144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er gott að hlusta á slíkan höfðingja og fróðleiksbrunn sem hv. þingmaður er, þó að fullorðinn sé orðinn, og mættu margir hv. þingmenn læra margt af honum. Hefði verið betur hefði hann haft tækifæri til að halda áfram því öfluga starfi sem var hjá fyrri ríkisstjórn, eins og að færa verkefni. Einn möguleikinn er einmitt að færa verkefnin. Eins og ég þekki á Ísafirði eru þar þau samlegðaráhrif að útibú frá Hafrannsóknastofnun, Vinnumálastofnun og fleiri aðilum eru undir sama þaki og þar er háskólasetrið og fleira. Ýmis fagþekking er til staðar og nýtist öllum þessum útibúum. Það verður að standa vörð um slíkar stofnanir og það á auðvitað við á mörgum öðrum stöðum á landinu.

Þar sem ég þekki til, í minni heimabyggð, hafa menn barist með oddi og egg við að halda til dæmis tveim störfum hjá Fiskistofu. Þar hefur alveg legið niðri frá áramótum og síðustu fréttir eru að það sé búið að færa veiðieftirlitsstarf sem átti að vera þar undir Matís og menn tala um að það eigi að fara á Selfoss. Menn geta ekki boðið upp á slíkan dans, að það sé ekkert öryggi og menn hrósi sér síðan af því að það sé verið að flytja störf út á land í heilu lagi, heilar stofnanir, en geta ekki staðið vörð um þau störf sem fyrir eru og búið er að hafa mikið fyrir og berjast fyrir að fá úti um land. Ég veit að það er á brattann að sækja (Forseti hringir.) og það eru víða ljón í veginum en við sem erum hlynnt því að flytja störf út á land verðum að reyna (Forseti hringir.) að standa betur saman.