144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Það hefur sennilega verið vegna þess að það var svo almenn ánægja og gleði í þjóðfélaginu að það dóu miklu færri eftir að sú ríkisstjórn tók við. Kannski hafa menn dregið og fært eitthvað til uppgjör dánarbúa til að fresta greiðslu á skattinum eftir að hann hækkaði eða eitthvað slíkt, en til lengri tíma litið held ég að þetta skili ósköp einfaldlega þeim tekjum sem til er ætlast til ríkisins.

Það kann vel að vera að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hafi einhvern tímann áður heyrt sumt af því sem ég var að segja. Það dregur ekki úr gildi þess að segja það aftur, því sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Ég held, herra forseti, að ekki veiti af að halda þessum stjórnarmeirihluta aðeins við efnið í sambandi við ábyrgð þegar kemur að ríkisfjármálum, því það á að vera lykilorð allra okkar umræðna um stöðu mála á Íslandi í þessu samhengi. Þegar kemur að fjárhagsstöðu ríkisins og þess mikilvæga hlutverks sem það hefur í okkar velferðarsamfélagi er það ábyrgð sem menn eiga að sýna.

Að sjálfsögðu er ýmiss kostnaður vantalinn í þessu svari, enda var bara spurt um kostnaðinn við endurreisn fjármálakerfisins. Það má vissulega nefna Íbúðalánasjóð sem fékk sinn hluta af högginu og er þegar búið að þurfa að aðstoða með um 50 milljörðum, en það er fjölmargt þar fyrir utan eins og svo sem uppsafnaður eiginlegur rekstrarhalli ríkisins á þessum árum. Það eru háar tölur enda er niðurstaðan sú að bankahrunið hafi kostað Ísland langleiðina í 50% af vergri landsframleiðslu. Þar með erum við í efstu sætum listans við hliðina á Írlandi hvað varðar beinan kostnað þjóðarbús af hruni af þessu tagi. Örfáar hliðstæður eru þekktar í heimssögunni.

Við getum rætt samninginn milli gamla og nýja Landsbankans hvenær sem er. Það sem ég var eingöngu að vísa til í þessu tilviki er sá hluti hans að til ríkisins færðist endurgjaldslaust 18% eignarhlutur í nýja (Forseti hringir.) Landsbankanum. Það er býsna gott miðað við það hversu vel honum hefur gengið og hversu mikið eigið fé hann á og hversu verðmætur hann er orðinn. Menn glöddust yfir því að færa það inn í bókhaldið hjá sér í fyrra, eina 20 (Forseti hringir.) milljarða í plús.