144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Fyrst að Árneshreppi, það var lögð fram þingsályktunartillaga á sínum tíma um að standa vörð um það byggðarlag sem er auðvitað með mikla sérstöðu og að við sem þjóð ættum að fóstra það líka í hjarta okkar. Ég veit að hv. þingmaður hefur gert það með Árneshrepp og ég er honum hjartanlega sammála vegna þess að þetta svæði er perla. Við eigum að koma vegasamgöngum í lag og hafa þann flugvöll sem þjónar því byggðarlagi í lagi. Við eigum að taka hatt okkar ofan fyrir því fólki sem hefur búið þar og verið að yrkja jörðina og stunda þar öfluga ferðaþjónustu okkur öllum til sóma. Ferðaþjónustan þar er orðin þekkt víða um heim og þetta er perla sem við eigum að varðveita.

Varðandi opinberu störfin tel ég að við eigum að horfa til nýrra starfa. Það hefur orðið fjölgun starfa í opinbera geiranum. Þegar einhver ný störf verða til í opinberum geira finnst mér að við eigum fyrst og fremst að skoða möguleika á að reisa þau úti á landsbyggðinni. Við vitum að með öflugum háhraðatengingum og betri tækni er hægt að stunda vinnu vítt og breitt í gegnum tölvu. Það er mjög mikilvægt að þá skiptir ekki máli hvar menn eru staðsettir ef háhraðatengingar eru í lagi. Ég tel að hvert ráðuneyti fyrir sig, og tel að það hafi verið í skoðun hjá okkur á síðasta kjörtímabili og hafi verið unnið að því, eigi að skilgreina möguleika hjá sjálfu sér til að flytja opinber störf út á land, en ekki (Forseti hringir.) með slíkum bægslagangi og ruddaskap gagnvart starfsfólki (Forseti hringir.) eins og gert var í tilfelli Fiskistofu. Ég er andvíg því.