144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir ágæta ræðu en hún fjallaði reyndar ekki mikið um málið sem við erum að ræða í dag. Hún fjallaði um síðasta kjörtímabil og ég get alveg tekið undir að það voru erfiðir tímar og ríkisstjórnin gerði ýmislegt gott, t.d. í því að skera niður. Hins vegar var ég ekki sáttur við að hún lagði skatta á löskuð heimili og fyrirtæki og samþykkti Icesave sem þjóðin reyndar bjargaði fyrir horn.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um RÚV. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði í ræðu í gær að RÚV hefði yfirleitt alltaf fengið útvarpsgjaldið meira og minna að fullu. Þetta eru eins konar markaðar tekjur. Þá spyr ég hv. þingmann: Samkvæmt 41. gr. stjórnarskrárinnar má ekkert gjald greiða úr ríkissjóði nema fyrir því sé heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum. Er stjórnarskráin ekki sterkari en önnur lög? Útvarpsgjaldið á ekkert að renna til RÚV nema fjárlaganefnd og Alþingi samþykki það í fjárlögum.