144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Ég held að það komi fram hjá okkur varðandi auðlegðarskattinn að hann átti að vera tímabundinn. Það hefur líka verið orðað svo í gagnrýni okkar að það ætti að framlengja hann, ekki að hann verði endilega viðvarandi heldur að það ætti að framlengja hann.

Það hefur líka komið fram vegna hvers. Jú, við þurftum að takast á við slæmt efnahagsástand, við þurftum að ná í tekjur og við þurftum að gera það hvar sem við gátum. Ég held að það að undanskilja einhverja — nú veit ég ekki nákvæmlega, ég bara játa það, af hverju þetta fólk var akkúrat undanskilið.

En varðandi lágar tekjur — við höfum líka rætt það töluvert hér á þingi að það voru agnúar á þessari framkvæmd, það er alveg viðurkennt. Það hefði þurft að breyta því. Og það eigum við að gera hvort sem um er að ræða álögur í formi skatta eða annars. Ef það er eitthvað sem virkar ekki vel þá eigum við að breyta því. Ekkert ósvipað og hér er verið að benda mjög ítrekað á varðandi þá virðisaukaframkvæmd sem verið er að leggja til, að hún komi sér ekki nægjanlega vel fyrir allt of marga o.s.frv. Þetta er eitthvað sem við þurfum að setjast yfir nákvæmlega eins og þetta með auðlegðarskattinn.

Hann var áætlaður tímabundinn af því við töldum að það dygði til á þeim tíma. Það hefur orðið ljóst að við erum lengur að ná okkur upp úr þessu hruni. Við þurfum að styrkja tekjustofna ríkisins. Það má gera með því að laga umgjörðina utan um þennan auðlegðarskatt. Að sjálfsögðu viljum við ekki að til dæmis ekkjur sem eiga ekkert nema fasteignina sína geti ekki setið í henni án þess að þurfa að selja ofan af sér. Það var auðvitað aldrei markmiðið og ætti að laga.

Þetta eru háar fjárhæðir sem ríkt fólk getur vel borgað alveg eins og af eignum, hér var hátekjuskattur og fólk borgaði af eignum, þetta er bara skattur sem má vera við lýði í einhvern tíma enn þá.