144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:51]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur vel á vondan þarna. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir þessa spurningu. Það er svo sannarlega rétt að heilbrigðisstarfsfólkið okkar er mjög mikilvægt. Ég vil hins vegar taka fram að ég ber virðingu fyrir öllum störfum og það eru öll störf mikilvægur hlekkur í starfakeðju og lífi okkar allra.

Það má alveg velta því fyrir sér hvort það sé eðlilegt að ein stétt geti farið fram á 30% launahækkun meðan aðrar stéttir verða að sætta sig við 3%. Það er alveg rétt að læknar og heilbrigðisstarfsfólk er mjög mikilvægt fyrir okkur og þjóðina. Við vitum að erlendis er ungt fólk að sérmennta sig og leggur í mikinn kostnað við það, en það er líka fólk sem er að koma inn í landið utan frá með læknismenntun, sem er jafnvel tilbúið til þess að vinna hér launalaust í heilt ár til að fá réttindi sín metin.

Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á mikilvægi heilbrigðisstarfsmanna en hins vegar velti ég því fyrir mér hvort það sé sanngjarnt gagnvart öllum öðrum launakröfum að ein stétt fái tífalda hækkun á við aðra.