144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. 90% kjósenda vilja forgangsraða í heilbrigðiskerfið. Það er afgerandi meiri hluti landsmanna sem vill forgangsraða skattfé sínu í heilbrigðiskerfið, eins og kemur fram í könnun Capacent Gallup sem gerð var fyrir þingflokk Pírata 6.–20. nóvember. Þetta á við um alla aldursflokka, alla tekjuflokka, kjósendur allra flokka úr öllum kjördæmum, konur og karla. 90% landsmanna setja heilbrigðiskerfið í fyrsta eða annað sætið og er þar á eftir menntakerfið með 44%. Það er eindreginn vilji landsmanna að setja heilbrigðiskerfið í forgang.

Heilbrigðiskerfið á Íslandi hefur verið fjársvelt og er virkilega veikburða. Það tók ekki þátt í góðærinu á við aðra og eftir hrun hefur niðurskurðurinn verið mikill og ígjöfin, sem byrjað er að fara í, nær varla upp í fyrsta gír. Hún er ekki nóg ef við hlustum á forsvarsmenn heilbrigðisstofnana, annarra stofnana í heilbrigðiskerfinu, þá fjárþörf sem þeir segja að sé til staðar, þannig að það fari ekki að kosta okkur þeim mun meira að bregðast við ef við ætlum að bregðast við seinna en núna.

Staðan er nefnilega þannig að fækkun heilbrigðisstarfsmanna er sífellt sýnilegri hliðarverkun þessa fjársveltis með auknu vaktaálagi heilbrigðisstarfsmanna sem eftir starfa. Ef ekki er forgangsraðað í fjárlögum til að hægt sé að veita þá lágmarksþjónustu sem forsvarsmenn heilbrigðisstofnana meta að sé nauðsynleg er hætt við því að það verði ekki ráðið við þessar hliðarverkanir. Veikburða innviðir kerfisins, lág laun og aukið vaktaálag fækkar þá læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum enn frekar þar til þeir sem eftir eru standa ekki undir vaktaálagi. Það verður ekki auðveldlega snúið aftur með þann neikvæða spíral sem myndast þá.

Ég átti gott samtal við starfandi landlækni í dag. Hann sagði mér að ef það yrði önnur verkfallslota eftir áramót telji hann að við séum komin í þennan neikvæða spíral. Það kostar meira að reyna að byggja upp heilbrigðiskerfið eftir á en að viðhalda því núna.

Það kom skýrt fram hjá framkvæmdastjóra Landspítalans að ef við bregðumst ekki við því sem hann kallar eftir verður það þeim mun dýrara þegar við þurfum að bregðast við á næsta ári. Það er ekki sparnaður. Það vita allir hversu erfitt það er og kostnaðarsamt að missa starfsfólk og reyna að byggja upp aftur. Það þekkja allir sem hafa staðið í einhverjum rekstri.

Svo ég taki saman nokkra punkta úr samtali mínu og starfandi landlæknis fyrr í dag þá sagði hann hvernig þetta var einu sinni. Eldri kynslóðin fór út, vann eins og skepna í fimm ár og kom aftur heim, þrátt fyrir að launin væru lægri og aðstaðan verri. Það var vegna þess að þetta var Ísland. Fólk vildi koma heim til Íslands. Staðan er ekki alveg þannig í dag vegna þess að Ísland er ekki eins langt í burtu og það var þá. Ísland er einu tölvuklikki í burtu, fjölskylda þín, þú talar við hana á Skype, þú talar við hana á hverjum degi, sendir henni skilaboð í gegnum þessi öpp öllsömul. Fjölskyldan er ekki langt í burtu og svo þegar þú þarft að fara í flug er það ódýrt, sér í lagi ef þú starfar sem læknir í Vestur-Evrópu. Þá er mjög ódýrt og stutt að fljúga. Ísland er ekki eins langt í burtu og það var fyrir eldri kynslóðina sem landlæknir talar um.

Vinna er fyrir þessa lækna, fyrir íslenska lækna sem eru mjög eftirsóttir af því að heilbrigðiskerfið okkar hefur verið mjög gott. Íslenskir læknar eru þar af leiðandi mjög eftirsóttir. Hvað er í boði fyrir þá í Vestur-Evrópu? Það sem er í boði fyrir þá er að vinna eins og þeim sýnist. Þeir geta unnið lítið, geta stokkið út og unnið í einhvern tíma og þeir fá miklu betri laun. Ég spurði landlækni: Hver er launamunurinn á Íslandi og hinum Norðurlöndunum, hver er launamunur lækna? Hann sagði að munurinn væri tvöfaldur til þrefaldur og í sumum tilfellum fjórfaldur, en almennt tvöfaldur til þrefaldur. Þú getur fengið tvöfalt hærri laun fyrir töluvert minni vinnu. Í ofanálag er það sem er í boði á Íslandi síaukið vaktaálag. Þú getur ekki sinnt fjölskyldunni þinni eða hitt maka þinn ef maki þinn er líka læknir, eins og við höfum séð síðustu daga fer það fólk úr landi, og hverjir taka við vaktaálaginu? Það eru þeir læknar sem eftir eru. Þetta er hinn neikvæði spírall sem landlæknir segir að við gætum lent í eftir áramót ef deilan verður ekki leyst, ef ekki verður farið í að forgangsraða í heilbrigðiskerfinu.

Annað sem landlæknir benti á er útvistun, þ.e. að Íslendingar geti farið til annarra landa og leitað sér læknisþjónustu, hann gaf ekki mikið fyrir hana. Hann nefndi sem dæmi að Danir sem geta gert þetta hoppi ekki upp í bíl til að fara til Þýskalands, þótt leiðin sé stutt. Þeir vilja sækja sína læknisþjónustu heima hjá sér. Það sama á eflaust við um Íslendinga og að sjálfsögðu ættum við að geta sótt læknisþjónustuna heima hjá okkur. Þetta á líka við um landsbyggðina sem þarf að taka allt þetta mál heildstætt. Landsbyggðin býr við skertan kost hvað þetta varðar. Hún á líka að geta sótt þjónustu heima hjá sér, að sjálfsögðu eftir því sem efni standa til. En meðan sjúklingar vilja síður fara úr landi til að sækja læknisþjónustu er það allt annað með læknana þegar aðstæðurnar eru eins og þær eru. Það sýnir umræðan síðustu daga og síðustu ár vel.

Hvað sögðu framsóknarmenn fyrir kosningar þegar sendar voru spurningar af Læknafélagi Íslands til flokkanna? Hverju lofuðu framsóknarmenn hvað þetta varðar? Spurningin var: Starfsmannaflótti og lengri biðlistar eftir rannsóknum og aðgerðum eru vaxandi vandamál í heilbrigðiskerfinu. Hvernig hyggst þinn flokkur bregðast við þessum vandamálum?

Þá kemur svarið, með leyfi forseta:

„Framsókn leggur ríka áherslu á að verðmæti heilbrigðisþjónustunnar felst fyrst og fremst í mannauðnum og því þarf að bæta starfsumhverfi og kjör heilbrigðisstétta og draga þannig úr brotthvarfi innan stéttarinnar.“

Það er akkúrat það sem við stöndum frammi fyrir og starfandi landlæknir segir að geti gerst eftir áramót, að við lendum í neikvæðum spíral þar sem mannauðurinn flæðir úr landi. Og áfram heldur svarið:

„Áfram skal stefnt að því að árangur íslenska heilbrigðiskerfisins verði í fremstu röð og að ávallt verði í boði eins góð heilbrigðisþjónusta og mögulegt er.“

Þetta var kosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar til Læknafélags Íslands.

Sjálfstæðisflokkurinn var aðeins myrkari í máli. (Gripið fram í.) Þeir kunna kannski betur að svara spurningum þannig að hægt sé að túlka svarið á marga vegu. (ÖS: Ekkert svar komi.) Svo ekkert svar komi, segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson. (ÖS: Sem ekki kann þá list.) Sem ekki kann þá list, segir hann. Ég get alla vega ekki lesið þennan fókus á mannauð og á það að passa að við missum hann ekki, sem var mjög skýrt hjá Framsóknarflokknum. Spurningin er: Hvað ætlar Framsóknarflokkurinn að gera, sér í lagi með hv. þm. og formann fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur? Hann hefur það í hendi sér að kalla eftir því að fá meira fjármagn í heilbrigðiskerfið. Er það ekki það sem við viljum? 90% landsmanna vill það, setur það í fyrsta eða annað sætið og augljóslega á undan öðrum málaflokkum þar sem annað sætið er menntakerfið með 44%.

Mig langar að taka nýleg dæmi um það sem er í gangi í samfélaginu akkúrat núna. 28. nóvember birti Jón Örvar Kristjánsson meltingarlæknir uppsagnarbréf sitt. Á síðu hópsins Raddir íslenskra lækna á Facebook segir, með leyfi forseta:

„Fjölmargir læknar hugsa þessa dagana málin og kæmi okkur ekki á óvart þó fjölmargir myndu hverfa frá störfum, frá kerfi þar sem þegar ríkir gríðarleg mannekla. Einungis tveir læknar á Landspítala geta gert það sem Jón gerir í dag og mun annar þeirra fara á eftirlaun á næsta ári. En leyfum orðum Jóns Örvars að tala fyrir sig sjálf:

Þá hef ég sagt upp starfi mínu, ég gerði það í gær. Landspítalinn getur farið að leita að eftirmanni mínum. Auglýsa þarf eftir lyf- og meltingarlækni í 60% starf við meltingardeildina. Viðkomandi þarf að hafa lokið 6 ára grunnnámi, kandidatsári og einu deildalæknisári við lyflæknisdeild og síðan 8 ára sérnámi. Kröfu þarf að gera um undirsérhæfingu í speglunaraðgerðum (advanced endoscopy) ásamt að sjálfsögðu breiðri þekkingu á meltingarlækningum. Ég er ekki viss um að skynsamlegt væri að láta viðkomandi vita að síðastliðin fimm ár hafa fjórir meltingarlæknar hætt störfum, einn vegna aldurs en hinir þrír vegna kjara sinna og aðstöðu við spítalann. Þeir leituðu í önnur störf erlendis (2) og innan lands (1). Auk þess hafa nær allir starfandi meltingarlæknar við deildina (6/8) minnkað við sig stöðuhlutfall en aukið það á öðrum vettvangi. Álagið hefur því aukist mikið á þá sem eftir eru og sífellt verður erfiðara að sinna þeim verkefnum sem berast vegna manneklu. Það myndi líklega einnig fæla frá ef viðkomandi vissi að frá 2008 hefur enginn bæst í hópinn, auglýst var staða síðastliðið vor, ein umsókn barst en sá aðili hætti við þegar honum voru ljós kjör og vinnuaðstæður. Það verður þó ekki komist hjá því að láta viðkomandi vita að fyrir þetta 60% starf greiðir Landspítalinn 358.083 kr. í mánaðarlaun og útborguð laun verða því um 180.000 kr. Launin verða þó eitthvað lægri ef reynsla umsækjanda sem sérfræðingur í meltingarlækningum er eitthvað styttri en sú tíu ára reynsla sem fyrirrennarinn hafði.

Ég er ekki viss um að leitin beri árangur því að ég veit ekki til þessa að íslenskur meltingarlæknir með þessa undirsérgrein hafi hug á að flytja til Íslands og raunar veit ég ekki um neinn á síðustu árum sem lagt hefur hana fyrir sig eða er í slíku námi nú. Það mætti reyna að auglýsa eftir erlendum meltingarlækni en mér er til efs að einhver sæki um þegar erlendis bjóðast margföld laun. Ég vil óska Landspítalanum alls hins besta, vonandi finnst lausn. Ég vil líka þakka samstarfsfólki mínu á spítalanum frábært samstarf síðastliðin 8 ár. Skemmtilegra starf hef ég ekki getað hugsað mér. Mér er líka ljóst að ég kem ekki til með að finna mér meira krefjandi starf á Íslandi eða starf þar sem mín sérþekking nýtist betur. Vegna stöðu kjaramála lækna á Landspítala hef ég nú ákveðið að sinna fremur öðrum áhugamálum. Ég er viss um að fleiri sérfræðilæknar á Landspítala hyggjast gera það sama og rétt að stjórnendur íslensks heilbrigðiskerfis átti sig áður en það verður um seinan. Bestu kveðjur, Jón Örvar Kristinsson.“

Svo það sé alveg ljóst eru stjórnendur íslenska heilbrigðiskerfisins hér í þessum sal og sér í lagi náttúrlega eru það heilbrigðisráðherra, formenn stjórnarflokkanna og formaður fjárlaganefndar. Þetta eru aðilarnir sem þegar öllu er á botninn hvolft eru stjórnendur heilbrigðiskerfis Íslands. Þeir ákveða hvað verður sett í þennan málaflokk.

Ég benti hv. þingmanni, formanni fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur í dag í andsvari á — ég ætla að finna spurninguna svo ég hafi þetta alveg rétt eftir — að meira en 90% landsmanna setja heilbrigðiskerfið í fyrsta eða annað sætið og hún var mjög ánægð að heyra það. Ég benti henni á að forstöðumenn heilbrigðiskerfisins og stofnana þess komu fyrir fjárlaganefnd og töldu upp hvað þyrfti að setja mikið fé í heilbrigðiskerfið umfram tillögur ríkisstjórnarinnar í fjárlögum til að hægt sé að veita þá lágmarksþjónustu sem forsvarsmenn heilbrigðisstofnana meta að sé nauðsynleg. Svo spurði ég hana: Að hve miklu leyti hefur fjárlaganefnd komið til móts við það mat á fjárþörfinni frá forsvarsmönnum heilbrigðiskerfisins? Til hálfs, 75% eða kannski til fulls? Það varð fátt um svör við þeirri spurningu. Annaðhvort var formaður nefndarinnar ekki alveg viss eða hún vildi ekki segja það í ræðustól.

Nú hefur hv. þm. Karl Garðarsson glott mikið yfir þessari ræðu minni hérna. Ég veit ekki hvort honum finnst þetta ekkert alvarlegt en hann glottir og ég vil spyrja hann: Veit hann hversu mikið hefur verið komið mikið til móts við þá fjárþörf sem forsvarsmenn heilbrigðiskerfisins komu með til fjárlaganefndar, sem þingmaðurinn situr í? Veit hann þá tölu? Hann getur kannski þurrkað glottið af andlitinu á sér meðan hann leitar að því. Hann er hættur að glotta, það er ágætt. Ég biðst afsökunar, mér fannst algerlega óviðeigandi í svona mikilvægu máli að þingmaðurinn glotti, eini maðurinn í salnum sem glottir.

Ég ætla að lesa aftur loforð flokks hans, Framsóknarflokksins, til Læknafélags Íslands fyrir kosningar í ljósi þess sem ég er þegar búinn að lesa. Spurningin var: Starfsmannaflótti og lengri biðlistar eftir rannsóknum og aðgerðum eru vaxandi vandamál í heilbrigðiskerfinu. Hvernig hyggst þinn flokkur bregðast við þessum vandamálum?

Svarið frá Framsóknarflokknum var: „Framsókn leggur ríka áherslu á að verðmæti heilbrigðisþjónustunnar felst fyrst og fremst í mannauðnum og því þarf að bæta starfsumhverfi og kjör heilbrigðisstétta og draga þannig úr brotthvarfi innan stéttarinnar. Áfram skal stefnt að því að árangur íslenska heilbrigðiskerfisins verði í fremstu röð og að ávallt verði í boði eins góð heilbrigðisþjónusta og mögulegt er“.

Það verður ekki í boði góð heilbrigðisþjónusta á Íslandi ef við lendum í neikvæðum spíral þar sem aukið vinnuálag, léleg laun og slæm aðstaða til að sinna sjúklingum sínum þýðir að læknar hætta, og þeir eru að hætta í hrönnum, og vaktaálagið eykst þá og verður meira fyrir þá sem eftir eru. Það verður ekki neinn mannauður eftir eða þá hann minnkar og kosningaloforð Framsóknarflokksins standast engan veginn.

Það kveður við sama tóninn alls staðar. Í Fréttablaðið í dag skrifar Svanur Sigurbjörnsson læknir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Það fer væntanlega fram hjá fáum að nú ríkir kreppa í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Læknaskortur er orðinn alvarlegur á bæði sjúkrahúsum og heilsugæslu. Þá er húsakostur, ýmis tækjakostur og aðstaða miðstöðvar lækninga á landinu, Landspítalans, löngu úr sér gengin. Læknar hafa dregist aftur úr launaþróun háskólamenntaðra á Íslandi undanfarinn áratug. Sérstaklega ber að nefna þar kjör almennra lækna sem eru um 100 þúsund krónum lægri en þeirra háskólastétta sem best fá launin eftir útskrift. Samt eru læknakandídatar með lengsta háskólanámið og mestu ábyrgðina í starfi. Þetta hefur verið svartur blettur á íslensku launakerfi um langan aldur […]“

Ég ætla að gera hlé á meðan hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gengur fram hjá. Sæl. (VigH: Komdu sæll.) Ég vitnaði einmitt í andsvör okkar áðan um hversu mikið fjárlaganefnd hefði komið til móts við þá fjárþörf sem yfirstjórn heilbrigðiskerfisins og forsvarsmenn hennar hafa kallað eftir. Í andsvörunum var hv. þingmaður ekki alveg með tölurnar á hreinu. Það væri æðislegt ef tölurnar væru komnar og við gætum notað andsvör til að upplýsa landsmenn um þær. Þá ætla ég að halda áfram með lesturinn:

„Þetta hefur verið svartur blettur á íslensku launakerfi um langan aldur og er ein stærsta ástæða þess að unglæknar flytjast af landi brott eins fljótt og þeir geta eftir útskrift. Ástandið er ekki boðlegt. Þeir fá hærri laun t.d. í Danmörku en sérfræðingar eftir 13 ára starf fá hérlendis. Í Noregi er þeim boðið að auki að fá námslánin sín niðurgreidd. Fjölskylda og vinatengsl toga unglækna heim en stór skuldastaða eftir 6–8 ára nám, engar eignir og annars flokks vinnuaðstaða eru ófrýnilegir valkostir miðað við það sem býðst í nágrannaríkjunum. Kjaramismunurinn er einfaldlega allt of mikill á öllum stigum læknisfræðinnar til að fara heim. Eftir þau 10–14 ár sem það svo tekur að greiða niður námslánin og eignast eitthvað sem bjóðandi er fjölskyldunni eru ræturnar orðnar það sterkar erlendis að Ísland telst ekki lengur „heima“. Þannig höfum við nú þegar misst af 1–2 kynslóðum lækna sem við sjáum ekki aftur.“

Ég vil stíga aðeins út úr þessari grein og nefna það sem starfandi landlæknir sem ég talaði við í dag sagði. Eitt af því sem hann nefndi er að læknar á vissum deildum, það eru ekki allar deildir sem eiga við manneklu að stríða en það eru vissar lífsnauðsynlegar deildir sem eiga við mikla manneklu að stríða og læknar þar hafa sagt honum að þeir séu hræddir um að þeir hafi misst kynslóð. Þegar þú missir kynslóð missir þú það að ungu læknarnir séu búnir að læra af gömlu læknunum þegar þeir fara. Þeir hafa miklar áhyggjur af þessu. Svo held ég áfram með lesturinn, með leyfi forseta:

„Alþjóðavæðingin hefur gjörbreytt samkeppnisstöðu heilbrigðiskerfisins. Vinnuafl flæðir þangað sem kjörin eru best og vinnu er að fá. Ísland þarf að vera samkeppnisfært. Nú er að duga eða drepast. Sú fjársveltistefna sem einkennt hefur heilbrigðispólitík íslenskra stjórnmálamanna undanfarna tvo áratugi þarf að víkja. Góðærið kom aldrei í heilbrigðiskerfið og því varð engin uppbygging þar líkt og í svo mörgu öðru í þjóðfélaginu sem á enn stoðir í húsnæði og framþróun þrátt fyrir hrunið. Í miðju góðærinu var Landspítalinn skuldum vafinn vegna vanskila við birgja. Fjárhagsleg óráðsía og pólitísk vanræksla einkenndi málaflokkinn og við súpum áfram seyðið af því.

Læknafélagið hefur beðið ríkisstjórnina um kauphækkun til handa læknum sem eitthvað munar um. Eitthvað sem sýnir hið minnsta að Ísland hafi áhuga á því að reyna að snúa við þróun landflótta íslensku læknastéttarinnar. Þegar ríkisstjórnin svarar því ítrekað með 3% tilboðum er hún einfaldlega að sýna læknum og heilbrigðiskerfi þjóðarinnar fingurinn. Það er í takt við gamalkunnuga vanrækslu. Það eru skilaboð um að hér verði áfram B-gæði og raunverulegur áhugi fyrir framförum sé ekki til staðar. Verði læknar þess ekki áskynja með viðbrögðum og samningstilboðum ríkisstjórnarinnar að það eigi að taka fyrstu skrefin í átt til uppbyggingar verður stéttin fyrir ákveðnu áfalli. Læknar munu í auknum mæli hverfa á braut utan eða hverfa frá erfiðri og álagsmikilli spítalavinnu í áhættuminni störf. Þjónustan á landsbyggðinni gæti hrunið. Fyrr en varir verðum við í C-flokki.“

Þá lýkur lestrinum.

Svanur nefnir að læknastéttin verði fyrir ákveðnu áfalli ef ekki verður samið við læknana svo að um muni. Ég held að það hafi verið Stefán Ólafsson sem skrifaði grein á Eyjunni þar sem hann var að tala um að við eigum að veita læknum og heilbrigðisstarfsfólki ákveðna sérmeðferð. Ég gæti ekki verið meira sammála. Ég vil algerlega gera það og ég held að margir Íslendingar séu sammála um það. 90% landsmanna vilja sjá heilbrigðismálin í fyrsta eða öðru sæti. Ég held að það séu margir landsmenn sammála um að við eigum að setja heilbrigðisstarfsmennina okkar í ákveðinn sérflokk. Og áfram glottir góðvinur minn, hv. þm. Karl Garðarsson. (Gripið fram í.) Mér er þá farið að förlast, heldur betur.

Ég hafði samband við marga lækna í dag eftir að ég átti samtal við starfandi landlækni og spurði þá um þennan neikvæða spíral sem við gætum verið komin inn í eða verið á leiðinni inn í, að missa lækna í hrönnum úr kerfinu vegna þess, eins og ég nefndi áðan, að álag sem er á læknum núna, það er yfirgnæfandi vaktaálag, mun flytjast af þeim sem fara úr stéttinni yfir á þá sem eftir eru sem þýðir að þeir eru líklegri til að fara og koll af kolli. Ég spurði líklega alla lækna sem ég þekki hvernig þeir upplifa þetta. Áður en ég les svörin frá þeim langar mig enn og aftur að lesa upp kosningaloforð Framsóknarflokksins til Læknafélags Íslands fyrir síðustu kosningar. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hann sé tilbúinn til að biðja formann fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur, ef hún er á svæðinu, að koma í þingsal og hlýða á það, er einhver sem gæti fundið hana? (Gripið fram í.) Hún er þarna. Takk. (VigH: Ég var í símanum.) Vonandi að tala við landlækni um það hvernig hægt er að leysa málið. Mig langar nefnilega að lesa fyrir hv. formann fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur, og framsóknarskörung hverju Framsóknarflokkurinn lofaði Læknafélagi Íslands fyrir síðustu kosningar. Þetta er önnur spurning Læknafélagsins á spurningablaðinu: Starfsmannaflótti og lengri biðlistar eftir rannsóknum og aðgerðum eru vaxandi vandamál í heilbrigðiskerfinu. Hvernig hyggst þinn flokkur bregðast við þessum vandamálum?

Framsóknarflokkurinn svaraði, með leyfi forseta:

„Framsókn leggur ríka áherslu á að verðmæti heilbrigðisþjónustunnar felst fyrst og fremst í mannauðnum og því þarf að bæta starfsumhverfi og kjör heilbrigðisstétta og draga þannig úr brotthvarfi innan stéttarinnar. Áfram skal stefnt að því að árangur íslenska heilbrigðiskerfisins verði í fremstu röð og að ávallt verði í boði eins góð heilbrigðisþjónusta og mögulegt er.“

Þetta eru mjög fögur orð og ég held að allir landsmenn geti tekið undir þau orð. 90% landsmanna vilja setja heilbrigðiskerfið í fyrsta eða annað sæti þegar þeir forgangsraða skattfé sínu. Þetta eru virkilega góð orð og ég held að þarna hafi margir kjósendur hugsað með sér: Þetta viljum við sjá. En núna stöndum við frammi fyrir því að lenda í neikvæðum spíral við það að missa mannauðinn í önnur störf á Íslandi eða jafnvel fleiri til útlanda þar sem menn fá betri laun, betri aðstöðu til að sinna sjúkum. Ég hef heyrt hjá öllum læknum sem ég hef talað við að það sé ástæðan fyrir því að þeir eru að þessu, læknar hafa sætt sig við slæmt ástand, miklu meira vinnuálag en er erlendis og lægri laun á Íslandi svona lengi vegna þess að sjúklingana eru þeim kærir og þeir vilja búa heima á Íslandi.

Nú langar mig að fara yfir þau atriði sem komu skýrt fram, athugasemdirnar sem ég fékk frá öllum þeim læknum sem ég náði í í dag varðandi þennan neikvæða spíral sem mun kosta okkur það að mannauðurinn minnkar í heilbrigðiskerfinu í miklum mæli. Ég spurði alla hvort þeir gætu gefið mér endurgjöf um skrif mín á blogginu mínu í dag, atriði sem ég tók saman og hafa komið fram í máli mínu í dag, og svo skoðanakönnun Gallups um forgangsröðun í heilbrigðiskerfið en 90% kjósenda vilja setja heilbrigðiskerfið í forgang.

Hérna fæ ég svar, dæmisögu eða lífssögu, kringumstæður eins læknis: Ég sjálf, sérfræðingur í kvensjúkdóma- og fæðingarlækningum eftir sex ára grunnnám á Íslandi, eitt kandidatsár og fimm ára sérnám erlendis, samtals 12 ára nám, vinn í 80% stöðu á kvennadeildinni sem fæðingarlæknir. Ég er ekki bara með einn sjúkling heldur í rauninni tvo á minni ábyrgð fyrir hvert tilfelli sem eru ansi mörg á hverjum degi. Ég er með 430 þús. kr. í grunnlaun, fékk útborgað um síðustu mánaðamót 316 þús. með einni bundinni 16 klukkustunda vakt í húsi og annarri 16 klukkustunda bakvakt ofan á venjulega dagvinnu. Ég er með þrjú börn á framfæri og get engan veginn séð fyrir mér og mínum. Ef ekkert breytist neyðist ég til að hætta á spítalanum og snúa mér eingöngu að stofurekstri og að pendla erlendis í hverjum mánuði, sem mér finnst svolítið ömurlegt því að mér finnst starfið mitt það skemmtilegasta sem ég get ímyndað mér og finnst forréttindi að fá að mæta í vinnuna á hverjum morgni. En því miður borgar ánægjan ekki reikninginn.

Svo nefnir hún í gríni að hún sé ekki bara almennur læknir heldur sérfræðingur sem fái iðulega betur borgað í þessu kerfi, eins og hefur komið fram er bagalegt hversu lág grunnlaunin eru. Hvernig ætlum við að geta fengið nýja lækna inn í greinina þegar grunnlaunin erlendis eru á við sérfræðilaun hér á Íslandi?

Annar læknir svaraði mér: Þetta lýsir ástandinu eins og það er staðfest, að almenningur er farinn að finna fyrir því að heilbrigðiskerfið er komið að þolmörkum. Hvað kaup og kjör varðar þá er vinnumarkaður lækna ekki einskorðaður við Ísland og meðan íslenskir læknar þurfa að fara utan í sérfræðimenntun þarf Ísland að vera samkeppnishæft í launum, a.m.k. við Svíþjóð þar sem langflestir sækja sína framhaldsmenntun. Langflestir vilja heim til Íslands en fólk á fertugs- og fimmtugsaldri er ekki tilbúið að fara frá góðum stöðum og fara yfir í strögl og þurfa að vinna 80–100 tíma vinnuviku til að hafa það skítsæmilegt.

Einn læknir segir að vandamálið sé fyrst og fremst hversu illa gangi að manna stöður lækna hjá hinu opinbera því að launin séu í engu samræmi við menntun, ábyrgð og álag. Þessi læknir vill meina að steinsteypa reddi þessu ekki. Annar segir: Takk fyrir þetta, þetta skýrir á einfaldan hátt hver staðan er.

Allir sem ég hef náð að tala við í dag eru sammála um þessa stöðu, að manneklan sem við stöndum frammi fyrir og sá spírall sem við getum lent í, að missa fólk enn þá frekar út úr heilbrigðisstéttinni, sé stóra vandamálið. Stóra vandamálið er náttúrlega aðstaðan, gríðarlegt vinnuálag, léleg laun, hvað þá þegar læknar fara að flýja úr heilbrigðiskerfinu, þá leggst vinnuálag á þá sem fyrir eru sem aftur eykur á flótta.

Mig langar aftur að spyrja hv. formann fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur, hvort hún sé komin með svör við spurningunni um það að hve miklu leyti fjárlaganefnd hefur komið til móts við mat á fjárþörf frá forsvarsmönnum heilbrigðiskerfisins; til hálfs, 75%, til fulls?