144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ótrúlegt að hlusta á þessar samræður. Hér tala menn miskunnarlaust um niðurskurð í fjárlagafrumvarpinu gagnvart Ríkisútvarpinu. Það er verið að auka framlögin. Af hverju talar hv. þingmaður með þeim hætti? Og af hverju talar hv. þingmaður með þeim hætti að þegar menn setja skilyrði varðandi fjárveitingu — og þetta er fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra sem átti samskipti við Landspítalann — að það sé einsdæmi og valdboð og menn tali eins og þeir eigi þetta þegar komið er hingað með skilyrði varðandi fjárveitingar? Af hverju gerir hv. þingmaður það? Ég veit að hv. þingmaður veit miklu betur og ræddi hér meðal annars um halaklippingar og annað slíkt og getur kannski farið yfir þá samninga sem voru gerðir í tengslum við það við Landspítalann.

Ég ætlaði að fara í andsvar út af umræðum hans um heilbrigðismálin af því að hann gerir afskaplega lítið úr því, sem mér finnst ekki góður bragur á, og reynir að gera lítið úr því að verið er að auka framlög bæði hlutfallslega og í krónutölum til heilbrigðismála í tíð núverandi ríkisstjórnar. Hv. þingmaður fer yfir það og segir að í sinni tíð hafi verið gengið of nálægt heilbrigðiskerfinu, ef ég skil hv. þingmann rétt.

Ég ætla þingmanninum engar annarlegar hvatir og er ekki með slík stóryrði eins og hér voru uppi, en mér finnst að hv. þingmaður mætti sýna sanngirni þegar verið er að forgangsraða í þágu heilbrigðismála. En alvarlegast finnst mér að svo virðist vera að hjarta hans slái fyrst og fremst þegar kemur að ríkisfjölmiðlinum sem hefur fengið hærri framlög, í það minnsta svipað framlag, en hefur verið tekið af útvarpsgjaldinu þegar tekin eru nokkur ár aftur í tímann, sérstaklega í tíð Sjálfstæðisflokksins. Rekstrarvandinn er mikill og hv. þingmaður talar um að það sé óeðlilegt (Forseti hringir.) þegar verið er að reyna að koma böndum á reksturinn og (Forseti hringir.) á sama tíma og tillaga ríkisstjórnarinnar er að stórauka framlög til Ríkisútvarpsins.