144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við höfum báðir komið að því, ég og hv. þingmaður, þegar við vorum heilbrigðisráðherrar að semja við Landspítalann um að ef hann héldi ekki sína ramma yrði gripið til þess ráðs að klippa af halanum. Ég held að við höfum báðir beitt okkur fyrir því. Það eru kannski hótanir. Kannski vorum við hv. þm. Guðbjartur Hannesson í hótanapólitík, það má vera, en það var ekki þannig í mínum huga og er ekki þannig í mínum huga.

En bara svo að hlutirnir séu á hreinu; verið er að auka framlögin til Ríkisútvarpsins, aftur, gert var ráð fyrir því í fjárlögunum og ríkisstjórnin kom síðan með tillögu um enn meiri peninga í Ríkisútvarpið. Ekki er verið að skera niður, það er verið að auka. Og ef menn taka saman tekjur ríkisins af útvarpsgjaldinu og afnotagjaldinu nokkur ár aftur í tímann og síðan framlögin og afskriftirnar til Ríkisútvarpsins þá er ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að menn hafi tekið meira af útvarpsgjaldinu en sem nemur framlögunum og fullkomin ósannindi að halda því fram (Forseti hringir.) eins og hefur komið fram í fréttum Ríkisútvarpsins að það hafi aldrei verið sama framlag til Ríkisútvarpsins eins og tekjurnar af útvarpsgjaldinu.