144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Ég er sammála hv. þingmanni, ég staldra svolítið við þessi skilyrði, sérstaklega vegna þess að það hefur komið mjög skýrt fram í umræðunni núna og áður að það hafi verið skorið mjög mikið niður hjá Ríkisútvarpinu og ekki sé hægt að skera meira niður án þess að það bitni verulega á þjónustunni. Það getur svo vel verið að það sé eitthvað sem þurfi að ræða, en þá ber að ræða það á þeim forsendum hvernig við ætlum að líta á hlutverk Ríkisútvarpsins, ekki með því einfaldlega að kaffæra það í peningaleysi.

Ég tók eftir því í breytingartillögum meiri hlutans og minni hlutans við afgreiðslu þessa máls að meiri hlutinn leggur til að framlög til Ríkisútvarpsins fari úr 3,5 milljörðum í 3,7 milljarða, og hérna námunda ég svolítið, en minni hlutinn leggur til hækkun úr 3,5 milljörðum í 4,2 milljarða. Ég velti fyrir mér hvað þessar breytingar endurspegli nákvæmlega, hvort meiri hlutinn hugsi þetta framlag sem alfarið byggt á nefskattinum eða hvort þetta sé einfaldlega nefskatturinn eða nefskatturinn plús eða mínus eitthvað annað, væntanlega ekki mínus samkvæmt því sem maður heyrir. Mér þætti gaman að fá nákvæmari skýringar á tæknilegum útfærslum á því hvernig þessum málum er háttað, vegna þess að mér finnst gæta ákveðins ósamræmis milli þess sem mér er sagt annars vegar af forsvarsmönnum Ríkisútvarpsins sjálfs og hins vegar af hinum ýmsu álitsgjöfum þegar kemur að fjárlögum og jafnvel mönnum sem hljóta að þekkja þar mjög vel til.

Ég verð að viðurkenna að ég á pínulítið erfitt með að skilja nákvæmlega hvernig (Forseti hringir.) mekanisminn á bak við þetta allt saman er, en mér þykir vænt um Ríkisútvarpið og mér finnst mikilvægt að það sé allt skýrt í þessu. Ég vona að (Forseti hringir.) hv. þingmaður geti hjálpað mér að skilja þetta betur.