144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að á starfstíma þessarar ríkisstjórnar, í um eitt og hálft ár, sé búinn að nást algjör viðsnúningur í málefnum heilbrigðisgeirans hér á landi. Fyrri ríkisstjórn var til dæmis búin að skera Landspítalann niður um 20% þannig að það þarf ansi mikið fjármagn til að ná jafnvægi. Við erum búin að ná því með þessum viðbótum sem koma núna inn í Landspítalann, 1 þús. milljónum aukalega við aðra umferð fjárlaga.

Ég ætla líka að benda þingmanninum á að við erum að takast á við ófjármögnuð verkefni frá fyrri ríkisstjórn. Hún ákvað til dæmis að fara í jafnlaunaátak á Landspítalanum þar sem við þurftum að bæta í um 1,2 milljörðum þannig að það er svo langtum meira en bara reksturinn. Ég lýsti áhyggjum mínum yfir læknadeilunni og þeim launadeilum sem eiga sér stað í heilbrigðisgeiranum og fór yfir þær í framsöguræðu minni. Ég vona að það að fari vel. Það er á borði fjármálaráðherra (Forseti hringir.) og ég treysti honum til að leysa vel úr því og vonandi fljótt. Vinnan er á fullu.