144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom líka í ræðu sinni inn á stöðu framhaldsskólanna og þá staðreynd að þar á að grípa til fjöldatakmarkana til þess að eiga fyrir kjarasamningum kennara. Menntaskólinn á Tröllaskaga sem var settur á laggirnar í miðju hruni verður mikið fyrir barðinu á þessu þar sem nemendum á að fækka um 18,4%. Næstnýjasti skólinn, Fjölbrautaskóli Snæfellinga, kemur næstverst út úr þessum fjöldatakmörkunum því að þar á nemendum að fækka um 17%. Upptökusvæði skólanna er ekki mjög fjölmennt. Þegar búið er að taka 25 ára og eldri sem vilja fara í bóknám út úr skólasamfélaginu kemur það líklega niður á námsframboði. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér framhaldsskólakerfið þróast frá þessari stöðu og svo í framhaldinu þegar styttingin kemur?