144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:01]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að taka þátt í þeirri ágætu umræðu sem hér hefur farið fram frá því í gær um fjárlagafrumvarp stjórnarmeirihlutans. Sú umræða hefur að mörgu leyti verið málefnaleg og er mjög fróðlegt að fylgjast með henni, sérstaklega fyrir mann eins og mig sem hefur ekki verið með beina aðkomu að fjárlagagerðinni, situr ekki í fjárlaganefnd en hefur þó verið á þingi frá því 2009. Ég hef reynt eftir fremsta megni að koma hér og taka þátt í umræðunni vegna þess að í fjárlagafrumvarpinu birtist eða ætti að birtast framtíðarsýn stjórnvalda hverju sinni, hvers lags samfélag það er sem menn vilja stefna að því að búa til. Því miður er kannski erfitt að lesa það úr því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar hvert menn eru að stefna því þvert á móti virðist það vera gegnumgangandi þráður, samhangandi þráður í fjárlagafrumvarpinu almennt stefnuleysi, skortur á langtímaáætlunum, skortur á langtímahugsun og skortur á að almennir verkferlar séu virtir. Þetta er eitthvað sem fólk í mínum flokki, Bjartri framtíð, hefur mikið fjallað um og hefur mikinn áhuga á því að reyna að laga.

Þá ætla ég að byrja á því að fjalla um það sem mér finnst skipta máli í þessu efni og við höfum lagt áherslu á, það eru verkferlarnir þegar kemur að því að fjalla um fjármál ríkisins.

Tillögugerðin hefur að einhverju leyti verið að hnikast í rétta átt að því leytinu til að fjárlagafrumvörp koma fram fyrr en þau hafa gert, hafa færst framar á haustið og verkferlarnir lagast aðeins að því leyti. Hins vegar er það núna eins og svo oft áður að frumvarpið er ekki tilbúið þegar það kemur fram. Í því eru tillögur sem eru grunnur frekar en beinlínis sé verið að leggja fram tilbúið fjárlagafrumvarp sem menn geta farið eftir. Þetta hefur þau áhrif í umræðunni og hefur haft þau áhrif lengi að stofnanir sem þurfa að sæta niðurskurði þurfa að setja sig í sérstakar stellingar. Heilbrigðiskerfið, Ríkisútvarpið, hinar og þessar stofnanir sem sinna mikilvægum verkefnum í samfélagi okkar þurfa að einbeita kröftum sínum í að lagfæra tölur í fjárlagafrumvarpinu, að tryggja það að nægt fjármagn fáist til þess að viðkomandi stofnun geti staðið undir hlutverki sínu því það er ekki verið að leggja til breytingar á hlutverkum stofnana samhliða því að menn leggja til breytingar, kannski afgerandi breytingar á rekstrargrundvelli þeirra. Þess vegna fara stofnanir í viðbragðsstöðu, reyna að bregðast við. Mikill kraftur og einbeiting fer í það að leiða hið sanna í ljós og þessi saga er endurtekin ár eftir ár. Þetta verður til þess að stofnunum og íslenska ríkinu og stjórnmálakerfinu reynist mjög erfitt að gera langtímaáætlanir sem standast og skipuleggja sig þannig að það sé raunverulegur agi, strúktúr, í rekstrinum og menn viti að hverju þeir ganga frá ári til árs.

Það bregst heldur ekki að í hvert skipti sem lagt er fram fjárlagafrumvarp, og það er mjög áberandi núna af hálfu núverandi stjórnarmeirihluta, að menn tala mikið um aðhald, festu og aga. Þegar það er síðan skoðað blasir við að það er ekki í neinu samhengi við raunveruleikann. Menn sýna ákveðið aðhald innan þess ramma sem þeir hafa sjálfir skapað sér, en stjórnvald sem ákveður að setja 80 milljarða í skuldaleiðréttingu til að mæta kosningaloforði, einhverju svakalegasta kosningaloforði sem sett hefur verið fram í íslenskri stjórnmálasögu, getur ekki með trúverðugum hætti talað um að verið sé að sýna aðhald, festu og aga.

Ég var á þingi á síðasta kjörtímabili þegar gatið sem stjórnarmeirihlutarnir þurftu að loka þá var upp á 216 milljarða. Og niðurskurðurinn sem blasti við á hverju yfirstandandi þingi var upp á tugi milljarða. Ég held að samanlagt hljóti þetta að hafa verið niðurskurður upp á rúmlega 200 milljarða á þeim tíma. Þá reyndi virkilega á að sýna aga og festu og ráðast í mjög erfið verkefni sem reyndu á alla. Þegar menn horfa til ríkisfjármálanna er stundum talað eins og að í Stjórnarráðinu sé einhvers konar sveif sem forsætisráðherrar eða stjórnmálamenn standi við og sumir séu betri í því að snúa þeirri sveif en aðrir; þetta er sveifin sem lætur hjól atvinnulífsins ganga eða hjól efnahagslífsins ganga. En það er ekki svona. Það eru rosalega margir samverkandi þættir sem skila sér í efnahagsbata og þeir þættir sem hafa reynst afgerandi er sá agi og það aðhald sem menn sýndu í kjölfar hrunsins sem varð hér í lok árs 2008.

Sá efnahagsbati sem við höfum upplifað á síðustu árum og í raun sá efnahagsbati sem hefur verið á Íslandi síðan á hverju ári síðan 2010 er því að þakka. Það er alveg sama hvaða ríkisstjórn hefði tekið við þann dag árið 2013, sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar ræðir mjög oft í þessum ræðustól, en ég man ekki nákvæmlega hvaða dagur það var, þegar skipt var um stjórnvöld og stjórnarmeirihluta á þingi. Það hefði engu máli skipt hvaða flokkar það hefðu verið, við værum í nákvæmlega sömu stöðu með ríkisfjármálin núna, kannski mínus eða plús 1, 2 milljarða til eða frá eftir því hver það hefði verið. Þetta er spurning um áherslur en ekki miklar breytingar. Ríkisfjármálin eru eins og risavaxið flutningaskip og breytast mjög hægt. Það þarf að taka beygjurnar með mjög löngum aðdraganda og er langt þangað til menn sjá skipið haggast eitthvað.

Nú erum við komin í þá stöðu hér á okkar blessaða landi að hagurinn hefur vænkast. Þess vegna væri mjög ákjósanlegt ef menn mundu hafa þá framtíðarsýn til að bera að nýta það fjármagn sem hægt er að ná í á þessum tímapunkti, eins og t.d. þá 80 milljarða sem verið er að setja í skuldaleiðréttinguna, til að huga betur að grunninum til frambúðar, búa til umhverfi sem gerir okkur kleift að vinna til lengri tíma, gera stofnunum okkar kleift að gera langtímaáætlanir, vinna í málum sem hafa kostað peninga og okkur hefur skort fjármagn til að klára, leggja áherslu á uppbyggingu innviða samfélagsins og á sama tíma borga niður dýrar skuldir sem valda okkur miklum kostnaði í vaxtagjöldum.

Því miður er það svo að 20 milljarðar á fjárlögum yfirstandandi árs fóru í skuldaleiðréttingar til hluta þjóðarinnar og ef ég man rétt 16 milljarðar til viðbótar sem settir voru inn á fjáraukann. Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir og það er helmingur heimilanna í landinu sem fær eitthvað af þessu, mismikið, hin ekki neitt. Þetta er gert þrátt fyrir að hagtölur sýni að skuldir heimila og fyrirtækja hafi batnað samfara þeim efnahagsuppgangi sem ég talaði um og við höfum séð á undanförnum árum, þrátt fyrir að það endurspeglist í lægri skuldabyrði, bættri eignastöðu og lægri vanskilahlutföllum.

Það segir orðrétt í riti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika að dregið hafi úr skuldavanda einstaklinga. Í árslok 2013 skulduðu um 29,9% einstaklinga 95% eða meira af eignum sínum miðað við 31,3% árið 2012, 32,8% 2011 og 35,3% árið 2010. Þetta hefur því verið hægt og rólega að lagast á síðustu fjórum árum. Þá hefur hrein eign heimila aukist og ekki verið meiri frá aldamótum að undanskildum árunum 2005–2007 og að í upphafi árs 2014 hefur í fyrsta sinn frá ársbyrjun 2009 verið marktæk fækkun einstaklinga á vanskilaskrá og sú þróun hefur haldið áfram.

Við í Bjartri framtíð höfum haldið því fram að þær dýru aðgerðir sem nú er verið að ráðast í geti með engum hætti bætt tjónið sem varð af völdum efnahagshrunsins 2008. Það var ekki bundið við fasteignaeigendur einvörðungu og því ekki sanngjarnt að veita háum upphæðum úr sameiginlegum sjóðum til þess hóps á meðan t.d. leigjendur sitja óbættir hjá garði eða fólk sem hefur selt fasteign sína og er búsett í útlöndum eða þeir sem eiga hlut í búsetuúrræði. Þá er í aðgerðunum ekkert tillit tekið til tekna eða eignastöðu heimila sem fá niðurfellinguna, en mörg dæmi eru um að húsnæði hafi hækkað í verði umfram hækkun verðtryggðra lána og því eru rökin um forsendubrest afar veik.

Þetta vildi ég tiltaka og er ekki eitthvað sem er bara byggt á skoðunum mínum, þetta eru opinberar tölur úr ársriti Seðlabanka Íslands, Hagtölum, sem sýna svo ekki verður um villst að það umhverfi sem tókst að skapa í kjölfar hrunsins hefur leitt til efnahagsbata, ekki landsins heldur einstaklinga. Það hefur leitt til þess að fólk er að sjálfsdáðum að ráða fram úr sínum vanda. Þess vegna hefði verið miklu skynsamlegra og miklu líklegra til að hjálpa fleirum að nýta þá peninga sem hægt var að ná inn, t.d. með bankaskattinum, til þess að bæta umhverfið, gera efnahagsumhverfið enn þá stöðugra, virkja stjórnmálalífið til þess að búa til markaðshagkerfi sem byggir á frjálsri samkeppni, samkeppni um vinnuafl sem leiði til aukinnar hagsældar fyrir alla. En þetta er ekki sú leið sem verið er að fara.

Það eru mörg atriði í fjárlagafrumvarpinu sem eru skólabókardæmi að mínu mati um vonda ákvarðanatöku, illa undirbyggða og ekki heildstæða ákvarðanatöku í ríkisfjármálunum. Það eru til dæmis atriði í frumvarpinu sem varða uppbyggingu ferðamannastaða sem mig langar til þess að gera sérstaklega að umræðuefni, vegna þess að stjórnarmeirihlutinn hefur haft tækifæri til þess núna á undanförnu ári að draga lærdóm af mistökum sem hann gerði þó ekki lengra aftur í tímann en bara fyrir tólf mánuðum. Það eru allir sammála um og hafa verið lengi að uppbygging á ferðamannastöðum í ljósi þeirrar miklu fjölgunar ferðamanna sem blasir við okkur sé nauðsynleg. Hættan er sú, ef ekki er brugðist við af stórhug og festu, að viðkvæm svæði skemmist og að upplifun ferðamanna á ákveðnum fjölsóttum svæðum verði neikvæð vegna mikils fjölda ferðamanna, moldarsvaðs og skorts á salernisaðstöðu og svo framvegis. Þrátt fyrir það sem við blasti í þeim efnum fyrir einu ári var skorið niður úr 487 millj. kr. á síðasta ári niður í 261 á þessu ári.

Við gagnrýndum þessa ráðstöfun harðlega á síðasta ári, enda var ljóst að hún mundi engan veginn standa undir nauðsynlegum aðgerðum. Það var líka algerlega ljóst að engir peningar mundu koma inn á þessu ári af hinum svokallaða náttúrupassa eða gistináttagjaldi eða hvaða leið menn færu til þess að reyna að auka tekjustreymið. Í ljós hefur komið, ef menn skoða einfaldlega staðreyndir málsins, að gagnrýni okkar fyrir ári, fyrir rétt rúmum tólf mánuðum, átti fullkomlega við rök að styðjast. Á fjáraukalögum í haust var óskað eftir 384 millj. kr. framlagi til að tryggja fjármuni til brýnna verkefna á ferðamannastöðum er lúta að verndun náttúru og öryggis ferðamanna í kjölfar örrar fjölgunar þeirra á síðustu árum. Að auki bættust við 30 millj. kr. vegna hærri gistináttaskatts. Ástæðan fyrir beiðni um þetta aukafjárframlag var sögð sú að vinnu við fyrirkomulag á fjármögnun framkvæmda á ferðamannastöðum hefði seinkað. En það lá þó ljóst fyrir að gjaldtaka í formi ferðamannapassa hefði aldrei getað komist til framkvæmda á árinu enda ítrekaði hæstv. iðnaðarráðherra hversu mikilvægt væri að fara sér hægt og vanda til verka.

Í dag hefur komið í ljós að leiðin sem hæstv. ráðherra valdi að fara í þessum efnum hefur reynst mjög óaðlaðandi. Það er afar lítil stemning fyrir henni í samfélaginu. Það virðist í raun og veru ekki vera mikil stemning fyrir því í stjórnarliðinu að fara þá leið sem lögð hefur verið til. Stjórnin hefði átt að hlusta á gagnrýni okkar á síðasta ári og fara eftir tillögum okkar. Það er mjög óæskilegt að reka ríkið eftir á, þ.e. með afgreiðslu fjáraukalaga. Fjáraukalög eru til að tryggja fjármagn vegna óvæntra og ófyrirséðra verkefna en ekki til að fjármagna verkefni sem stjórnvöld vanáætla á fjárlögum. Hafa þau lært af þeim mistökum frá því í fyrra? Öðru nær. Þvert í móti.

Núna er gert ráð fyrir 145 millj. kr. í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða á fjárlögum næsta árs, væntanlega upp á von og óvon um að lög um náttúrupassa gangi eftir. En ég verð að segja að mér finnst afar óskynsamlegt að halda áfram með það mál á þeim nótum sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra virðist hafa einsett sér. Það er ekki bara það að ferðaþjónustan hafi skipt um skoðun eins og ráðherrann heldur fram heldur virðist útfærslan einfaldlega vera svo meingölluð að fáir treysta sér til þess að verja framgang málsins, sem síðast þegar fréttist situr fast í þingflokki Framsóknarflokksins. Nú er það svo að menn í þinginu sem hafa áhyggjur af þessu vona að framsóknarmenn sitji sem allra lengst á málinu.

Nefndar hafa verið nokkrar leiðir til þess að auka tekjustreymið og skapa fjármagn til að grípa til nauðsynlegra aðgerða eins og t.d. leið sem ég fjallaði um í þinginu fyrir rúmu ári síðan og hefur verið kölluð nýsjálenska leiðin. Þar eru einfaldlega gerðir fjármögnunarsamningar eða samningar um sérstakar greiðslur frá þeim fyrirtækjum sem hagnýta á einhvern hátt náttúruna. Selji menn rútuferðir á einhvern tiltekinn stað í íslenskri náttúru eru þeir með samning um það við ríkið og skila ákveðnum tekjum í sameiginlega sjóði af þeim rekstri. Það eru þá auðvitað ferðamennirnir sem greiða það gjald, en almenningur sem ferðast á eigin bílum og á eigin vegum um eigið land í krafti almannaréttar sem ríkt hefur hér í rúm þúsund ár heldur því bara áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það er ein leið. Svo er sú leið sem aðilar í ferðaþjónustu hafa nefnt sem er að hækka hinn svokallaða gistináttaskatt og láta tekjurnar skila sér með þeim hætti.

Það hefur ekki verið dreginn neinn lærdómur, hvorki af þeim tillögum sem fluttar hafa verið í þessum efnum né þeim aðvörunarorðum sem látin voru falla, haldið er áfram á sömu braut. Mér finnst það í raun og veru alveg með ólíkindum að horfa upp á það þegar ráðherra kemur hingað í ræðustólinn í þessari viku og segir að þetta sé nú ekki hugmynd sem sé frá henni sjálfri komin. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir að þetta sé eitthvað sem hafi verið mikil stemning fyrir hér áður og kynnir til alls konar hugtök og hugmyndir sem ég held að enginn hafi gert sér í hugarlund, eins og t.d. um náttúruverði sem eigi að sjá um að innheimta gjöld af fólki þegar það er í berjamó einhvers staðar í íslenskri náttúru sem hingað til hefur verið talinn sjálfsagður hlutur. Nei, það er haldið áfram á sömu braut og var á síðasta ári. Núna eru enn þá minni peningar settir í nauðsynlega uppbyggingu. Gert er ráð fyrir 145 millj. kr. eftir að menn hafa sótt 384 millj. kr. framlag á fjáraukanum til að tryggja fjármagn í nauðsynlegar aðgerðir.

Mig langar líka, af því að tíminn er naumt skammtaður í þessari umræðu, að tæpa aðeins á heilbrigðismálunum og gera að umtalsefni framgöngu ríkisstjórnarinnar gagnvart Landspítalanum og heilbrigðismálum í landinu. Enn einu sinni blasir þar við grafalvarleg staða. Þrátt fyrir eftiráreddingar við fjárlagafrumvarpið sem menn hafa gripið til núna finnst mér mjög alvarleg staða blasa við og stjórnarflokkarnir horfa langt fram hjá ábyrgð sinni í þessum efnum. Allir sem hafa reynt það á eigin skinni, ég hef nú gert það á þessu ári, að þurfa á hjálp heilbrigðiskerfisins að halda gera sér grein fyrir því hversu gríðarlega mikilvæg starfsemi fer þar fram, hversu miklum tilfinningalegum og fjárhagslegum kostnaði er forðað þegar hægt er að koma einstaklingi aftur á fætur, þegar hægt er að bjóða upp á það að skila einstaklingi sem hefur laskast, veikst eða skaðast á einhvern hátt, aftur á fætur og inn í samfélagið á sama stað og hann var áður. Það er eiginlega ekki hægt að setja neinn verðmiða á slíka þjónustu. Hver og einn sem á því þarf að halda áttar sig á hversu gríðarleg verðmæti eru fólgin í því. En menn sjá líka að þarna hefur verið af illri nauðsyn skorið niður í mjög langan tíma og allt of lengi. Nú horfum við framan í heilbrigðiskerfi sem er orðið svo aðframkomið af niðurskurði að erfitt er að sjá fyrir sér að menn geti með einu pennastriki eða með einum fjárlögum lagað þá stöðu sem upp er komin. Það er einfaldlega þannig að þegar maður er búinn að hökta á skrjóðnum í nokkur ár og hefur reynt með lágmarksviðhaldi að halda honum gangandi, ef maður grípur ekki til afgerandi aðgerða, þá á endanum hrynur hann. Þá er ekkert hægt að gera lengur. Mér finnst staðan vera þannig.

Ég verð að segja að 1 extra milljarður, þótt það sé góðra gjalda vert og ég ætla ekki að gera lítið úr því, er bara ekki nóg. Það dugar ekki til. Ég tala nú ekki um þegar menn horfa fram í jafn alvarlega stöðu og upp er komin í læknaverkfallinu, því fyrsta, sem blasir við okkur sem samfélagi. Það er líka hluti af stærri mynd. Það er viðbragð, ekki bara við kjörum lækna heldur aðbúnaði heilbrigðisstétta í landinu í allt of langan tíma. Ég hélt satt best að segja í lok síðasta kjörtímabils, þegar búið var að tryggja alvörufjármagn og tekin hafði verið ákvörðun um uppbyggingu Landspítala á þeirri lóð sem hann er á núna vegna þess að það er fjárhagslega mjög skynsamlegt að gera það, þar er mest af húsnæði sem nýtist á því svæði núna, að þjóðarsátt hefði myndast um það verkefni. Ég var alveg sannfærður um að nú værum við komin á þann stað að við mundum beygja því skipi í rétta átt, þótt hægt færi væri stefnan tekin í rétta átt. En því miður, ný ríkisstjórn ákvað að hægja mjög á þeirri stefnubreytingu og setja hana eiginlega í mikið uppnám. Það er ekki fyrr en núna eftir mikla gagnrýni og mikla umræðu og fólksflótta og því miður flótta sérfræðinga úr landi, sem ríkisstjórnin er að taka við sér. Það er að mínu mati allt of hægt, of lítið, of seint. Einhverjir fjármunir eru settir í að undirbúa byggingu sjúkrahótels og myndast við að fara af stað með þær fyrirætlanir sem lengi hefur verið fjallað um, en mér finnst það of lítið. Við horfum framan í það, út af læknaverkfallinu þar sem ríkisstjórnin hefur ekki látið til sín taka með nægilega afgerandi hætti, langt í frá, að uppsagnir fólks blasa við. Við fáum fréttir af því á hverjum degi. Auðvitað er það ekki bara spurning um kjör þessa fólks. Það er spurning um áherslu stjórnvalda, aðbúnað og almenna framkomu. Við stjórnmálastéttin þurfum að taka það til okkar og sérstaklega þeir sem veita ríkisstjórnum forsvar að því sé komið rækilega til skila hversu mikilvægt það er samfélaginu að hafa þessa hluti í lagi. Mér finnst það ekki vera gert og mér finnst sú áhersla ekki birtast nægilega skýrt í fjárlagafrumvarpinu.

Mig langar líka til þess að taka smáumræðu um Ríkisútvarpið, sem er önnur af þeim stofnunum, enn ein af þeim stofnunum sem á hverju ári kemst í fréttirnar og kemst til umræðu og þarf að bregðast við vegna fyrirætlana ríkisstjórnarinnar.

Ég hlustaði á tvær ræður hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni í gær sem fjölluðu um viðskipti hans við Ríkisútvarpið í vikunni þar sem hann sagði farir sínar ekki sléttar og ég ætla svo sem ekki að fjölyrða um það. En ég vil þó segja að mér finnst mjög óeðlilegt að menn geri að umtalsefni samskipti sín við fréttamiðil sem er í opinberri eigu á sama tíma og fjallað er um fjármál hans. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Mér finnst ekki góður bragur á því að menn séu í ósætti sínu að fjalla um það annars vegar að þeir séu ekki ánægðir með það hvernig þeir eru höndlaðir af ríkismiðlinum og á sama tíma séu þeir hins vegar að fjalla um fjárframlög til miðilsins, svo það sé sagt í þessari umræðu.

Ég vil líka tala um þann niðurskurð og það uppnám sem nú er á þeirri ágætu stofnun sem ég mundi telja að væri með þeim mikilvægari í landi okkar. Það hefur sem sagt verið ákveðið að Ríkisútvarpið fær útvarpsgjaldið að fullu á næsta ári, en útvarpsgjaldið er lækkað þannig að reksturinn verður aftur enn eitt árið mjög erfiður þar. Þetta er dálítið undarleg ákvörðun vegna þess að þetta er ákvörðun sem hefur engin áhrif á sjóðstreymi ríkissjóðs. Í raun og veru er verið að taka ákvörðun um þá peninga sem fara beint af nefskatti til stofnunarinnar. Mér finnst leiðinlegt að horfa upp á þetta vegna þess að mjög margir jákvæðir hlutir hafa verið að gerast á Ríkisútvarpinu að undanförnu. Án þess að ég geri lítið úr þeim stjórnendum sem nú hefur verið skipt um þar eða hafa verið þar í langan tíma finnst mér bara dálítið skemmtilegt að upplifa þau algjöru kynslóðaskipti sem orðið hafa á Ríkisútvarpinu á síðustu missirum og árum með nýjum útvarpsstjóra og nýjum millistjórnendum á öllum sviðum stofnunarinnar. Ég verð að segja að þegar maður kemur inn á Ríkisútvarpið núna, það geri ég nokkrum sinnum, tvisvar, þrisvar í mánuði vegna viðtala eða einhvers slíks, finnst mér andinn vera annar þar. Það er búið að minnka húsnæðið, það er búið að þjappa fólki betur saman, það eru alls konar hlutir að gerast þar í dagskrárgerð sem eru mjög áhugaverðir og spennandi og þeir eru mikilvægir. Þeir eru mikilvægir á tímum þar sem sjónvarpsstöðvar, almennar sjónvarpsstöðvar eru ekki lengur að keppa sín á milli heldur fyrst og fremst við gerbreyttan veruleika, netsjónvarpsstöðvar sem bjóða upp á miklu ódýrara afþreyingarefni á mjög einfaldan hátt heima í stofu fólks, mikið magn af ólöglegu niðurhali, gríðarlegt magn af sjónvarpsefni, ólöglegu og löglegu, sem í boði er á internetinu. Það er þetta sem stofnun eins og Ríkisútvarpið sem hefur það hlutverk að varðveita þjóðararfinn, að vera heimili og varnarþing hinnar íslensku tungu, þarf að keppa við. Það er þetta hlutverk sem verið er að ráðast á og gera lítið úr þegar menn gæta ekki að því að passa upp á fjármögnun þessarar stofnunar.

Eina leiðin fyrir okkur sem þjóðfélag til að bregðast við þessu, ef við á annað borð viljum hafa ríkisútvarp og ríkissjónvarp, ég er svo sannarlega í þeim hópi sem vill það, bregðast við niðurhali, við framboði á mjög ódýru erlendu sjónvarpsefni fyrir unga fólkið, er innlend framleiðsla, vönduð innlend framleiðsla. Þetta höfum við séð sem viðbragð ríkissjónvarpa á Norðurlöndunum, sérstaklega í Danmörku í sjónvarpsefni sem hefur verið framleitt þar. Þar hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um að setja raunverulegt fjármagn í að búa til efni sem fjallar um samtímann og speglar menninguna og stjórnmálalífið. Þættir eins og Borgin eða glæpaþættir sem sýna fram á samspil lögreglu, ákæruvalds, framkvæmdarvalds, þættir eins og nú er verið að sýna og fjalla um sögu Danmerkur og skapa umræðu, skapa þjóðarvitund, varðveita menningararf og eru gríðarlega mikilvægir í alþjóðlegu samhengi lítilla þjóða til þess að varðveita sérstöðu sína. Þetta er það sem RÚV á að mínu mati að gera.

Það sem Ríkisútvarpið ætti að fá núna frá okkur er fjármagn sem gert er ráð fyrir með nefskatti, óskipt og nægilegt til að það geti staðið undir sínu hlutverki. Það hafa mjög ánægjulegir hlutir verið að gerast þar. Við eigum að veita Ríkisútvarpinu skjól til þess að geta staðið við hlutverk sitt og staðið vörð um það sem okkur finnst skipta máli. Það er ekki verið að gera það. Þvert í móti. Það er verið að andskotast út í þessa stofnun daginn út og daginn inn og menn með ósætti vegna þess að þeir eru ekki ánægðir með dagskrárstefnuna, efnistök og svo framvegis. Við þekkjum það hvernig sú umræða varð í aðdraganda fjárlagagerðar og í fjárlagagerðinni á síðasta ári þegar formaður svokallaðrar hagræðingarnefndar snerist öndverður gegn stofnuninni og lét í það skína að það mundi bitna á stofnuninni þegar niðurskurðarhnífurinn yrði brúkaður.

Það má svo velta því fyrir sér núna, þegar menn þykjast vera hér í miklum aðhaldsverkefnum en eyða á sama tíma 80 milljörðum í að leiðrétta einkaskuldir, hver árangurinn af þessari svokölluðu hagræðingarnefnd er þegar upp er staðið, vegna þess að hún virðist fyrst og fremst hafa staðið í því að hagræða sannleikanum og engu öðru.

Til þess að bæta síðan gráu ofan á svart, ef horft er á fjárstjórnina og fjárlagagerðina alla, tekjur og útstreymi, eru hærri álögur á útgáfu bóka og tónlist. Ljósu punktarnir í þróun okkar samfélags frá því í hruni, gróskan sem skapaðist þegar tónlistarmenn, listamenn, rithöfundar, fóru að bregðast við hruninu, fjalla um það jafnvel, gefa út sína tónlist — það er verið að bregðast við henni ekki þannig að menn séu að ýta undir hana heldur að reyna að kæfa hana, minnka hana, gera það dýrara að gefa út bækur, gera það dýrara að kaupa bækur, gera það dýrara að gera tónlist, gera það dýrara að kaupa hana. Á sama tíma er allur almenningur látinn borga meira fyrir matinn. Sykur lækkaður og græjur lækkaðar. Allur matur verður dýrari nema óhollur matur verður ódýrari.

Þetta voru þau atriði sem ég vildi gera að umtalsefni í ræðu minni um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Ég hef hvatt stjórnarmeirihlutann til þess — leiðinlegt að sjá engan fulltrúa hans hér í salnum, en vonandi lesa þeir þessa ræðu áður en þeir fara að sofa í kvöld — að fara vandlega yfir þær breytingartillögur sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lagt til sameiginlega við fjárlagafrumvarpið Það er nú ekki eins og það séu nýgræðingar í þeim hópi sem hefur verið að fara yfir þau mál, þetta er fólk sem hefur bæði gegnt embætti fjármálaráðherra og verið mjög lengi í fjárlagagerð og kemur með margar góðar og þarfar ábendingar. Ég ætla bara að nefna sem dæmi að sú ábending sem kom á síðasta ári um þann pening sem áætlaður var í uppbyggingu ferðamannastaða stóð mjög vel heima. Þegar upp var staðið vantaði hvorki meira né minna en 400 milljónir sem menn þurftu að bæta sér til þess að geta staðið undir þeim verkefnum sem til féllu á árinu. Það gæti verið þessu máli mjög til framdráttar ef minni hlutinn fengi að koma með nokkrar af þeim hugmyndum sem hann hefur kynnt í breytingartillögum sínum og lagfæra það fjárlagafrumvarp sem hér blasir við okkur. Ég tiltek þau atriði sem ég hef farið yfir í ræðu minni sem ég takmarkaði við það að ég gæti mögulega farið yfir þrjú svið eða svo og hef gert það hvað varðar skuldaleiðréttinguna, stöðuna í heilbrigðiskerfinu, hvernig framþróun í ferðamálabransanum hefur orðið og stöðuna gagnvart Ríkisútvarpinu. Það eru til dæmis atriði sem varða Ríkisútvarpið sem gætu til muna bætt stöðuna.

Að lokum vil ég lýsa yfir mjög eindregnum vilja mínum til þess að menn reyni síðan enn frekar í næstu umferð, næst þegar þeir fara í fjárlagavinnu, að skila inn til þingsins fullbúnari afurð en þeirri sem við höfum séð hér. Menn í meiri hlutanum hafa gumað af því að aldrei hafi verið jafn langur tími gefinn í að fara yfir fjárlagafrumvarp og ræða það frá því það er lagt fram og þangað til kemur til 2. umr. í þinginu. En hvað var að gerast á þeim tíma? Hann einkenndist að mestu leyti af biðleikjum, frestunum á umræðum og menn voru að bíða eftir því að sjá hvernig breytingartillögurnar yrðu frá meiri hlutanum, hvernig lagfæringar þeirra á eigin frumvarpi mundu líta út. Hvaða ástæða er til þess að guma sig af því að hafa tekið lengsta tíma í Íslandssögunni í það að laga eigið frumvarp? Að eiga einhvers konar Íslandsmet í því að lagfæra, mér liggur við að segja eigin hrákasmíð. Ég held að það sé ekki eitthvað til að monta sig mikið af. Það væri aðdáunarvert og mikill sómi að því ef menn gætu lagt fram fjárlagafrumvarp að hausti, í septemberlok eða byrjun október, sem stæðist, sem mundi ekki setja opinberar stofnanir í uppnám, sem mundi ekki lama sömu stofnanirnar ár eftir ár heldur mundi í grófum dráttum standa með örlitlum tilfæringum og lagfæringum af hálfu bæði minni og meiri hluta og að bestu manna yfirsýn. Það væri eitthvað til þess að skrifa heim um ef menn næðu slíkum árangri. En því er ekki að skipta hér.

Þetta eru í mörgum tilfellum ágætisbreytingartillögur sem komu frá meiri hlutanum, skárra væri það nú. Þeir taka við ágætisefnahagsuppgangi þegar þeir koma hér til valda. Í málefnum Ríkisútvarpsins, þegar kemur að uppbyggingu á ferðamannastöðum, þegar kemur að heilbrigðiskerfinu, þá er þetta of lítið og of seint. Því miður.