144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var ágætlega lesin ræða og um margt alveg ágæt. Þó svo að ljúf rödd hv. þingmanns hljómi vel þá var nú margt svolítið sérstakt í ræðunni og svolítið mikið af gamaldags sósíalisma sem kom þar fram. Ég verð að viðurkenna að það er mjög margt sem ég skildi ekki í þessari ræðu og þá sérstaklega hjalið um nýfrjálshyggjuna og hvernig hrunið varð til, það var í mínum huga fullkomlega óskiljanlegur partur.

Ég vildi spyrja hv. þingmann aðeins út í auðlegðarskattinn. Í fyrsta lagi: Úr því að hv. þingmenn í núverandi stjórnarandstöðu, fyrrverandi stjórn, vilja hafa hann áfram, af hverju var hann tímabundinn? Af hverju var sagt við fólk að hann yrði tímabundinn ef menn vilja hafa hann áfram? Ég veit ekki hvaða stefna það er. Nú var þetta sett, sem er mjög sérstakt — flestar ef ekki allar þjóðir sem við berum okkur saman við hafa hætt við þannig skattheimtu að það eru ekki á tekjur heldur bara á eignir; gerði það meðal annars að verkum að fólk með mjög lágar tekjur sem gat ekki verið í lífeyrissjóðum átti að greiða skattinn, ég veit dæmi þess að þeir þurftu bara að selja ofan af sér og annað slíkt.

Finnst hv. þingmanni það bara í fínu lagi? Og af hverju var þá sleppt eigninni sem er virkilega varin sem er lífeyriseign? Það er alveg ljóst að þeir sem þurftu að borga það, þeir sem áttu eignir í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, stjórnmálamenn sem voru búnir að vera lengi í starfi og embættismenn — af hverju var þessu fólki sleppt?

Ég bara vildi að hv. þingmaður mundi svara þessum þremur spurningum: Fyrst. Af hverju var auðlegðarskatturinn tímabundinn? Og af hverju var sagt við fólk að hann yrði tímabundinn? Í öðru lagi: Af hverju slepptu menn embættis- og stjórnmálamönnum sem voru búnir að vera lengi í starfi? Í þriðja lagi hvort hv. þingmanni finnist sanngjarnt að fólk með lágar tekjur, sem hafði kannski nurlað sér saman einhverjum eignum, þyrfti að borga þennan skatt og jafnvel selja ofan af sér.