144. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[00:18]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil staðnæmast við það sem hv. þm. Oddný Harðardóttir rekur um Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði og segja: Það skiptir máli að við höfum framhaldsskóla í byggðunum. Framhaldsskólar og skólar í byggðum eru oft hryggjarstykki byggðanna. Af því að sá tiltekni skóli er nefndur sérstaklega vona ég að ég fari þokkalega rétt með tölur, þótt maður eigi aldrei að giska, en sá skóli breytti því fyrir það byggðarlag að nú fara í framhaldsnám 80–85% af krökkum í staðinn fyrir 40% áður. Þetta er gríðarlegur árangur.

Ég vil ekki dæma fyrir fram þessa stefnu stjórnvalda núna um skert aðgengi 25 ára og eldri að bóknámi fyrr en við erum búin að komast fram úr þessu ári. Ég held að ekki sé tímabært að segja að það sé stórkostleg ógn fyrir dyrum. Það hefur líka komið fram í umræðunni um þetta mál að það er ekki verið að ógna verknámi eða iðnnámi í þessu sambandi. Ég skal taka undir það með hv. fyrirspyrjanda Oddnýju Harðardóttur um til dæmis fjarnámsdeildina á Patreksfirði. Það sem við þurfum að vinna með og vorum aðeins að kalla eftir í fjárlaganefnd er að þar er dreifnámsdeild sem byrjaði í 18 nemendum og er núna komin í 38 sem segir okkur að það er búið að gjörbreyta aðstöðu fyrir unglinga í því byggðarlagi þar sem hún hefur tekið til starfa. Grunnframlagið til þeirrar deildar hefur ekki fylgt þessari stækkun. Það er það sem ég hef áhyggjur af og skal alveg taka undir að við þurfum einhvern veginn að finna leið til að bregðast við.

Hinn kosturinn er að stofna nýjan skóla á sunnanverðum Vestfjörðum í staðinn fyrir að nýta þessi samlegðaráhrif. Ég tel að við eigum ekki að gera það, enda hefur fjölbrautaskólinn í Grundarfirði einmitt verið rekinn á þeirri hugmyndafræði að vera fjarnámsskóli.