144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Einmitt, í þessari umræðu benti ég þingmönnum stjórnarflokkanna á loforð fyrir kosningar, að þeirra eigin kosningaloforð og ályktanir þeirra eigin landsfunda snerust um að heilbrigðisstarfsmenn væru lykilatriði, þeir væru það mikilvægasta og að í stjórnarsáttmálanum stæði að það þyrfti að forgangsraða fyrst skattfé í brýn og áríðandi verkefni.

Nú stöndum við frammi fyrir því að við gætum lent í þeirri alvarlegu stöðu að missa lækna með áframhaldandi missi í kjölfarið. Þá koma svör frá hv. þingmönnum stjórnarflokkanna: Já, en ef við hækkun laun heilbrigðisstarfsmanna og lækna, eins og þeir eru að biðja um, þ.e. um 30%, þá vilja allir aðrir hækka líka. Við höfum nefnt: Ókei, en það þarf kannski ekki að hækka þau svo mikið vegna þess að læknar eru tilbúnir til að sætta sig við aðeins lægri laun á Íslandi og jafnvel töluvert lægri laun en þeir eru ekki tilbúnir að sætta sig við 3% launahækkun. Það er hægt að fara töluvert hærra. Þá segja menn: Já, (Forseti hringir.) ókei, við erum tilbúnir að fara eitthvað hærra — það hafa verið svörin — (Forseti hringir.) en það verður þá að vera víst að aðrar stéttir komi ekki á eftir þeim. (Forseti hringir.)

Ég vildi spyrja þingmanninn: Er hann tilbúinn að samþykkja að læknar fái ákveðin (Forseti hringir.) sérlaun í þessu árferði því að þetta er brýnt?