144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að sitja undir því að ég hafi fyrst og fremst verið að ræða um Ríkisútvarpið. Það er þá vegna þess að hv. þingmaður hefur ekki hlustað á það sem hér fór fram.

Það eru engar athugasemdir við að setja fram ramma í fjárlögum. Það er engin athugasemd við það að menn setji sér markmið í sambandi við hagræðingu eða annað slíkt. Vandamálið er að verið er að setja skilyrði og hótanir, og það gerist í nokkur skipti. Ég man aldrei eftir því að það hafi verið gert með þessum hætti. Ef hv. þingmaður man einhver einstök dæmi um að þetta hafi verið sagt og gert væri gott að heyra það: Við látum þig fá 180 milljónir, en ef þú stendur ekki við skilyrði okkar þá tökum við það af þér og meira. Þetta er verið að gera í Landbúnaðarháskólanum en örlítið er bætt í af hv. fjárlaganefnd. En ég tók fram að það sem var vandamálið í fjárlagagerðinni var niðurskurðurinn um 1 milljarð í fjárlögunum fyrir ári. Síðan var bætt vel við í Landspítalanum, 1,7 milljörðum, og ef menn fara þá í að gefa yfirlýsingu að það eigi ekki að borga hallann upp á 1,5 milljarða sem var á árinu 2013 þá er um að ræða verulega viðbót.

Ég spurði líka, hv. þingmaður getur kannski hjálpað mér að skýra það út: Er verið að tala um að hallinn verði frystur eða klipptur af, gerður samningur um að hann verði ekki borgaður? Þá vegur milljarður töluvert. En ef liggja 2,5 milljarðar á Landspítalanum sem nýr halli en búið er að færa niður 3 milljarða eldri hallann áður, ef það á að greiða þennan halla núna þá er fjárveitingin ekki mjög góð. Ég bara spyr. Hv. þingmaður veit þetta betur en ég. En um þetta gildir líka reglan um halaklippingar eins og við köllum það, að skera niður halla og hvaða afleiðingar það hefur.

Ég ætla ekki að gera, langt í frá, lítið úr fjárlögum og var að hæla því að nú væri lagt af stað með nýjan spítala en bað um: Setjið áætlunina alla fram. Hún er væntanleg, því fyrr því betra. Þá vitum við að hverju fólkið sem er að vinna í þessu umhverfi gengur. Það er það sem kallað hefur verið mikið eftir. Hver er stefnan og hver er framtíðarsýnin? Og núna þegar við erum farin að gefa til baka eigum við að geta gert það myndarlega. Það gildir líka um Ríkisútvarpið.