144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það stendur í frumvarpinu hvernig á að skerða útvarpsgjaldið. Tekið er fram hvernig það á að vera árið 2015, hvernig það á að vera 2016 og 2017. Það kemur skýrt fram. Útvarpsgjaldið er 19.400 ef ég man rétt eða eitthvað slíkt, af því eiga 17.800 að renna í Ríkisútvarpið og mismunurinn á að fara í ríkissjóð. Svo geta menn sagt: Það er einhvers staðar önnur fjárveiting til að vega á móti. Það er þá undarlega sett fram. Þessar tölur eru í frumvarpinu. (Gripið fram í.) Þetta er sett svona fram.

Við erum sammála um að hafa gert samning um að klippa af halla. En vandinn er að það hefur aldrei verið sett þannig upp að ef þú nærð ekki hallanum niður þá þarftu að taka tvöfalt meira niður. Þetta er það sem verið er að stilla mönnum upp með og menn verða að fara að vinna út frá plús. Það er líka þannig að það er viðvarandi viðfangsefni fjárlaganefnda, og okkar beggja sem erum að takast hér á, að ekki er samræmi á milli stofnana hvernig farið er með halla. Það er auðvitað gríðarlega mikið vandamál. Þess vegna segi ég í hreinskilni og spyr um: Hvað er Landspítalinn að fá? 1 milljarð? Hvað með hallann? Svarið því skilmerkilega, kannski er þetta í lagi.