144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Reykv. s. kærlega fyrir ræðuna. Ég vil byrja á því að segja að ég er hjartanlega sammála honum um skattrannsóknarstjóra og ég hjó eftir því þegar ég skoðaði breytingartillögu meiri hlutans hvers vegna framlagið væri ekki hækkað meira. Reyndar varð ég meira hissa á því að það skyldi vera lækkað í frumvarpinu til að byrja með. Mér sýnist upphæðin samt sem áður lækka frá fyrra ári, hún var rúmar 299 millj. kr. í fyrra en er 297,9 millj. kr. núna. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega að hann vildi hækka fjárhæðina enn meira til að taka á skattsvikum og undanbrögðum í skatti. Mundi hv. þingmaður styðja tillögu þess efnis að hækka þá tölu enn þá meira? Er þetta ekki sá liður sem skynsamlegast væri að eyða meiri peningum í? Sér hv. þingmaður fyrir sér að breytingartillaga meiri hlutans standi þar sem hún er?