144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

störf þingsins.

[11:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis tjá hæstv. forseta, Einari K. Guðfinnssyni, ást mína og alúð alla og er honum hjartanlega þakklátur fyrir að hafa fundist hlíðin sín fögur og farið hvergi.

Herra forseti. Öllum ríkisstjórnum síðustu tíu ára hafa verið mislagðar hendur varðandi hælisleitendur. Heimurinn hefur því miður þróast þannig að þeim fjölgar sífellt hér á Íslandi sem og annars staðar. Hér á landi hafa því miður ekki fylgt því nægileg fjárframlög inn í málaflokkinn. Það hefur valdið því að tíminn sem tekur að fara yfir mál og úrskurða hefur lengst úr hófi og í sumum tilvikum hefur hann orðið tvö ár, jafnvel þrjú og dæmi eru um enn lengri tíma til þess að kveða upp úrskurð. Á meðan eykur þetta angist, kvíða, jafnvel heilsuleysi hjá þeim sem sæta. En annað gerist líka. Þetta stóreykur kostnað ríkissjóðs vegna dvalar og umönnunar.

Mér fannst rofa til á síðasta ári þegar myndaðist þverpólitísk samstaða á hinu háa Alþingi um að reyna að kippa þessum málum í betra lag. Sett var á laggir nefnd þingmanna úr öllum flokkum og starfi þeirrar nefndar sem á að búa til frumvarp að nýjum útlendingalögum miðar ákaflega vel. Á sama tíma var líka sett aukið fjármagn til þess að vinna fyrir málaflokkinn, m.a. til að reyna að sjá til þess að með því að vinna kúfinn niður verði búið að koma málum í skaplegt horf þegar svokölluð 90 daga málsmeðferðarregla tekur gildi. Hið sama var gert hjá Útlendingastofnun, þar var verið að vinna kúfinn niður þeim megin. Þetta tókst mætavel. Þetta kostaði nokkra starfsmenn sem voru ráðnir tímabundið. Þetta hefur sparað peninga.

Nú er samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verið að taka þessa peninga til baka, fækka starfsmönnum. Ég fullyrði að það hljóta að vera mistök hjá hv. fjárlaganefnd. Af hverju? Vegna þess að þær 50 milljónir sem ættu að fara í þetta munu spara tvöfalt til sexfalt meira. (Forseti hringir.) Með öðrum orðum, með því að setja 50 milljónir í þetta, herra forseti, mundi ríkið spara sér 100–300 milljónir. Ég tel að þetta séu mistök hjá nefndinni og bið hv. fjárlaganefnd (Forseti hringir.) að skoða þetta betur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)