144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

störf þingsins.

[11:06]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er komið að ögurstundu í málefnum Ríkisútvarpsins. Á fundi allsherjar- og menntamálanefndar í morgun var öll framkvæmdastjórn og stjórn RÚV ásamt útvarpsstjóra að fara yfir stöðuna. Það er ljóst að ef fjárlögin fara í gegn eins og ríkisstjórnin leggur upp með stöndum við þingmenn frammi fyrir þeirri ábyrgð að endurskoða lögin um RÚV. Það liggur fyrir að þetta þýðir á bilinu 600–900 millj. kr. niðurskurð. Það er ágætt að þjóðin átti sig á því að þá verðum við með allt annars konar útvarp en við þekkjum. Það er alveg augljóst því að svo mikið hefur verið skorið niður fram til þessa eftir hrun.

Því biðla ég nú til framsóknarmanna að sjá til þess að tillaga stjórnarandstöðunnar þess efnis að Ríkisútvarpið fái óskert gjald til ráðstöfunar gangi í gegn. Stjórnin telur það duga. Ég skal ekki efast um að svo sé. Það eru lagðar fram rekstraráætlanir þess efnis að það gangi upp og ég tel ekki að ráðherranefnd um ríkisfjármál sé til þess bærari að ætla að áætlanir Ríkisútvarpsins séu ekki í lagi.

Við þurfum að standa vörð um Ríkisútvarpið. Það eiga allir rétt á þjónustu Ríkisútvarpsins. Könnun sýnir að 85% þjóðarinnar vilja að útvarpsgjaldið renni óskert til RÚV. Ég held að við þurfum að stilla því líka þannig upp að efla frekar þjónustuna, m.a. á landsbyggðinni og efla innlenda dagskrárgerð, í stað þess að skera niður.

Mig langar að lokum, virðulegi forseti, að vitna í Vilhjálm Þ. Gíslason sem sagði fyrir 48 árum:

„Það á að tengja þjóðir og einstaklinga í skilningi og friði, vera vettvangur heilbrigðra skoðanaskipta, (Forseti hringir.) leiksvið margra lista, verkstæði fjölbreyttra framkvæmda, (Forseti hringir.) staður stórra drauma.“

Þessi orð eiga við enn þann dag í dag, virðulegi forseti. Ég (Forseti hringir.) biðla aftur til framsóknarmanna að (Forseti hringir.) standa vörð um RÚV og sjá til þess að tillagan (Forseti hringir.) gangi í gegn.