144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn spyr hvað þurfi að hækka launin mikið, nefndi það sem dæmi. Við vitum það ekki alveg, en við vitum samt að íslenskir læknar vilja starfa á Íslandi. Launin eru ekki aðalatriði hjá þeim. Við vitum að há laun eru ekki endilega hvetjandi, en lág laun eru letjandi. Það er þannig sem því er háttað á Íslandi, of lág laun eru greidd fyrir allt of mikið vaktaálag og lélega aðstöðu. Það er þetta sameiginlega sem er að hrekja lækna burtu. Læknum á ekki að finnast þeir þurfa að vera á endalausum vöktum til að geta framfleytt fjölskyldu sinni, læknum með alla sína reynslu, allt sitt nám, öll sín námslán og jafnvel tveir læknar í fjölskyldu sem geta varla hist út af vaktaálaginu. Það verður að hækka launin, hve mikið veit ég ekki en það þarf líklega ekki að hækka þau jafn mikið og í nágrannalöndunum af því að það er margt annað sem togar í á Íslandi.