144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti svar hv. þingmanns bara mjög skýrt. Þetta er einnig minn skilningur en ég hvái í sjálfu sér minna við þetta viðhorf hæstv. ríkisstjórnar gagnvart málaflokknum. Að mínu viti er enginn samfélagshópur sem hefur þurft að þola annan eins forsendubrest og notendur almannatryggingakerfisins, öryrkjar þá alveg sér á báti. Mér hefur sýnst að öryrkjar hafi ætlað að þeir gætu farið eftir ákveðnum forsendum og ein þeirra væri að þessari hækkun væri hagað þannig að það sé reynt að halda í takt við þróun launa en ekki í mesta lagi þróun neysluverðs heldur í versta falli þróun neysluverðs. Núna þegar við sjáum launavísitöluna hækka umfram hefðu öryrkjar og aðrir notendur almannatryggingakerfisins væntanlega getað ætlað að sú forsenda stæði. En ég sé ekki betur en að nú sé annar (Forseti hringir.) forsendubrestur til staðar og þá gerður af ríkisstjórninni.