað að þær breytingar sem gerðar voru á embættum sýslumanna og lögreglu leiði ekki til fækkunar löglærðra fulltrúa á þeim stöðum þar sem þeir hafa verið með tilheyrandi þjónustuskerðingu. Innanríkisráðherra hefur fullyrt að þessi þjónusta verði ekki skert og ekki sé ætlunin að fækka þessum störfum. Þó er ljóst að fjárframlög duga ekki til og því hlýtur það að ganga gegn markmiðum og tilgangi lagasetningarinnar ef það verður niðurstaðan. Þrátt fyrir ábendingar er t.d. ekki gerð tilraun til að bregðast við því að sérstakar tekjur upp á 12,7 millj. kr. hjá embætti lögreglustjórans á Austurlandi munu ekki skila sér. Ráðuneytið hefur þó sagt að tímabært sé að endurskoða þetta enda voru þessar tekjur að mestu tilkomnar vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar. Þá hlýtur að vanta a.m.k. þetta fé inn í reksturinn að stóru leyti.

Virðulegi forseti. Að lokum er rétt að nefna Ríkisútvarpið. Í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við er alls staðar litið svo á að rekstur almannaútvarps sé meðal mikilvægustu hlutverka ríkisins. Almannaútvarp sem er að mestu óháð auglýsingatekjum og ekki í eigu einkaaðila sem sjálfir eiga hagsmuna að gæta er talið nauðsynlegt upplýstri opinberri umræðu og þar með lýðræðinu sjálfu. Í samræmi við þessa hugmynd um sjálfstæði ríkisfjölmiðla hefur sú leið oft verið farin að marka slíkum stofnunum tilteknar tekjur, annaðhvort með afnotagjöldum eða með útvarpsgjaldi eða sambærilegum nefskatti sem rennur óskiptur til útvarpsins. Mikilvægt er að slíkar tekjur séu stöðugar og fyrirsjáanlegar til að tryggja bæði ritstjórnarlegt og menningarlegt sjálfstæði fjölmiðilsins gagnvart hinu pólitíska og efnahagslega valdi. Þótt það sé gleðiefni að gert sé ráð fyrir því í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar að útvarpsgjald renni óskipt til Ríkisútvarpsins er það óásættanlegt að skilyrða framlagið með þeim hætti sem gert er og ég tel það vera óeðlilegt inngrip gagnvart stjórn RÚV. Það er líka dapurlegt að sjá að lækka eigi útvarpsgjaldið um áramótin úr 19.400 í 17.800 kr. og skerða þannig tekjustofn RÚV. Rekstrarerfiðleikar RÚV eru vel kunnir en útvarpsstjóri hefur sjálfur sagt að með óskertu útvarpsgjaldi verði hægt og unnt að starfrækja Ríkisútvarpið án rekstrarhalla á komandi árum. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir og fleiri hafa lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að óskert og óbreytt útvarpsgjald verði lögfest til að tryggja að það renni framvegis óskipt til Ríkisútvarpsins. Samhliða því er hér lögð fram breytingartillaga á fjárlagafrumvarpinu þar sem framlög til RÚV eru hækkuð sem samsvarar tekjum ríkisins af útvarpsgjaldinu.

Að þessari upptalningu lokinni er rétt að spyrja hvernig á því standi að skera þurfi niður í þessum stoðum íslenska velferðarsamfélagsins með jafn harkalegum hætti og raun ber vitni. Hvers vegna getur ríkisstjórnin hvorki haldið úti velferðarkerfi af því tagi sem þekkist á hinum Norðurlöndunum né staðið við eigin stefnu eins og hér hefur verið rakið? Á því er tvíþætt skýring að ég held. Annars vegar er um að ræða 20 milljarða kr. útgjöld til að efna hið risavaxna kosningaloforð Framsóknarflokksins um niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar hefur ríkisstjórnin afsalað sér svipaðri upphæð með afnámi auðlegðarskatts og stórlækkun veiðigjalda á stórútgerð landsins. Þetta sambland útgjaldaaukningar og tekjutaps er orsök þessa mikla niðurskurðar sem við sjáum í fjárlagafrumvarpi ársins 2015 og því rétt að víkja að hvorum þætti um sig í sérstökum köflum.

Fyrst að skuldaniðurfærslunni. Skuldaniðurfærsla ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var með lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána síðastliðið vor hlýtur að teljast dýrasta kosningaloforð Íslandssögunnar. Ekki skal þó gert lítið úr því að mikilvægt hafi verið að mæta þörfum ákveðins hóps sem kom illa út úr efnahagshruninu 2008 með frekari aðgerðum. Hins vegar er hin svokallaða leiðrétting sem Framsóknarflokkurinn lofaði kjósendum fyrir kosningar hvorki lausn á vanda þessa hóps né skynsamleg ráðstöfun almannafjár í ljósi þess hversu stórkostlega ómarkviss hún er.

Framlag frá ríkinu til aðgerðanna mun nema samtals 100 milljörðum kr. samkvæmt áðurnefndum lögum og skiptist það í beinar og óbeinar aðgerðir. Það skal áréttað hér að hinir 80 milljarðar kr. í beinar aðgerðir koma beint úr ríkissjóði og koma ekki inn í ríkissjóð sem markaðar tekjur. Svonefndur bankaskattur var hækkaður 2013 og látinn ná til fjármálafyrirtækja í slitameðferð en þá fjármuni sem þannig safnast getur Alþingi ákveðið að nýta með hverjum þeim hætti sem það kýs, þar á meðal til styrkingar velferðarkerfisins og til að koma til móts við þann hóp sem mesta þörf hefur fyrir aðgerðir í húsnæðismálum. Hið sama á í raun við um 20 milljarða kr. framlag ríkissjóðs í óbeinar aðgerðir, en þar afsalar ríkissjóður sér framtíðartekjum.

Engin skynsamleg rök hníga að þessari aðgerð. Hugmyndafræði skuldaniðurfærslunnar byggðist í upphafi á þeirri hugmynd að orðið hafi forsendubrestur á lánaskilmálum verðtryggðra fasteignalána, á tilteknu tímabili sem var svo reyndar endurskilgreint frá fyrstu tillögum. Sú hugmynd hefur ekki staðist neina skoðun eins og ríkisstjórnin viðurkennir í raun sjálf með því að minnast ekki orði á áðurnefndan forsendubrest í meginefni frumvarpsins til áðurnefndra laga. Um þessa vandræðalegu sögu má lesa nánar í nefndaráliti 3. minna hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarpið. Skuldaniðurfærslan verður heldur ekki réttlætt út frá almennum sjónarmiðum um sanngirni og hlutverk hins opinbera. Þótt hugmyndafræðilegur ágreiningur sé uppi milli félagshyggjufólks og frjálshyggjufólks um hvort og að hvaða marki beri að nota hið opinbera til að jafna kjör almennings hefur hvorugum hópnum fram til þessa dottið í hug að ráðstafa opinberum fjármunum með beinum hætti til þeirra sem hafa mestar tekjur og eignir.

Að vísu er það svo að engin úttekt á áhrifum niðurfærslunnar eftir tekjuhópum lá fyrir þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir þar að lútandi fyrr en degi áður en útreikningar á skuldaniðurfærslu hvers og eins var gerð aðgengileg. Eins og kunnugt er var þá efnt til blaðamannafundar með glærusýningu en engin önnur gögn um skuldaleiðréttinguna gerð aðgengileg. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir lagði fram skriflega fyrirspurn á Alþingi sama dag og útreikningarnir lágu fyrir, m.a. um dreifingu skuldaniðurfærslunnar milli ýmissa hópa, en ekki enn hefur borist svar við fyrirspurninni. Það væri líka afar áhugavert að sjá hvernig þetta skiptist á milli landshluta. Það er sjálfstætt gagnrýnisatriði að ekki hafi verið farið í slíka úttekt á þessari risavöxnu aðgerð upp á 80 milljarða kr. mun fyrr í ferlinu og gögnin sem unnið var úr ekki gerð opinber um leið og þau lágu fyrir

Samkvæmt þeim takmörkuðu upplýsingum sem þó birtast í áðurnefndri kynningu munu 20 milljarðar kr. renna til einstaklinga með yfir 583 þús. kr. í mánaðartekjur og hjóna með samtals yfir 1.333 þús. kr. í mánaðartekjur. Það er óforsvaranlega há upphæð sem rennur til fólks með tekjur talsvert yfir meðaltekjum. Eins og áður segir er kynningin afar spör á tölulegar upplýsingar og því ekki unnt að reikna t.d. meðaltalsskuldaniðurfærslu framteljenda á hverju tekjubili. Í kynningunni kemur þó fram að 2 þús. aðilar á efsta tekjubili fá samtals 4,7% af heildarfjárhæð skuldaniðurfærslunnar. Þetta er sett fram til marks um að skuldaniðurfærslan gagnist ekki hátekjufólki. En nú kemur líka fram að 90.819 aðilar fengu samþykkta skuldaniðurfærslu og því er ljóst að þessir 2 þús. aðilar eru 2,2% þeirra sem skuldaniðurfærslan tekur til. Með öðrum orðum fá 2 þús. tekjuhæstu aðilarnir sem fá skuldaniðurfellingu rúmlega tvöfalt meira að meðaltali en hin 97,8%. Af þeim sem aðgerðin nær til er því ljóst að hlutfallslega fer mest til þeirra sem eru með allra hæstu tekjurnar.

Hér skal einnig nefnt að skuldaniðurfærslan mun að mjög miklu leyti ganga til einstaklinga og hjóna með umtalsverðar hreinar eignir eða eigið fé, þ.e. eignir umfram skuldir. Það skýrist af því eðli niðurfærslunnar að taka ekkert mið af eign þeirri sem einstaklingar kunna að hafa á móti skuldinni sem færð er niður. Fram kemur í kynningunni að 36 milljarðar kr. renna til hjóna með yfir 13 millj. kr. hreina eign í fasteign og einstaklinga með yfir 4 millj. kr. hreina eign í fasteign. Þar af renna 24 milljarðar kr. til hjóna með yfir 25 millj. kr. hreina eign í fasteign og einstaklinga með yfir 11 millj. kr. hreina eign í fasteign. Hér er því um að ræða fólk með verulegar eignir og því væntanlega ekki í neinum skuldavanda svo heitið getur nema í undantekningartilvikum. Það er líka rétt að taka það fram að hér eru aðrar eignir fólks ekki teknar með í reikninginn og því ljóst að sumir sem eru með verulegar eignir, t.d. í hlutabréfum, munu að öllum líkindum fá skuldaniðurfærslu.

Í þessu samhengi hefur m.a. verið á það bent að margir þeir sem urðu fyrir hækkun höfuðstóls verðtryggðra skulda hafa einnig notið eignamyndunar vegna hækkunar á fasteignaverði á sama tíma, sérstaklega hér á stórhöfuðborgarsvæðinu. Það gerir líka skiptinguna eftir landshlutum enn áhugaverðari. Það hefur svo komið í ljós, eins og búast mátti við að um 20% af heildarniðurfærslunni mun renna til heimila sem eiga eignir yfir 40 millj. kr. samkvæmt fasteignamati. Einnig skal bent á að yfir 400 fjölskyldur sem eiga hreina eign yfir 100 millj. kr. eiga möguleika á lækkun höfuðstóls íbúðalána. Líklegt er að í þeim hópi leynist einhverjir þeirra sem gætu fengið fulla 4 millj. kr. niðurfærslu sökum mikilla skulda á mjög stórum og dýrum eignum.

Ljóst er að skuldaniðurfærsla ríkisstjórnarinnar er óréttlát aðgerð, sama hvort litið er til þess hvernig hún skiptist eftir tekjum landsmanna eða hreinum eignum þeirra. Skuldaaðgerðir líkt og aðrar aðgerðir stjórnvalda ættu að sjálfsögðu að miðast við að veita þeim aðstoð sem á þurfa að halda en ekki að veita tugi milljarða kr. af opinberu fé til tekjuhárra og eignamikilla einstaklinga sem ekki eru í neinum skuldavanda. Skuldaniðurfærsla ríkisstjórnarinnar er því ekki aðeins stórkostlega kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð og þar með velferðarkerfi þjóðarinnar, heldur einnig óréttlát í eðli sínu.

Virðulegi forseti. Fyrir hrun var markvisst unnið að því að breyta skattkerfinu í samræmi við hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem þá réð ríkjum í íslenskum stjórnmálum. Fjármagnstekjuskattar og fyrirtækjaskattar voru lækkaðir og voru með því lægsta sem þekkist, en á sama tíma fylgdu skattleysismörk ekki verðlagi með þeim afleiðingum að lág- og millitekjufólk greiddi sífellt hærri hluta tekna sinna í skatt. Ríkisstjórnin sem tók við eftir hrun komst ekki hjá því að gera breytingar á skattkerfinu til að ná inn auknum tekjum eftir að hrunflokkarnir höfðu steypt ríkissjóði í stórfelldar skuldir. En samhliða því að sumir skattar hækkuðu voru aðrir skattar lækkaðir og eðli þeirra breytt með réttlætissjónarmið í huga. Um leið var farið í meiri háttar átak til að vinna gegn skattaundanskoti með góðum árangri fyrir ríkissjóð og skattborgara alla.

Því miður staðfestir fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 að núverandi ríkisstjórn ætlar að hverfa aftur til gamallar skattastefnu fyrirhrunsáranna. Í fjárlagafrumvarpinu kemur skýrt fram sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að afnema auðlegðarskattinn með öllu og þar tapar ríkissjóður rúmlega 10 milljörðum kr. á árinu miðað við síðasta ár. Við þetta bætist stórlækkun veiðigjalda í tíð núverandi ríkisstjórnar, sem að óbreyttu hefði skilað að jafnaði í kringum 16 milljörðum kr. árlega í stað þeirra 8 millj. kr. sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2015. Hér er því samtals um að ræða um það bil 18 milljarða kr. tekjuskerðingu fyrir ríkissjóð sem hyglir allra efnamestu einstaklingum og fyrirtækjum landsins á kostnað annarra. Ljóst er að sjávarútvegurinn stendur undir veiðigjaldi af þessari stærðargráðu enda er afkoma greinarinnar mjög góð, sem endurspeglast m.a. í tæplega 12 milljarða kr. arðgreiðslum á síðasta ári. Mikill stuðningur er í samfélaginu við skattlagningu af þessu tagi. Það kom fram í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 í júní 2013 að 70% þeirra sem gáfu upp afstöðu voru á móti lækkun veiðigjalda. 35 þús. Íslendingar skrifuðu undir áskorun til forseta Íslands um að synja staðfestingar á breytingum á lögum um veiðigjöld sumarið 2013 þegar veiðigjöldin voru lækkuð.

Alvarlegustu fréttirnar í fjárlagafrumvarpinu hvað skattamálin varðar hljóta þó að teljast þær breytingar sem boðaðar eru á virðisaukaskattskerfinu. Ríkissjóður mun verða af 7,5 milljarða kr. með lækkun efra þreps virðisaukaskattsins og öðrum 6,5 milljörðum kr. vegna afnáms vörugjalda. Samtals er því um að ræða 14 milljarða kr. tekjutap fyrir ríkissjóð til viðbótar við það tekjutap sem þegar hefur verið fjallað um upp á um 18 milljarða kr. Við þetta má bæta rétt tæplega 36 milljarða kr. útgjöldum vegna skuldaaðgerðanna á þessu ári og 20 milljarða kr. á hinu næsta. Samanlagt er því um að ræða 68 milljarða kr. tekjutap og útgjaldaaukningu á þessu ári og svipaðar tölur á hinu næsta sem væntanlega þarf að mæta með niðurskurði opinberrar þjónustu og auknum álögum á venjulegar fjölskyldur og lágtekjufólk.

Ein áhrifamesta aðgerðin sem gripið er til í þessu skyni er hækkun lægra þreps virðisaukaskattsins úr 7% í 11%. Þessi breyting er gerð undir því hjákátlega yfirskini að einfalda virðisaukaskattskerfið. Eftir sem áður verða að sjálfsögðu enn þá tvö virðisaukaskattsþrep og því ekki um neina einföldun að ræða, hvorki nú né síðar, nema auðvitað ríkisstjórnin hafi í huga að hækka neðra þrepið enn meira á næstu árum og sameina þrepin tvö. Langflest lönd sem við berum okkur saman við eru með að minnsta kosti tvö virðisaukaskattsþrep, þar á meðal Svíþjóð, Noregur, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Írland, Holland og Spánn. Í Bretlandi er enginn virðisaukaskattur lagður á flestar matvörur og barnaföt í ljósi þess að umræddar vörur eru álitnar algjörar nauðsynjavörur.

Talsvert hefur verið fjallað um áhrif hækkunar lægra þreps virðisaukaskattsins á lægri tekjuhópa í samfélaginu. Það leikur enginn vafi á því að tekjulægri hópar eyða mun hærra hlutfalli tekna sinna í mat- og drykkjarvörur en þeir sem hafa hærri tekjur. Í úttekt VR kemur fram að neðsti tekjufjórðungurinn eyðir tæplega 18% af ráðstöfunartekjum sínum í slíkar vörur en efsti tekjufjórðungurinn aðeins um 11%. Í sambærilegri úttekt ASÍ er þetta staðfest en greint nánar. Kemur þá í ljós að neðsta tekjutíundin eyðir 21% ráðstöfunartekna sinna í mat- og drykkjarvörur en efsta tekjutíundin aðeins 10%. Þessar tölur hafa ekki verið véfengdar og því er engum vafa undirorpið að tekjulægri heimili eyða mun meira í mat og drykk sem hlutfall af ráðstöfunartekjum sínum.

Á hinn bóginn er það rétt sem bent hefur verið á, m.a. af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að sem hlutfall af útgjöldum heimila minnkar þessi munur milli tekjuhæstu og tekjulægstu heimilanna. Skýringin á því misræmi er fyrst og fremst sú að tekjulægri heimili eru almennt með hærra hlutfall útgjalda sem hlutfall af ráðstöfunartekjum og jafnvel talsvert meiri útgjöld en tekjur í mörgum tilvikum og þurfa því að fjármagna mismuninn með tímabundinni lántöku. En það getur varla talist til kosta þess að hækka neðra þrep virðisaukaskattsins að þar með þurfi tekjulægri heimili, sem nú þegar eiga í erfiðleikum með að láta enda ná saman, jafnvel að skuldsetja sig til að fjármagna almennar nauðsynjavörur eins og mat og drykk. Þess í stað ætti að nálgast virðisaukaskattskerfið allt út frá þeirri hugmynd að matur og drykkur, líkt og heilbrigðisþjónusta, menntun og almenn velferðarþjónusta, sé meðal þeirra grunnþarfa sem við eigum öll að hafa aðgang að.

Matur og drykkjarvara er að þessu leyti eðlisólík ýmsum vörum sem falla undir hið almenna virðisaukaskattsþrep og sérstaklega þeim vörum sem bera almennt vörugjald. Þar má nefna hluti eins og nuddpotta, spjaldtölvur og flatskjái, eldavélar og hvað það nú er. Ljóst er að hér er um vörur að ræða sem tekjuhærri verja hærri fjármunum til kaupa á en þeir tekjulægri og því kemur lækkun skatts og gjalda á slíkar vörur sér best fyrir hátekjuhópa. Þeir sem hafa hærri tekjur eru að sjálfsögðu ekki einir um að kaupa slíkar vörur en þá ber að líta til þess að hinir tekjulægri geta neitað sér um þær þegar illa árar í ljósi þess að ekki er um nauðsynjavörur að ræða.

Virðulegi forseti. Um leið og fjárlagafrumvarpið var lagt fram í upphafi þings kom fram mjög hörð gagnrýni á hina ýmsu þætti þess. Því mátti búast við að ríkisstjórnin kæmi til með að bakka nokkuð með þá hörðu hægri stefnu sem birtist í frumvarpinu í samræmi við vilja meiri hluta þjóðarinnar um að varðveita velferðarsamfélagið á Íslandi. Því ber að fagna að sett er inn aukið fjármagn til Landspítalans þótt betur megi ef duga skal, auk þess sem auknir fjármunir til fjarskipta og flugvalla á landsbyggðinni eru fagnaðarefni. Ríkisstjórnin dregur nokkuð í land með sumar af sínum miður góðu aðgerðum, svo sem fækkun á nemendaígildum háskólanna og niðurskurðinn til Vinnumálastofnunar. Allt er það vel.

Í breytingartillögunum eru einnig lagðar til ýmsar mótvægisaðgerðir til að mæta auknum kostnaði fjölskyldna og lágtekjuhópa vegna hækkunar virðisaukaskatts á matvæli. Má þar nefna hækkun barnabóta og niðurgreiðslu á húshitun. Hreinlegast hefði að sjálfsögðu verið að hætta við virðisaukaskattshækkunina með öllu enda ljóst að hún felur ekki í sér neina einföldun á skattkerfinu, eins og ég sagði hér áðan, og bitnar mest á þeim sem minnst hafa milli handanna. Í staðinn þráast ríkisstjórnin við að hækka neðra þrep virðisaukaskattsins þrátt fyrir hávær mótmæli víðs vegar að úr samfélaginu.

Af öðrum breytingartillögum ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans í fjárlaganefnd má nefna að gerð er tillaga um 40 millj. kr. aukna fjárveitingu til sendiráða Íslands erlendis. Á sama tíma færist Ísland sífellt fjær því að fylgja eigin áætlun um þróunarsamvinnu, eins og áður hefur verið rakið, og í breytingartillögunum er ekki gert ráð fyrir einni einustu krónu í aukin framlög til að leiðrétta þennan halla. Einnig má nefna að breytingartillaga ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir að 70 millj. kr. færist frá byggðaáætlun til Fiskistofu til að mæta kostnaði vegna flutnings Fiskistofu til Akureyrar. Ekki þarf að fjölyrða um það forkastanlega verklag sem viðhaft hefur verið í því máli en hitt er sérstakt gagnrýnisatriði að taka fjármagn frá öðrum byggðatengdum verkefnum til að standa straum af þessum flutningi enda vitum við öll að það er ekki vanþörf á fjármagni til styrktar viðkvæmum byggðum. Meðal annars hefur Byggðastofnun óskað eftir auknu framlagi til handa brothættum byggðum.

Virðulegi forseti. Breytingartillögur 2. minni hluta fyrir hönd þingflokks Vinstri grænna eru settar fram með fulltrúum þingflokka Samfylkingar og Bjartrar framtíðar og Pírata og endurspegla þá samstöðu sem náðst hefur meðal stjórnarandstöðunnar um ýmsar nauðsynlegar breytingar á fjárlagafrumvarpinu. Breytingartillögurnar miða annars vegar að því að styrkja stöðu ríkissjóðs með sanngjarnri gjaldheimtu af nýtingu sjávarauðlindarinnar og auknu skatteftirliti og hins vegar að því að varðveita og efla það norræna velferðarsamfélag sem samstaða er um að eigi að vera hér á landi.

Á tekjuhliðinni er lagt til að farið verði í átak til að innheimta skatttekjur, m.a. með kaupum á upplýsingum um skattskyldar tekjur Íslendinga í svonefndum skattaskjólum og er ánægjulegt að lesa það í dag í fréttum að fjármálaráðherra hyggst gera það. Áætlað er að þetta skili um 3 milljörðum kr. samtals. Þá er lagt til að innheimt verði veiðigjöld sem samsvari þeirri upphæð sem gera má ráð fyrir að innheimtist samkvæmt fyrirkomulaginu á sérstöku veiðigjaldi sem kveðið er á um í lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld. Gert er ráð fyrir að þetta skili um 2 milljörðum kr. í það minnsta á árinu 2014, en þá er miðað við að breytingin taki gildi á nýju fiskveiðiári haustið 2014. Ljóst er að slíkt fyrirkomulag skilar mun hærri tekjum til framtíðar og í raun grátlegt að veiðigjaldið hafi nú þegar verið lækkað fyrir stærstan hluta ársins 2014.

Þessum auknu tekjum er svo samkvæmt breytingartillögunum varið í ýmis nauðsynleg verkefni sem miða að því að styrkja íslenskt velferðarsamfélag. Ber þar hæst að nefna 1,9 milljarða kr. viðbótarframlag til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, 250 millj. kr. umfram breytingartillögu ríkisstjórnarinnar um viðbótarframlag við Landspítala – háskólasjúkrahús og 600 millj. kr. til viðhalds á spítalanum. Sérstaklega má nefna 50 millj. kr. til BUGL og 500 millj. kr. viðbótarframlag til framhaldsskólanna til að tryggja öllum nemendum aðgengi að námi óháð aldri. Þá er lagt til að veittur sé 1 milljarður kr. til að tryggja að bótatími atvinnulausra styttist ekki eins og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir og viðbótarframlag umfram breytingartillögu ríkisstjórnarinnar verði veitt til jöfnunar á lífeyrisbyrði. Einnig er gert ráð fyrir viðbótarframlagi í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða í ljósi ýmissa brýnna verkefna sem þörf er að ráðast í.

Það skal tekið fram að þessar breytingartillögur sem allar má finna í sérskjali eru aðeins tilraun til að sníða helstu vankantana af fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar eins og hægt er á þessari stundu. Stóru línurnar í fjárlögum næsta árs hefðu hins vegar verið lagðar með öðrum hætti ef Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri þátttakandi í ríkisstjórn.

Að lokum, virðulegi forseti. Haustið 2008 hrundi fjármálakerfi Íslands með vel þekktum afleiðingum. Hin raunverulega orsök hrunsins var sá ójöfnuður og fjárglæfrastarfsemi sem á rætur að rekja til aðgerða stjórnvalda fyrir hrun, svo sem einkavæðingar bankanna og veðsetningar fiskveiðiauðlindarinnar. Vissulega tók Ísland þátt í alþjóðlegri þróun á þessum sviðum en hafa ber í huga að sú þróun var mótuð af nýfrjálshyggju og ekki hægt að benda á einhverja ósýnilega krafta til að skýra hrunið. Rekin var flöt skattastefna sem beinlínis stuðlaði að ójöfnuði en allir mælikvarðar sýna að ójöfnuður jókst hratt á síðustu árunum fyrir hrun. Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem tók við eftir hrun tók ákvörðun um að breyta um stefnu og hefja uppbyggingu á nýjum grunni. Nú þegar önnur fjárlög nýrrar ríkisstjórnar eru komin fram bendir hins vegar allt til þess að gamla fyrirhrunspólitíkin ráði aftur för í Stjórnarráðinu.

Þetta sést ef til vill einna best á þeirri áráttu núverandi ríkisstjórnar að einfalda, eins og hún segir, virðisaukaskattskerfið án tillits til afleiðinga þess fyrir ólíka tekjuhópa í landinu, afnema vörugjöld á sykraðar vörur þrátt fyrir augljósar afleiðingar þess fyrir lýðheilsu í landinu, lækka veiðigjöld á stórútgerð og framlengja ekki hóflegan auðlegðarskatt á allra ríkustu einstaklinga landsins. Á gjaldahlið frumvarpsins sést þetta á þeirri sveltistefnu sem rekin er gagnvart heilbrigðis- og menntastofnunum landsins, opinberum eftirlitsaðilum, svo sem skattrannsóknarstjóra, sérstökum saksóknara og Samkeppniseftirlitinu, og opinberum stofnunum sem nauðsynlegar eru lýðræðinu í landinu, svo sem Ríkisútvarpinu. Ljóst er að sú stefna ræðst ekki af nauðsyn á hagræðingu hjá hinu opinbera enda stendur til að veita um 100 milljörðum kr. í skuldaniðurfærslur til einstaklinga sem í stórum hluta tilfella eru hvorki í skuldavanda né eiga í öðrum fjárhagslegum erfiðleikum af neinu tagi.

Þvert á móti er þessi stefna núverandi ríkisstjórnar meðvituð hugmyndafræðileg aðgerð. Hún byggist á hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar og gengur út á að grafa undan því samfélagi jöfnuðar og samhjálpar sem einkennt hefur norrænu þjóðirnar undanfarna áratugi. Eins og hér hefur verið rakið er stefna næstu ára leynt og ljóst tekin á að skapa hér samfélag þar sem samneysla er svo lág að það stefni velferðarsamfélaginu sem slíku í hættu. Slíkar grundvallarbreytingar á íslensku samfélagi munu ekki fara fram þegjandi og hljóðalaust, hvorki af hálfu Vinstri grænna né almennings í landinu.