144. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[00:10]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir síðustu kosningar samþykkti velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins ályktun um velferðarmál sem mig langar að spyrja hvort þingmaðurinn sé ekki sammála. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þar skal haft að leiðarljósi að heilbrigðisstarfsfólk okkar eru hin raunverulegu verðmæti heilbrigðiskerfisins. Leggja verður ríka áherslu á breytta forgangsröðun varðandi fjárveitingar til endurskipulagningar og uppbyggingar á heilbrigðiskerfinu í þágu sjúklinga og með bættu starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstétta.“

Þessi ályktun ratar að hluta inn í stjórnmálaályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar og mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann sé ekki sammála henni líka. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í þágu heimilanna mun Sjálfstæðisflokkurinn standa vörð um velferðina. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að tryggja öryggi og velferð landsmanna með því að leggja skattfé fyrst í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi.“

Og þar er örugg heilbrigðisþjónusta nefnd í forgrunni. Þetta ratar inn í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar og kosningaloforð þar sem er sagt, með leyfi forseta, í kaflanum um heilbrigðismál:

„Þar skal haft að leiðarljósi að heilbrigðisstarfsfólk okkar eru hin raunverulegu verðmæti heilbrigðiskerfisins.“

Og að einhverju leyti ratar þetta inn í stjórnarsáttmála stjórnarflokkanna þar sem segir, með leyfi forseta, undir liðnum velferðarmál:

„Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd um tækjakost, aðbúnað sjúklinga og aðstæður starfsmanna.“

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann sé ekki sammála þessari ályktun velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar, ályktun landsfundarins, kosningaloforðum flokksins í kosningabaráttunni og stjórnarsáttmálanum sem ég las hér upp.