144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að velta þeirri spurningu upp við hv. þingmann hvernig hann sér fyrir sér afkomu þess stóra hóps sem missir réttinn til atvinnuleysisbóta nú um áramótin. Talað er um að það geti verið 600–700 manns sem munu missa þann rétt með styttingu atvinnubótatímabilsins. Það kemur auðvitað sérstaklega illa við þennan hóp í þjóðfélaginu sem er illa staddur fyrir og fer þá væntanlega fram á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, sem er miklu lægri upphæð. Og með frumvarpinu er dregið úr möguleikum fólks á vinnumarkaði að sækja sér menntun með því að 25 ára og eldri hafa ekki aðgengi að framhaldsskólunum og framlög til fullorðinsfræðslu fyrir fólk með litla formlega menntun eru skert verulega. Hvað gengur ríkisstjórninni til með þessum vinnubrögðum og að hafa ekki neitt samráð við verkalýðshreyfinguna um þessi mál?