144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta þykir mér mjög góð spurning. Hún lýtur að því hvernig við vinnum almennt á Alþingi. Við erum fulltrúasamkunda og eigum að standa fyrir sjónarmið þjóðarinnar allrar. Við gætum gert meira af því að leita eftir sjónarmiðum almennings beint. Um það höfum við góð dæmi erlendis frá, við þekkjum hið fræga dæmi frá Brasilíu þar sem fjárlagagerðin hefur verið unnin í samráði við almenning, í sveitarfélaginu Porto Alegre ef ég man rétt. Beint lýðræði snýst nefnilega alls ekki bara um þjóðaratkvæðagreiðslur, svo dæmi sé tekið. Ég hef sjálf verið þeirrar skoðunar að fjárlög séu ekki endilega eitthvað sem eigi heima í þjóðaratkvæðagreiðslu til að tryggja þessi beinu áhrif, heldur ættum við fremur að fara út í undirbúningnum og við vinnu fjárlaga og ræða við fólk og heyra forgangsröðun þess. Ég held að almenningur í landinu sé mjög reiðubúinn til þess að hafa slík áhrif. Við sjáum að það er áhugi á því. Best er einmitt ef það getur gerst á undirbúningsstigi.