144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs um fundarstjórn forseta til að inna forseta eftir því hvað er fyrirhugað um framhald á fundahöldum. Við höfum átt býsna langa, góða og mikilvæga umræðu um fjárlagafrumvarpið, ég hef heyrt margar góðar framsöguræður, en klukkan er nú farin að nálgast miðnættið og mér barst fyrr í dag fundarboð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kl. 8.30 í fyrramálið þar sem á að fara yfir rannsóknarskýrslu um fall sparisjóðanna sem ég veit að hæstv. forseti þekkir vel. Hún er býsna yfirgripsmikil og menn þurfa einhvern tíma til að undirbúa sig að loknum þingfundi fyrir nefndarfundinn kl. 8.30 í fyrramálið þannig að mér leikur hugur á að vita hjá forseta hversu lengi hann hyggist halda umræðunni áfram svo hægt sé að gera ráðstafanir og skipuleggja störf sín í samræmi við það.