144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, auðvitað eigum við að forgangsraða með öðrum hætti og ekki bara það, við þekkjum öll hve miklum tekjum ríkið hefur afsalað sér frá því sem áætlað var þegar þessi ríkisstjórn tók við. (Gripið fram í: … sérmeðferð lækna við þessar kringumstæður.) Sérmeðferð lækna við þessar kringumstæður? Ég er ekki í samninganefnd við lækna, en ábyrgðin liggur vissulega hjá samninganefnd og ríkisstjórninni því að samninganefnd framkvæmir auðvitað stefnu núverandi ríkisstjórnar. Samninganefndin er ekki neitt eyland.

Menn verða að glíma við þetta. Ég vorkenni mönnum ekki neitt að glíma við þetta verkefni. Auðvitað helst í hendur líka aðbúnaður heilbrigðisstétta og lækna. Það eru ekki bara kjörin heldur aðbúnaðurinn, vinnuaðstaðan. Þetta spilar allt saman. Ef við hefðum þá fjármuni sem ríkisstjórnin er búin að afsala sér, 10 milljarða í auðlegðarskatt, veiðigjald sem er núna um það bil 7,5 milljarðar en hefði verið helmingi hærri upphæð hefðum við fylgt stefnu fyrri ríkisstjórnar, horfði öðruvísi við. Útgerðin er í bullandi gróða og greiðir sér arð sem er margföld þau veiðigjöld sem verið er að taka af henni. Með aðgerðum varðandi virðisaukaskatt á vörugjöld eru menn að afsala sér tekjum upp á 6–7 milljarða. Þannig mætti áfram telja, m.a. skuldaleiðréttingar sem nýtast ekki bara þeim sem virkilega hafa þörf fyrir það heldur líka hátekjufólki sem hefur ekkert með þær að gera.

Svona er forgangsraðað vitlaust. Þetta helst allt í hendur, spilar saman og veldur því að menn ganga ekki til verks og semja við lækna. Ég ætla ekki að nefna neina prósentutölu í því samhengi. Almennir kjarasamningar eru líka opnir. (Forseti hringir.) En þetta er bara verkefni sem menn eiga að leysa.