144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:31]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að gera þarf mun betur við öryrkja og aldraða líka. Þetta eru hópar sem enginn öfundar af því sem þeir hafa milli handanna í hverjum mánuði. Þessi tiltekna lækkun sem hv. þingmaður minnist á er til komin vegna verðlagsbreytinga eins og hún sagði réttilega.

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir ákveðinni verðbólgu og að framlög til öryrkja mundu hækka til samræmis við það. Áætlað var að það yrði 3,5%. Raunin varð sú að verðbólgan var lægri, þess vegna er þetta lækkað niður í 3% þannig að þetta er mjög eðlileg ráðstöfun að öllu leyti.