144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:58]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Reykv. n. fyrir andsvar. Ég vil fyrst víkja að skuldaleiðréttingunni. Ég biðst afsökunar ef ég hef alhæft. Það er alveg rétt að ungt fólk fékk skuldaleiðréttingu hjá síðustu ríkisstjórn en það var líka stór hópur eftir, og leiðréttingin kemur sér vel fyrir þann hóp.

Hv. þingmaður veit vel að það er fjöldi manns, ungt fólk og fólk á miðjum aldri, sem hefur verið að berjast við erfiðleika, út af þessu svokallaða hruni og hækkun á öllum lánum, sem sér loksins ljós í myrkrinu og ég hef heyrt í því persónulega.

Varðandi Háskólann á Akureyri ætla ég að segja að ég er alls ekki sátt við þessa skiptingu. Ég hef spurt í ráðuneytinu hverju sæti að það sé svona gríðarlega ójafnt skipt. Við erum með þessa mjög mikilvægu stofnun, sem er Háskólinn á Akureyri, og sem þingmaður Norðausturkjördæmis er ég mjög ósátt við þetta. Hins vegar, eins og hv. þingmaður veit, þá er kvóti á öllu mögulegu og ómögulegu í samfélagi okkar og það er verið að reikna framlög til ýmissa hluta eða deila út í samræmi við tiltekna reglu og sú regla sem þarna er notuð skiptir þessu fjármagni á þann hátt.

Það hefði hins vegar mátt skipta þessu á annan hátt. En sem betur fer hefur fjárlaganefnd hug á að bæta eitthvað í þarna fyrir Háskólann á Akureyri.