144. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[00:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fleiri þakka ég hv. þingmanni kærlega fyrir alveg prýðisgóða ræðu og málefnalega. Ég var ekki sammála öllu í henni, en það gladdi mig fyrir hönd landbúnaðarvængs Samfylkingarinnar að hann, einn fárra þingmanna, enda rennur honum blóðið til skyldunnar, gerir landbúnaðarmál að umræðuefni. Það er svo sjaldan sem menn komast í umræðu um landbúnaðarmál í þessum sölum og þess vegna ætla ég einungis að drepa á þau atriði.

Hv. þingmaður talaði um rannsóknir í landbúnaði og að þeirra væri þörf. Ég er sannarlega sammála því og hefði viljað að hann nýtti restina af sínum tíma áðan til þess að fara dýpra í það. Ég þekki selenskort í landbúnaði og minnist þess að undir forustu hv. þingmanns þegar hann fór fyrir íslenskum bændum fremstur í fylkingarbrjósti, var fenginn maður, Grétar Hrafn Harðarson minnir mig að hann heiti, sem gerði um það skýrslu og hann dró þar samasemmerki milli Íslands og Finnlands. Þar var líka sambærilegur skortur og hann ráðlagði mönnum að fara finnsku leiðina. Það geri ég líka. Þar var sex milligrömmum af seleni bætt í hvert kíló af tilbúnum áburði. Því nefni ég þetta af því að okkur er báðum hjartfólgið stóra kaupfélagið úti í Brussel, það var það sem borgaði þessa aðgerð. (Gripið fram í.) Kannski ættum við að fara finnsku leiðina og bjarga þessu máli.

Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni fyrir að ræða hér málefni Landbúnaðarháskólans. Mér er hann kær. Ég tel að rannsóknir sem verið er að gera þar séu stórmerkilegar, bæði á heimsvísu og sömuleiðis tel ég að loftslagstengdar rannsóknir sem þeir standa fyrir eigi eftir að skipta Íslendinga mjög miklu efnahagslegu máli þegar fram í sækir og menn fara hér að véla um kaup og sölu á kolefniskvótum. En nú er ekki tími til að fara djúpt ofan í það. Hv. þingmaður sagði að þar væri verið að selja eigur. Hluta ætti að verja til þess að ráða bót á fjárhagsvanda skólans. Mig langar til að spyrja hann af hverju öllu sé ekki varið til þess og hvort hann sé mér ekki sammála um að þrátt fyrir þetta sé kannski fullmikil bjartsýni hjá honum að tala eins og þar (Forseti hringir.) með sé búið að ráða bót á þessum vanda sem við vitum að er mjög mikill.