144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

störf þingsins.

[11:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þarf að kvarta undan skipulaginu eða öllu heldur skorti á því hér í musteri glundroðans. Þingmenn Pírata eru þrír talsins en sitja í átta fastanefndum og einni alþjóðanefnd að staðaldri. Þetta þýðir að við þurfum iðulega að velja milli tveggja eða fleiri mikilvægra funda þar sem við erum jú háð sömu eðlisfræðilegu takmörkunum og annað fólk, að geta ekki verið á tveimur stöðum á sama tíma. Þetta getur valdið okkur allnokkrum vandræðum þótt ekki sé endilega mikið við þessu að gera, enda er tími allra sem hér vinna mjög takmarkaður og augljóslega ekki hægt að hafa alltaf einungis einn nefndarfund í einu. Gott og vel.

Það sem mundi hins vegar hjálpa gríðarlega væri ef það væri nokkur lifandi möguleiki á því að skipuleggja þingstörfin til lengri tíma en eins dags í einu eða í mesta lagi tveggja og forgangsraða vinnu sinni við að kynna sér mörg þau stóru mál sem hér eru til umfjöllunar með viðunandi hætti. Það heyrir nefnilega til undantekninga að maður hafi hugmynd um það hvenær verði fjallað um hvað hér á bæ. Þetta þýðir að þegar kemur að málum sem krefjast þess að maður kynni sér þau betur en einfaldlega lesa þau yfir þarf maður annaðhvort að gera það í miklum flýti og án nokkurs teljandi fyrirvara eða að hætta á það að eyða verðmætum tíma sínum í að kynna sér mál sem hugsanlega verða ekki rædd fyrr en mánuðum seinna, kannski ekki fyrr en á næsta þingi og jafnvel ekki þá. Þannig stendur maður sífellt í því að veðja út frá óljósum hugboðum á það hvernig maður eigi að forgangsraða vinnu sinni við að skoða þingmál með viðunandi hætti.

Ég lít svo á að í þessu felist gríðarleg sóun sem kemur niður á öllu starfi Alþingis og hefur mjög rík áhrif á þá vinnu sem hér er unnin, ekki aðeins af Pírötum heldur þingmönnum öllum.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.