144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil nota tækifærið og fagna þeim breytta tón sem ég hef fundið hjá hv. þingmanni hvað varðar málefni Ríkisútvarpsins. Ég hjó eftir því sem hann sagði áðan um framtíðarsýn og hlutverk og nú hefur verið gerð atlaga að því í lögum sem þingmenn Framsóknarflokksins samþykktu hér vorið 2013 til að skilgreina hlutverk almannaútvarps en vissulega er það víðfeðmt. Eins og hv. þingmaður þekkir þegar við lítum til almannaútvarpa um alla Evrópu er hlutverk þeirra mjög víðfeðmt.

Nú hefur útvarpsstjóri lagt fram ákveðna framtíðarsýn en stjórn Ríkisútvarpsins, sem hefur lýst yfir stuðningi við þá sýn, segir líka að það sé mjög mikilvægt að útvarpsgjaldið verði ekki lækkað. Þau styðja þá ákvörðun meiri hlutans að nú fari útvarpsgjaldið að renna óskert til RÚV, og ég styð það að sjálfsögðu líka, tel það mikið kappsmál, en telja hins vegar að gjaldið eins og það er lagt til núna sé of lágt, of lágt í alþjóðlegum samanburði, of lágt til að geta framfylgt þessu hlutverki. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telur einhverja forsendu til að endurskoða þessar fyrirætlanir?