144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:25]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég gagnrýni ekki síst við þá tillögu um að loka skólunum fyrir eldri en 25 ára er sú staðreynd að við erum hvergi nærri búin að ná því markmiði sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni sem er að hækka hlutfall þeirra sem hafa lokið námi á framhaldsskólastigi nægilega mikið. Við erum á góðri leið eins og ég fór yfir og ég tel að bæði aðgerðir á árunum 2005–2008 og 2009–2013 hafi skilað góðum árangri, en við erum ekki búin að ná þeim markmiðum sem við settum okkur. Þess vegna finnst mér þessi ráðstöfun illa ígrunduð og í raun óskiljanleg. Hún byggir ekki á gögnum, segjum að við værum komin upp í það sem við gætum kallað ásættanlegt hlutfall og menn segja: Hér erum við bara búin að vinna slíkt þrekvirki að nú ætlum við að draga saman seglin í þessu.

Síðan má alltaf spyrja sig hversu margir framhaldsskólar eigi að vera í landinu. Það er önnur spurning sem mér finnst við í þinginu ekki alveg hafa náð saman um. Þvert á flokka finnst okkur öllum að nemendur eigi að geta sótt nám í sinni heimabyggð en á sama tíma tölum við fyrir aukinni hagræðingu í framhaldsskólakerfinu. (Forseti hringir.) Nám í heimabyggð kostar peninga, ekki síst í strjálbýlu landi. Við hljótum að þurfa að ræða okkur niður á einhverja ásættanlega lendingu í þessu máli.