144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að segja að það hafi ekki orðið viðsnúningur frá síðustu ríkisstjórn, alls ekki. Það var komið í bakkgírinn og við erum kannski komin í fyrsta eða annan gír. Það hefur orðið viðsnúningur en er hann nægur?

Framkvæmdastjóri Landspítalans sem kom fyrir fjárlaganefnd — og við vorum bæði á þessum fundi — kallaði eftir 1,2 milljörðum, ekki 1 milljarði, og svo kallaði hann eftir 600 milljónum í ofanálag. Það getur ekki hafa farið fram hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar, manneklan og fólkið sem við erum að missa úr landi. Landlæknir, sá embættismaður sem er treyst fyrir því starfi, starfandi landlæknir, sem ég átti samtal við í dag, nefndi að við gætum verið á mjög hættulegum stað í upphafi næsta árs með það að lenda í spíral þar sem við (Forseti hringir.) missum tök á málunum.