144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:19]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Ég held að ég hafi ekki setið jafn lengi á þingi og hv. þingmaður heldur. Þetta er mitt annað kjörtímabil. Ég man samt ýmislegt og hef fylgst með mjög lengi þannig að ég veit eitt og annað.

Það sem ég var að reyna að segja í framsögu minni áðan — nú ætla ég að segja „ég held“ vegna þess að ég er ekki alveg viss, ég er þó búin að reyna að kanna þetta svolítið í dag og ég held að þetta sé einhvern veginn svona: Við höfum alltaf verið á hinni leiðinni. Fjárlagafrumvarpið er byggt á þjóðhagsspá, ég held í júní. Þá er kannski spáð 3% verðbólgu, segjum það. Síðan þegar kemur fram í nóvember er komin nákvæmari spá vegna þess að árið er nær. Hingað til, alltaf sem ég hef munað hingað til, hefur verðbólguspáin verið hærri. Og þá mátti aldrei hækka þessar bætur, örorkulífeyri og það, minna en sem nemur neysluverðsvísitölunni þannig að það hefur alltaf þurft að reikna allt upp á nýtt. Á endanum hefur það yfirleitt þýtt að eftir 2. umr. kemur fjárlagafrumvarpið verr út en þegar það var lagt fram.

Núna er þetta öfugt, við erum í lúxusvandamáli. Það sem hefði verið hægt að gera núna, held ég og mér sýnist það, af því að þessi 0,5% voru þarna inni, er að við hefðum aldrei þessu vant getað farið með hækkunina hærra en sem nemur neysluverðsvísitölunni og þá nær launavísitölunni eða launahækkununum. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður skilur mig (Forseti hringir.) en ég reyndi að vera eins skýr og ég gat.