144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:05]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 9. þm. Norðaust. fyrir spurninguna. Ríkisútvarpið, eins og staða þess er, er sannarlega áhyggjuefni. En Ríkisútvarpið hefur ekki sömu stöðu og það hafði meðan það var eini miðillinn sem var hér á landi með eina rás og öllum þótti það sjálfsagður hlutur að Ríkisútvarpið gegndi því öryggishlutverki, sem er mjög mikilvægt, sem það gerir auðvitað á sinn hátt enn þann dag í dag.

Ég hins vegar vil segja það sem fyrrverandi forstöðumaður að ég hef staðið frammi fyrir því að þurfa að forgangsraða og það hafa fleiri forstöðumenn þurft að gera. Menn hafa beint spurningum til ráðuneyta, ekki til hins háa Alþingis: Hvað á að gera? Og svörin hafa verið: Það er ykkar val. Það eruð þið sem þekkið best stofnunina, það eruð þið sem verðið að forgangsraða. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Hins vegar er það auðvitað pólitísk ákvörðun hver framtíð Ríkisútvarpsins á að verða.

Ég vil jafnframt benda á að það eru margir ósáttir við þann skatt, við getum nefnt það því nafni, sem afnotagjöldin eru, og sérstaklega hafa menn bent á það ítrekað að verið er að innheimta af einstaklingum sem ekki eiga útvarp eða sjónvarp. Það er verið að innheimta af félögum sem aldrei hafa notað Ríkisútvarpið okkar og menn eru ekki sáttir við það. Og það er náttúrlega líka samkeppnisstaða Ríkisútvarpsins gagnvart öðrum fjölmiðlum sem við þurfum aðeins að velta fyrir okkur með þetta.