144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

störf þingsins.

[11:18]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að gera að umtalsefni friðun Nasa. Af hverju? Vegna þess að ég held að það sé skref í rétta átt til þess að horfa á nýjan leik á það deiliskipulag sem ríkir nálægt Alþingishúsinu. Ég kalla eftir viðbrögðum skipulagsyfirvalda í Reykjavík og að þau íhugi nú endurskoðun á því deiliskipulagi sem í gildi er kringum Alþingishúsið og sýni, í ljósi þess að Nasa hefur verið friðað, vilja sinn til að Alþingishúsið og þau hús sem Alþingi hefur yfir að ráða við Kirkjustræti fái í náinni framtíð þann sess sem þeim ber. Skipulagsyfirvöld í Reykjavík horfi til þess að hverfa frá því deiliskipulagi sem hér er og sýni Alþingishúsinu, stofnuninni sem slíkri, óháð því hverjir hér sitja, þá virðingu og þann sess sem því ber í skipulagi Reykjavíkurborgar.

Virðulegur forseti. Sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður er ég ekki með þessum orðum mínum að kalla eftir því að skipulagsvaldið verði tekið af sveitarfélögum, það er mér víðs fjarri. Ég skora hins vegar á skipulagsyfirvöld í Reykjavík, í ljósi þess að Nasa hefur verið friðað og salurinn hefur verið friðaður, að þau endurskoði það deiliskipulag sem ríkir í kringum Alþingishúsið. Mér finnst að Alþingishúsið sem slíkt, Alþingi sem stofnun, eigi (Forseti hringir.) að njóta þess.