144. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[00:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að ræða breytingartillögu sem ég hef lagt fram og er um að auka framlag til Fangelsismálastofnunar ríkisins um 8 millj. kr. á ári til að fjármagna fulla stöðu námsráðgjafa sem þjóni fangelsum landsins.

Þann 28. nóvember sl. hélt ég hér ræðu undir liðnum um störf þingsins þar sem ég talaði um menntun fanga og þá sérstaklega þessa stöðu námsráðgjafa en árið 2011 fékk Fjölbrautaskóli Suðurlands aukið fjármagn til að unnt væri að hækka stöðugildi upp í 100% en það hafði verið 70% þar áður. Síðan gerðist það að staðan var skorin niður í 50% og gagnrýndi ég það í fyrrnefndri ræðu.

Skólastjóri Fjölbrautaskóla Suðurlands er ekki sáttur við orð mín þann dag. Það verður eiginlega bara að hafa það. Ég fékk þær staðreyndir sem ég bar á borð staðfestar enn og aftur. Nú hef ég heyrt þetta og fengið þetta staðfest úr mörgum áttum og hafa reyndar sumir hvatt mig til þess að hafa breytingartillöguna þannig að ég færi féð frá Fjölbrautaskóla Suðurlands til Fangelsismálastofnunar en mig langar til að vera í meira lagi sanngjarn að öllu leyti sem hægt er að vera og legg því til að hv. fjárlaganefnd fari yfir staðreyndir málsins þannig að þetta sé allt uppi á borðum og það sé algjörlega á hreinu hvað hafi gerst og hvernig eigi að hafa þetta. Þess vegna legg ég að svo stöddu eingöngu til að þetta fjárframlag fari til Fangelsismálastofnunar ríkisins þannig að það sé á hreinu að námsráðgjafi fanga skuli starfa undir þeirri regnhlíf og hafa til þess hið tilgreinda fjármagn.

Sömuleiðis átta ég mig á því að með því að taka burt fé af stofnun sem er fjársvelt eins og þær flestar, t.d. Fjölbrautaskóli Suðurlands, værum við alveg örugglega að riðla til náminu og það eru áhrif sem ég kæri mig ekki um að standa að, a.m.k. ekki á eigin spýtur, án þess að það fái þá alla þá umræðu sem slíkar aðgerðir verðskulda.

Það er eiginlega það eina sem ég hef að segja um þessa tilteknu breytingartillögu að svo stöddu en ég vænti fastlega að hv. fjárlaganefnd taki málið til umfjöllunar, komist að hinu rétta enn og aftur og bregðist við í samræmi við það.

Annað sem mig langar að nefna í sambandi við fjárlög er í samhengi við annað frumvarp sem er til umræðu á hinu háa Alþingi, frumvarp um rafræn námsgögn í framhaldsskóla og heimild til gjaldtöku. Í því frumvarpi er gjaldtökuheimild fyrir skóla, heimild til að rukka nemendur um gjald fyrir rafræn námsgögn. Þetta er eitt af þeim málum í hv. allsherjar- og menntamálanefnd þar sem minni hlutinn og meiri hlutinn eru ekki alveg sammála. Minni hlutinn leggur til að þessi námsgögn verði fjármögnuð af ríkissjóði frekar en nemendum sjálfum.

Mér finnst ástæða til að nefna þetta tilfelli vegna þess að kostnaðurinn er umtalsverður, ekki mjög hár að mínu mati í stóra samhenginu en þó umtalsverður. Hann er metinn á 1,6–1,9 milljarða kr. Um er að ræða tilraunaverkefni við notkun rafrænna námsgagna. Ég vil meina að ekki sé rökrétt að hafa tilraunaverkefnið þannig að nemendur greiði fyrir námsgögnin nema það sé ætlunin að nemendur borgi fyrir námsgögnin þaðan í frá og þar af leiðandi yrði þessi gjaldtökuheimild varanleg. Tilraunin hlýtur að ganga eftir þeim forsendum sem hún er gerð á og ef nemendur borga fyrir námsgögnin verða niðurstöður tilraunarinnar í samræmi við það að nemendur borgi. Ef við ætlum að hafa þetta þannig að ríkið borgi þetta til lengri tíma þykir mér tilraunaverkefnið þurfa að taka mið af því. Þessi kostnaður fellur auðvitað á einhvern og mér finnst rétt að nefna hér að við eigum annaðhvort að ræða þá varanlegu stefnubreytingu að nemendur borgi fyrir rafræn námsgögn og þessi gjaldtökuheimild verði þá varanleg eða að ríkið borgi þetta frá upphafi. Fleira ætla ég ekki að segja um það í bili.

Ég þarf einnig að fagna nokkrum hlutum í breytingartillögu minni hlutans við fjárlög, þá sérstaklega 50 millj. kr. aukafjárframlagi til BUGL, barna- og unglingageðdeildar Landspítalans. Það er mikill ólestur í gangi á Íslandi gagnvart unglingum með geðsjúkdóma og mig langar að segja örstutta sorgarsögu, erfiða sögu af hjónum sem eru flóttafólk hér á landi, koma frá mjög stríðshrjáðu landi og eiga þrjú börn á þeim aldri að þau hafa upplifað hrylling í heimalandi sínu sem ég ætla ekki að koma öllum í vont skap með því að ræða. Það er að minnsta kosti mikill hryllingur. Þessi börn eru á aldrinum 7–12 ára og eiga að etja við geðræn vandamál sem íslensk börn þurfa blessunarlega sjaldan sem aldrei að kynnast. Þetta flóttafólk, þetta ágæta fólk, kemur að lokuðum dyrum og á í samskiptaerfiðleikum við yfirvöld, þekkir ekki rétt sinn, skilur ekki kerfið og kerfið skilur það ekki. Þetta er mjög erfitt og væri jafnvel mjög erfitt þótt um væri að ræða íslenskumælandi ríkisborgara þannig að þetta eru þess lags vandamál sem koma upp hér á landi vegna þess að blessunarlega tökum við við flóttafólki af og til, ekki næstum því nógu oft að mínu mati en þó af og til, og við þurfum að hafa burði til þess að geta tekist á við svona vandamál. Þetta eru börn á viðkvæmum aldri, þau eru félagslega einangruð að miklu leyti, þau eru í verulegum áhættuhópi upp á meira eða minna öll vandamál sem lífið getur haft í för með sér og því er mjög mikilvægt að við getum tekist á við þetta. Ég fagna því að minni hlutinn stingi upp á þessu aukna fjárframlagi til BUGL en minni þó á að það er ekki nóg. Það þyrfti að gera meira.

Einnig fagna ég í tillögu minni hlutans 50 millj. kr. aukafjárframlagi til Útlendingastofnunar og vil þar nefna að gríðarlegt fjármagn vantar í málaflokkinn. Ég vil meina að ein vannýttasta auðlindin á Íslandi sé fólk. Það er oft litið þannig á að innflytjendur séu einhvers konar byrði á samfélaginu en að mínu mati er það byggt á þeim misskilningi að ýmist taki þeir öll störfin eða lifi bara á kerfinu. Það er einhvern veginn þannig með útlendinga að fólk hefur alltaf eitthvað út á þá að setja. Ef þeir vinna taka þeir vinnuna, ef þeir vinna ekki lifa þeir bara á kerfinu. Ekki nóg með það, heldur vil ég meina að velgengni stórþjóða á borð við Bandaríkin liggi í því að þar hafi sögulega verið ofboðslega mikið um innflutning á fólki, ofboðslega margt fólk hefur komið þangað til að setjast að og eflt efnahaginn. Efnahagur er nefnilega samansafn af fólki í samskiptum með verslun á vöru og þjónustu. Þetta er hugarfar sem mér finnst skorta á Íslandi. Mér sýnist reyndar útlendingalöggjöfin vera hönnuð fyrst og fremst til þess að halda fólki úr landinu með einstaka undantekningum og þá eru settar frekar þröngar skorður.

Ég átta mig að sjálfsögðu á því að þetta er ekki stórt land og við getum ekki tekið við milljón manns á einum degi en við getum tekið við fleirum en við gerum núna og við getum vissulega afgreitt fleiri mál hvort sem um er að ræða innflytjendur sem koma til að vinna eða einfaldlega heimsækja og búa nálægt fjölskylduvinum eða bara vinum eða flóttafólki eða hvað svo sem um ræðir. Því fagna ég mjög þeirri tillögu að auka fjárframlag til Útlendingastofnunar og styð hana.

Síðast en ekki síst tek ég undir orð hv. 8. þm. Reykv. s., Karls Garðarssonar, þegar hann tala um skattrannsóknarstjóra og fagna því tillögu meiri hlutans um að skera ekki niður í fjármögnun skattrannsóknarstjóra, a.m.k. ekki umtalsvert. Ég tel að það sé sú fjármögnun sem er hvað skynsamlegust. Fleira held ég að sé ekki ástæða til að ræða að svo stöddu.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.