144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það heyrist á þeirri ræðu sem og fleirum að hv. þingmaður hefur talsvert meiri þingreynslu en sá sem hér stendur. Þess vegna langaði mig að fræðast aðeins um það hvernig hlutunum hefur verið háttað í gegnum tíðina. Ég furða mig nefnilega stundum á hinum ýmsa rökstuðningi sem er notaður við ákvarðanatöku hér á bæ og hjá hæstv. ríkisstjórn og ég hváði sérstaklega nýlega þegar ég heyrði rökstuðning í sambandi við almannatryggingar að í staðinn fyrir 3,5% hækkun yrði 3,0% hækkun. Rökstuðningurinn var sá að það hefðu orðið breytingar á þjóðhagsspá og að ekki væri búist við því að vísitala neysluverðs mundi hækka jafn mikið og áður hafði verið spáð. Ef ég lít á 69. gr. laga um almannatryggingar, þá sem notendur almannatrygginga kannast mjög vel við, sé ég ekki betur en að það komi skýrt fram að ákvörðun um þetta skuli taka mið af launaþróun, þó þannig að það verði aldrei minni hækkun en sem nemur breytingu á vísitölu neysluverðs. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður kannist við það að í fortíðinni hafi þessi rökstuðningur verið notaður. Nú hafa launin hækkað meira en vísitala neysluverðs, þ.e. launavísitalan hefur hækkað meira en vísitala neysluverðs. Þetta hljómar í mínum eyrum svolítið sem léleg afsökun frekar en einhvers konar lögmætur og málefnalegur rökstuðningur. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður kannist við það að þetta hafi verið notað áður.

Svo hef ég reyndar aðra spurningu líka í sambandi við Ríkisútvarpið. Þar er annað dæmi í gangi og ég hefði áhuga á að heyra meira um hvernig málum hefði verið háttað á þinginu í gegnum tíðina. (Forseti hringir.) En ef hv. þingmaður gæti byrjað á að svara þessu væri ég mjög feginn.