144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:53]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að annað árið í röð skuli stefna í hallalaus fjárlög. Tekjurnar aukast og hafa þær verið nýttar til að auka framlög til grunnþjónustu ríkisins. Það eru ákveðin vonbrigði að niðurgreiðsla skulda skuli ekki vera hafin en vaxtakostnaður er þriðji mesti útgjaldaflokkurinn á eftir heilbrigðismálum og almannatryggingum. Við greiðum hærri upphæð í vexti á ári hverju en sem nemur því sem við setjum í rekstur Landspítalans. Þetta er þróun sem við verðum að vinda ofan af og því hlýtur það að vera forgangsverkefni stjórnvalda í næstu fjárlögum að hefja niðurgreiðslu skulda ríkisins. Það er ekki bara okkur til hagsbóta heldur líka komandi kynslóðum. Það er löngu orðið tímabært að láta af þeirri skammtímahugsun sem einkennt hefur fjárlög svo lengi og reyndar líka hugsunarhátt stjórnmálamanna. Ef ekkert verður gert munu börn okkar og barnabörn ekki njóta sömu lífsgæða og við.

Það hefur líka verið bent á að breytt aldurssamsetning þjóðarinnar muni kalla á aukna eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt meðaltali OECD er kostnaður þjóðfélaga vegna hvers einstaklings eldri en 65 ára fjórum sinnum meiri en þeirra sem yngri eru. Íslendingum eldri en 67 ára mun fjölga um 50% á næstu tíu árum. Fjölga þarf hjúkrunarrýmum fyrir aldraða um allt að 1.700 á næstu 15 árum og nemur kostnaður vegna þessa um 54 milljörðum kr. Af þessum fjölda eru um 1.100 hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu. Þessi breytta aldurssamsetning þjóðarinnar kallar á tafarlausar aðgerðir í heilbrigðismálum.

Skuldir ríkisins, lífeyrisskuldbindingar og breytt aldurssamsetning kallar sem sagt á forgangsröðun í ríkisfjármálum. Tekjur ríkisins hækka um 9,5 milljarða kr. frá fjárlagafrumvarpinu og byggir sú spá á endurmati fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Tekjuskattar einstaklinga og lögaðila hækka um rúmar 20 milljarða kr. og 2,6 milljarðar eru vegna fjármagnstekjuskatts. Á móti vegur lækkun á sköttum á vöru og þjónustu um 8,8 milljarða kr. og munar þar mestu um rúma 5 milljarða vegna virðisaukaskatts.

Gert er ráð fyrir að neðra þrep virðisaukaskatts hækki í 11% í stað 12%. Samhliða því er efra þrepið lækkað úr 25,5% í 24%. Samtals er áætlað að kerfisbreytingar virðisaukaskatts lækki tekjur ríkisins um 3 milljarða kr. Auk lækkunar virðisaukaskatts er nú gert ráð fyrir að svokallaður bankaskattur lækki um 4,5 milljarða kr. Breytt áform um lækkun vörugjalda um næstu áramót í einum áfanga í stað tveggja lækka einnig tekjurnar um 3 milljarða kr.

Ég hef gagnrýnt þær hugmyndir að hækka virðisaukaskatt á matvæli og tel að menn verði að fylgjast mjög vel með þróun matvælaverðs á næstunni. Menn hafa bent á að vörugjöld lækki á móti og svo lækki efra þrep virðisaukaskatts. Þess utan séu margvíslegar mótvægisaðgerðir til að styðja þá sem verst standa. Heildaráhrifin verði því jákvæð fyrir neytendur, ekki neikvæð. Reynslan hefur hins vegar sýnt okkur að skattahækkanir skila sér yfirleitt fljótt inn í verðlagið, skattalækkanir síður. Það á því eftir að koma í ljós hver heildarniðurstaðan verður og þess vegna verður virkt verðlagseftirlit að vera til staðar svo að við getum fylgst með þeirri þróun sem verður á matvælaverði á næstunni.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson ræddi aðeins um sykurskattinn svokallaða hér áðan og get ég tekið undir orð hans. Sykurskattur, eins og hann hefur verið framkvæmdur hér á landi, hefur ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt, þ.e. að neysla á vörum með sykri í minnki. Til að slíkur skattur skilaði slíkum árangri yrði hann að vera margfalt hærri en hér hefur verið. Við hættum ekki að kaupa sykraðar vörur eða gosdrykki þó að verðið hækki um 1 eða 2 kr. á viðkomandi vöru.

Tillögur meiri hluta fjárlaganefndar til hækkunar útgjalda eru af ýmsum toga. Forgangsraðað er til heilbrigðisþjónustu, framkvæmda Vegagerðarinnar, menntunar, barnabóta og margvíslegra annarra smærri málaflokka. Í heild er gerð tillaga um 9,3 milljarða kr. hækkun útgjalda. Hverjar eru svo tillögurnar? Hér verður aðeins stiklað á stóru enda breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar fjölbreyttar.

Byrjum á menntakerfinu. Lagt er til að fjárheimild Háskóla Íslands hækki um tæplega 300 millj. kr. og að Háskólinn í Reykjavík fái tæplega 260 milljónir aukalega. Aðrir skólar á háskólastigi fá einnig fjárveitingar samkvæmt tillögu meiri hluta fjárlaganefndar. Það má endalaust deila um skiptingu fjármuna til háskóla. Hver og einn þeirra hefur sínar þarfir. Þeir eru ólíkir innbyrðis og áherslur þeirra mismunandi. Þær fjárhæðir sem ég nefndi eru hluti af 617 millj. kr. hækkun á framlagi til kennslu á háskólastigi og koma til viðbótar 463 millj. kr. framlagi í frumvarpinu til að styrkja rekstrargrundvöll kennslu á háskólastigi. Samanlagt nema viðbótarframlög tæplega 1,1 milljarði kr. árið 2015. Heildarniðurstaðan er því sú að verið er að styrkja menntakerfið verulega enda flestir sammála um að ekki hafi verið vanþörf á.

Ríkisútvarpið hefur verið í sviðsljósinu undanfarna daga vegna fjárhagsörðugleika. Lagt er til að veitt verði 182 millj. kr. viðbótarframlag til að styrkja rekstur Ríkisútvarpsins. Ljóst er að ekki hefur tekist að halda fjárhagsstöðu þess í viðunandi horfi á undanförnum árum og hefur ríkissjóður nokkrum sinnum þurft að taka á sig veruleg útgjöld til að bæta stöðu þess. Þannig voru afskrifaðar skuldir hlutafélagsins við ríkissjóð sem námu 625 millj. kr. árið 2006 þegar verið var að koma félaginu á fót, 65 millj. kr. árið 2007 og 123 millj. kr. árið 2008. Árið 2009 var síðan afskrifaður 563 millj. kr. hlutur ríkisins í Ríkisútvarpinu sem var færður til gjalda hjá ríkissjóði. Samtals nema afskriftir vegna Ríkisútvarpsins ríflega 2 milljörðum kr. á verðlagi ársins.

Sú tímabundna fjárheimild sem veita á nú til RÚV og útgreiðsla hennar er háð skilyrðum um að fram fari fjárhagsleg endurskipulagning og raunhæfar rekstraráætlanir líti dagsins ljós. Ég hef hingað til verið talsmaður þess að skera niður fjárveitingar til Ríkisútvarpsins og að reksturinn verði endurskoðaður frá grunni; jafnframt fari fram opinská umræða um framtíðarhlutverk RÚV. Hvernig fyrirtæki á þetta að vera? Hvert á þjónustuhlutverk þess að vera? Á það að vera stofnun sem reynir að höfða til sem flestra á öllum sviðum eða þarf að afmarka hlutverk stofnunarinnar nánar?

Fjölmiðill í almannaþágu er sveigjanlegt hugtak svo ekki sé meira sagt. Það er hins vegar rétt að ganga ekki of langt í niðurskurði á framlögum til RÚV á þessari stundu. Nýr útvarpsstjóri þarf að fá meiri tíma til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Skoðum hvernig til tekst á næsta ári; tökum síðan ákvörðun um framhaldið. Ef ekki verður gripið til nauðsynlegra aðgerða þar innan dyra þarf að taka á því máli og endurskoða hlutverk RÚV.

Talsverður niðurskurður var á framlögum til utanríkisþjónustu í fyrra, á sama tíma og alþjóðavæðing og mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu eykst ár frá ári. Það er því gleðilegt að lagt sé til að aukafjárveiting fari að þessu sinni til að styrkja rekstur sendiskrifstofa, 40 milljónir. Fjárhæðin verður notuð til að styrkja hagsmunagæslu Íslands í milliríkjaviðskiptum, t.d. varðandi EES-samninginn, gerð viðskiptasamninga og tvíhliða samskipti við mikilvægar viðskiptaþjóðir.

Lagt er til að Landhelgisgæslan fái 200 millj. kr. hækkun á framlagi sínu til að styrkja lágmarks leitar- og björgunarþjónustu auk þess sem lagt er til að 25 milljónum verði varið tímabundið til undirbúnings alþjóðlegrar björgunarmiðstöðvar á Íslandi. Þetta eru jákvæð mál bæði tvö.

Fjárskortur hefur valdið því að Vegagerðin hefur ekki getað sinnt því starfi sem henni ber. Þá erum við að tala um snjómokstur, viðhald vega og nýframkvæmdir. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til 250 millj. kr. hækkun á framlagi til vetrarþjónustu Vegagerðarinnar en árlegur kostnaður vegna þeirrar þjónustu hefur verið umfram fjárheimildir undanfarin ár. Þá er lagt til að 570 millj. kr. verði veittar til viðbótar til framkvæmda Vegagerðarinnar. Þar er horft til framkvæmda við safn- og tengivegi auk nýframkvæmda á dreifbýlum svæðum. Hér er samtals um 820 millj. kr. að ræða. Vegagerð og viðhald vega má ekki verða út undan enda greiðar samgöngur mikilvægar fyrir landsmenn alla.

Viðhaldi á flugvöllum á landsbyggðinni hefur verið ábótavant undanfarin ár og verður ekki unað við það lengur. Gerð er tillaga um 500 millj. kr. tímabundið framlag til að koma til móts við uppsafnaða þörf fyrir uppbyggingu á flugvöllum sem þjóna innanlandsflugi. Isavia hefur þegar unnið tillögu að forgangsröðun verkefna sem nær meðal annars til flugvalla í Vestmannaeyjum, Ísafirði, á Gjögri, Vopnafirði, Hornafirði auk Þingeyrar og Akureyrar. Samhliða þessum aðgerðum leggur meiri hluti fjárlaganefndar til að gerð verði breyting á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins þannig að Isavia greiði 700 millj. kr. arð í ríkissjóð.

Þá má nefna 300 millj. kr. tímabundið framlag til fyrsta áfanga framkvæmda fyrirhugaðrar fjarskiptaáætlunar en löngu er orðið tímabært að koma fjarskiptamálum landsins, ekki síst ljósleiðaravæðingu, í viðunandi horf svo að allir landsmenn sitji við sama borð. Segja má að staða þessara mála hafi verið fullkomlega óviðunandi og hafi staðið í vegi fyrir framþróun ýmissa byggðarlaga. Það er því fyrir löngu orðið tímabært að setja fjarskiptamálin í forgang. Ég er sannfærður um að flestir þingmenn eru sammála því. Uppbyggingin kostar milljarða en þessar 300 milljónir eru mikilvægt fyrsta skref til að við getum komið framkvæmdum af stað.

Lagt er til 400 millj. kr. framlag til aukinna húsaleigubóta. Unnið hefur verið að uppbyggingu að nýju húsnæðisbótakerfi sem ætlað er að leysa af hólmi núverandi vaxtahúsaleigubótakerfi. Með hinu nýja kerfi er stefnt að því að jafna stöðu leigjenda við stöðu eigenda íbúðarhúsnæðis sem fá greiddar vaxtabætur svo að stuðningur hins opinbera taki mið af fjölskyldustærð í stað búsetuforms. Þetta 400 millj. kr. framlag er áfangi í því að sameina framangreind styrktarkerfi með því að auka stuðning við leigjendur.

Heilbrigðiskerfið hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu, ekki síst hér í kvöld, enda ein helsta grunnstoð samfélagsins sem við verðum að standa vörð um. Lagt er til að Landspítalinn fái 1 milljarð kr. í viðbótarfjárveitingu til að styrkja reksturinn. Þetta kemur til viðbótar 120 millj. kr. viðbótarframlagi samkvæmt frumvarpinu. Nemur heildarviðbótin því 1.120 millj. kr. Því til viðbótar er gerð tillaga um 875 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til hönnunar á meðferðarkjarna vegna nýrra bygginga á lóð Landspítala við Hringbraut og til framkvæmda á nýju sjúkrahóteli. Þetta framlag kemur til viðbótar 70 millj. kr. framlagi sem var fyrir í frumvarpinu til að ljúka við hönnun á nýju sjúkrahóteli. Segja má að ákveðin yfirlýsing felist í þessari tillögu, yfirlýsing um að uppbyggingu Landspítalans verði haldið áfram og ber að fagna því. Spítalinn er í afar slæmu ásigkomulagi og það er ekki spurning um hvort heldur hvenær við verðum að taka byggingarmál hans föstum tökum. Það er lítill hagnaður í að fresta því óhjákvæmilega.

Fjárlög þessa árs bera vitni um áherslubreytingar til batnaðar í heilbrigðismálum. Ríkisstjórnin setur heilbrigðiskerfið í forgang og hefur okkur sannarlega tekið að snúa við blaðinu. Fjárlög sýna það svart á hvítu. Kostnaðarhlutdeild sjúklinga sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda lækkar og þátttaka einstaklinga í einstökum lyfjakostnaði minnkar um 5% með 150 millj. kr. aukinni greiðsluþátttöku ríkisins. Lyfjakostnaður sjúklinga lækkar jafnframt sem er lækkun efra þreps virðisaukaskatts úr 25,5% í 24%. Framlög til Landspítalans hafa aldrei verið hærri en í fjárlögum nú frá stofnun spítalans eða 49,4 milljarðar kr.

Sérstök framlög til rekstrar og stofnkostnaðar heilbrigðisstofnana aukast um rúman 2,1 milljarð kr. Rekstrarframlög til heilbrigðismála almennt eru aukin, þ.e. tækjakaup á landsbyggðinni um 100 millj. kr., styrking á rekstrargrunni heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva um 100 millj. kr. og FSA um 50 millj. kr. Allt tal um endalausan niðurskurð í framlögum til heilbrigðismála er rangt, tölurnar tala sínu máli.

Það er líka verið að auka framlög til öldrunarstofnana. Gert er ráð fyrir að framlög til þeirra aukist um 710 millj. kr. Með þessu á að styrkja daggjaldagrunninn. Hjúkrunarheimili glíma mörg við mikla rekstrarerfiðleika og hefur ríkið þurft að greiða úr þeim með ýmsum hætti, m.a. með því að taka nýverið yfir rekstur eins heimilis. Nauðsynlegt er að endurskoða rekstrarfyrirkomulagið en það hefur reynst mörgum smærri sveitarfélögum erfitt að halda þjónustunni gangandi þar sem stór hluti af tekjum viðkomandi sveitarfélaga fer til reksturs hjúkrunarheimila. Jafnframt þarf að vinna að áætlun um uppbyggingu hjúkrunarheimila til framtíðar.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að veitt verði tímabundið 210 millj. kr. framlag til starfsemi starfsendurhæfingarsjóða sem annast atvinnutengda starfsendurhæfingu og kemur sú upphæð beint úr ríkissjóði. Þetta er mikilvægt framlag enda starfsendurhæfing mikilvæg fyrir fjölda einstaklinga.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að staða Íbúðalánasjóðs er grafalvarleg og nauðsynlegt að ná tökum á fjármálum sjóðsins og fá niðurstöðu um framtíð hans. Það hefur dregist allt of lengi að taka á þessu máli, það hefði þurft að gera fyrir mörgum árum. Lagt er til að fjárheimild til Íbúðalánasjóðs hækki tímabundið um 2,4 milljarða kr. Tilefnið er ákvörðun ríkisstjórnar um að flýta niðurfærslu á verðtryggðum húsnæðisskuldum. Með flýtingunni sparast umtalsverður vaxtakostnaður sem annars hefði runnið til lánastofnana. Þessir fjármunir nýtast frekar til leiðréttingar á húsnæðisskuldum heimila.

Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir 40 millj. kr. niðurskurði á framlögum til skattrannsóknarstjóra. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að niðurskurðurinn verði ekki svo mikill heldur aðeins 14 millj. kr. Viðbótarfjárheimild verður því um 26 milljónir. Fjölmörg viðamikil verkefni liggja á borði skattrannsóknarstjóra en talið hefur verið að skattsvik geti numið að minnsta kosti 50 milljörðum kr. á ári. Eftirlit skattrannsóknarstjóra hefur skilað ríkissjóði tugum milljarða á liðnum árum og því er hreinlega galið að skera framlög til þessarar stofnunar niður, nær hefði verið að auka við þau. Það er varla hægt að vorkenna ríkissjóði sem hreinlega nennir ekki eða hefur ekki áhuga á að ná í þær tekjur sem honum ber. Það þýðir lítið að tala sífellt um peningaskort á meðan við tökum ekki á þeim vanda sem er í eigin bakgarði.

Hvaða tölur erum við að tala um varðandi eftirlit skattrannsóknarstjóra? Samkvæmt upplýsingum frá honum sjálfum sem birtar voru í tímariti skattrannsóknarstjóra skilaði eftirlit skattyfirvalda árið 2008 2.734 millj. kr., 2009 2.874 milljónir, 2010 3.841 milljón og 2011 5.969 milljónir. Til viðbótar var yfirfæranlegt tap félaga lækkað um samtals 59,7 milljarða kr. á þessum árum. Um umtalsverða peninga er því að ræða.

Það er ýmislegt fleira markvert í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar. Lagt er til að tugum milljóna verði varið í rannsóknir sem tengjast ferðamennsku. Þannig safnast upplýsingar sem nýtast okkur vel við uppbyggingu og þróun á þessari mikilvægu atvinnugrein. Lagt er til að um 20 millj. kr. fari í að bæta öryggismál á Litla-Hrauni og lokið verði við að byggja yfir hluta fangelsisins á Sogni en þar hefur vantað fjármagn. Lagt er til að 20 millj. kr. verði varið til að halda úti miðstöð sem aðstoðar foreldra ungbarna með geðræn vandamál. Aukið er við framlög til menningar og lista. Svo fátt eitt sé nefnt; listinn er langur. Það eru mörg mikilvæg mál í samfélaginu sem þurfa stuðning frá ríkinu og það eru ætíð skiptar skoðanir um hvert sameiginlegir fjármunir okkar allra eiga að fara.

Rétt er að minnast á eitt mikilvægt atriði í lokin. Lífeyrisskuldbindingar með bakábyrgð ríkissjóðs eru nettó tæpir 408 milljarðar kr. og að öllu óbreyttu verður B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga uppurinn árið 2027 sem kallar á 20 milljarða kr. árleg útgjöld í tíu ár þaðan í frá áður en þau fara aftur lækkandi — 20 milljarðar kr. árlega í tíu ár. Þetta eru engar smáupphæðir. Lífeyrissjóðsmálin eru dæmi um vandamál sem menn hafa ýtt á undan sér. Svo hefur verið í fjölmörg ár. Þetta er gífurlega stórt verkefni sem nauðsynlegt er að taka á sem fyrst.

Ég er sannfærður um að almennt hafi tekist vel til með fjárlagafrumvarpið að þessu sinni. Að því sögðu tel ég nauðsynlegt að endurskoða hlutverk fjárlaganefndar eftir að frumvarp ríkisstjórnar kemur fram. Ég hef haft vaxandi áhyggjur af því að verkaskipting löggjafarvalds og framkvæmdarvalds sé ekki virt, hún á að vera skýr og verður að vera skýr. Hlutverk fjárlaganefndar er mikilvægt. Nefndin fær til sín hundruð einstaklinga, fulltrúa sveitarfélaga og hinna ýmsu samtaka og félaga. Hlutverk fjárlaganefndar er að hlusta á þessa aðila og bregðast við óskum þeirra eins og hægt er. Mikilvægt er að standa vörð um þetta hlutverk og um það verða allir þingmenn að sameinast.