144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann hóf mál sitt á því að tala um mikilvægi þess að greiða niður ríkisskuldir og háan vaxtakostnað ríkissjóðs. Við skuldum um það bil 1.500 milljarða og við þyrftum að eiga 50 milljarða í afgang í 30 ár til að ná að greiða upp allar þær skuldir. Í fjögurra ára áætlun hæstv. ríkisstjórnar er ekki gert ráð fyrir miklum afkomubata og auk þess hefur ríkisstjórnin afsalað sér ýmsum tekjum, bæði veiðigjöldum, auðlegðarskatti, sykurskatti o.fl. sem er hátt í 50 milljarðar eða svo, náttúrlega fyrir utan stóru skuldaniðurfellinguna.

Ég spyr hv. þingmann: Hvenær sér hann fyrir sér að við getum farið að vinna á skuldastabbanum og hvenær við munum hafa nægilegan afgang af tekjum ríkissjóðs til að geta hafið niðurgreiðsluna?