144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:50]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svar mitt er afdráttarlaust: Já. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að þetta mál verði leyst sem sjálfstætt verkefni. Ég hef að vísu haldið því fram lengi og það var ástæðan fyrir jafnlaunaátakinu á sínum tíma að samfélag okkar hafi flokkað störf fólks þannig að umönnunar- og þjónustustörf hjá hinu opinbera séu lægra metin launalega en störf þeirra sem vinna í viðskiptalífinu. Þessu hugarfari þarf að breyta. Það er eins og það sé alltaf tapaður sá peningur sem rennur til heilbrigðiskerfisins til dæmis. Það er talað um kostnað í staðinn fyrir að hugsa það sem fjárfestingu fyrir samfélagið að tryggja að fólk hafi góða heilsu og geti sem fyrst tekið þátt í lífinu að nýju.

Það sem skiptir máli fyrir fólk sem vinnur á svona stofnunum er viðmótið frá stjórnvöldum og umhverfinu, það er aðstaðan, það er álagið, það eru rannsóknir, tækifæri til að þróa (Forseti hringir.) sig í starfi og taka þátt í einhverjum nýjungum, nokkuð sem hefur verið býsna frjósamt (Forseti hringir.) hér á landi, og svo launin. Launin eru ekki endilega fyrst (Forseti hringir.) en það þýðir ekki að (Forseti hringir.) þau þurfi ekki að vera miklu betri.