144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:05]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég er nokkuð viss um að við gætum fengið enn meiri peninga ef við tækjum okkur á og hertum skatteftirlit hér á Íslandi. Eins og ég kom inn á í ræðu minni þá innheimtum við til dæmis svo lítið af skattkröfum að það er bara hlægilegt. Eins og hv. þingmaður veit hefur Ríkisendurskoðun skrifað um þetta heila skýrslu og líka eftirfylgniskýrslu. Við gerum ekkert í þessu. Það eru milljarðar sem liggja þarna.

Í það minnsta finnst mér ekki rétt að skera niður hjá skattrannsóknarstjóra vegna þess að í frumvarpinu, í greinargerðinni, kemur réttilega fram að átaksverkefnið hafi skilað árangri og það hafi skilað meira fé í ríkissjóð. Við erum á Íslandi svolítið smeyk við að taka á bótasvikum. Ég held að Vinnumálastofnun sé ekki lengur einu sinni með eftirlitsdeild og skatteftirlit; við erum eitthvað tiplandi á tánum í kringum þetta og ég held við getum gert miklu betur. Ég gæti lofað hv. þingmanni fleiri milljörðum ef við mundum raunverulega taka okkur tak og innheimta þær skattkröfur sem eru þarna.

Þegar hv. þingmaður segir að ég sé ekki með aðhaldshugsun af því ég vilji setja peninga í hitt og þetta, þá veit ég ekki alveg hvaða dæmi hann er að tala um. Ég vil ekki setja 80 milljarða í skuldaniðurfellingu, það kalla ég ekki aga eða aðhaldssemi. Hvaða verkefni eru það þá þar sem ég er óöguð í fjármálum? Það vil ég fá að vita.