144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þingmanns gladdi mig, sérstaklega upphafsorð hennar, þar sem hún sagðist ekkert hafa við mál mitt að athuga. Ég á því ekki alltaf að venjast hjá hv. þingmanni en það er önnur saga. Hér ber svo vel í veiði að hér er hv. formaður fjárlaganefndar og mér finnst að hún ætti að skoða þetta tiltekna mál. Það að leggja þetta fé til málaflokksins mundi leiða til þess að hún gæti væntanlega búið til 100–300 millj. kr. Það skiptir töluvert miklu máli.

Því miður er staðan þannig að á undanförnum árum hefur þessi kúfur myndast og það veldur því að fjöldi hælisleitenda, sem við höfum hvorki heimild til þess að leyfa að dvelja í landinu né senda í burtu, er hér staddur og það kostar mikið fé að halda honum uppi. Með því að vinda ofan af þessum kúfi mundum við spara fé, annaðhvort komast að niðurstöðu um hvort þeir fara eða fá leyfi. Við erum (Forseti hringir.) að tala um sparnað fyrir skattborgarana.