144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

störf þingsins.

[11:33]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú hafa litið dagsins ljós fyrstu drög að frumvarpi um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Vinnan hefur greinilega verið ítarleg enda allt gert til þess að framkvæmd staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni verði fagleg. Þá er það skilyrði einnig sett að hinir væntanlegu foreldrar geti ekki af læknisfræðilegum ástæðum eignast barn eða að líffræðilegar ástæður útiloki meðgöngu. Því er þarna komið inn í frumvarpið að samkynhneigðir megi notast við þessa leið.

Því er ekki haldið fram að það séu sjálfsögð mannréttindi að fá að eignast barn. Það eru forréttindi. Í dag hafa ekki allir jafnan rétt til mögulegra úrræða. Til að mynda getur kona sem vantar eggjastokka fengið alla þá læknisfræðilegu hjálp sem möguleg er í dag til að verða ólétt á meðan kona sem ekki er með leg eða getur af öðrum ástæðum ekki gengið með barn fær enga hjálp. Kona sem er án legs en með eggjastokka sem framleiða heilbrigð egg má ekki láta búa til fósturvísa og geyma en má hins vegar gefa egg sín annarri konu í velgjörðarskyni, sem leiðir af því að eggþeginn má fæða og eiga líffræðilega barn þeirrar konu sem ekki er með leg en hefur heilbrigðar eggfrumur.

Með því að koma á staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sem hefur strangan lagaramma, gott aðhald lækna og sérfræðinga auk samþykkis einstaklings sem uppfyllir þær kröfur sem settar eru fram í frumvarpinu ætti staðgöngumæðrun því alls ekki að vera verri leið. Þeir sem eru á móti því að leyfa staðgöngumæðrun tala um að litið sé á barneignir sem mannréttindi og ekki sé hugsað um velferð mögulegra staðgöngumæðra, en svo er ekki. Stuðningsmenn hafa talað um að fjölga mögulegum úrræðum en að sjálfsögðu með hag og réttindi barnsins fyrir brjósti sem og rétt, sjálfræði og velferð þeirra kvenna sem mögulega tækju að sér staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Ég fagna því að drögin eru komin fram og hlakka til umræðunnar. Þrátt fyrir að einstaklingur geti nýtt sér ættleiðingu hugnast sú leið ekki öllum og með frumvarpinu værum við að stíga skref í átt að jafnari rétti til mögulegra úrræða en að sjálfsögðu ætíð með réttindi barnsins að leiðarljósi.